Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 18:17:04 (5514)

1996-05-02 18:17:04# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[18:17]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. sem nefndarmaður í allshn. þyrfti að skoða fræðin betur. Og ég held að það gildi um marga fleiri í hv. þingnefnd sem hafa gengið á tiltölulega léttum skóm yfir þær umsagnir sem ég vitnaði til varðandi álitaefnin. Ég þarf ekki að ræða nafnleyndarmálið við hv. þm. Það er ekki í því sem ég er að leggja til í þessu sambandi. Þar reynir ekki á nafnleyndarákvæði vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir því að um gjafakynfrumur sé að ræða. Ég hef ekki kveðið neitt upp úr um afstöðu til þess atriðis. Það tel ég minna atriði, þó það sé mikilsvert út af fyrir sig ef innleidd er kynfrumugjöf hvernig á því er haldið. Ég vil leyfa mér að lesa, virðulegi forseti, á norskri tungu sem ég hef nú ekki alveg á valdi mínu en leyfi mér að vitna til vegna þess að hv. þm. er að vefengja hér sem nefndarmaður í allshn. þingsins að ég fari með rétt mál. Það stendur í þessum norsku lögum nr. 56 frá 5. ágúst 1994 varðandi Vilkår for befruktning utenfor kroppen. Er það ekki glasafrjóvgun? ,,Befruktning utenfor kroppen kan bare finne sted når kvinnen eller mannen er befruktningsudyktig eller ved uforklarlig befruktningsudygtighet.`` Síðan stendur: ,,Slik behandling kan bare utføres med parets egne egg- og sædceller.`` Med parets egne egg- og sædceller. Ég reyni að þýða þetta: Slíka meðhöndlun er aðeins hægt að hafa við með eigin egg- og sæðisfrumum parsins. (VS: Ég var ekki að tala um þetta.) Þetta var hv. þm. að tala um hér og sagði að í Noregi væri eingöngu bann við að gefa eggfrumur en sæðisfrumur væri heimilt að gefa. Það var það sem þingmaðurinn sagði.