Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 20:50:56 (5520)

1996-05-02 20:50:56# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, VS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[20:50]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar frv. um lagasetningu vegna tæknifrjóvgunar. Það er ánægjulegt að þetta mál skuli vera komið fram og mikilvægt að það verði að lögum á þessu þingi.

Ég lýsi ánægju með störf hv. allshn. í málinu. Það urðu að vísu vonbrigði að ekki skyldi nást samstaða í nefndinni um þetta mál þar sem um tíma leit svo út að það yrði en sú samstaða náðist ekki eins og liggur fyrir á þingskjölum og varðar það nafnleyndina sem er vissulega mjög viðkvæmt mál.

Með frv. er fyrst og fremst verið að bregðast við ófrjósemi og þess vegna má segja að hér sé um heilbrigðisvandamál að ræða. Það má kannski segja að það sé á vissan hátt verið að taka fram fyrir hendurnar á náttúrunni með því að heimila það sem hér er heimilað með þessari löggjöf, þ.e. ef frv. verður að lögum, en staðreyndin er sú að aðgerðir hafa verið gerðar í allmörg ár sem hníga í þessa átt og hefur lögin vantað.

Eins og ég sagði fyrr í kvöld í andsvari þarf ákveðið frjálsræði í hugsun til þess að samþykkja þau ákvæði sem koma fram í frv., sérstaklega hvað það snertir þegar annar aðilinn í sambúð er ófrjór og framleiðir ekki kynfrumur sem eru nothæfar og þiggur gjafafrumur, en þannig verður það ef frv. nær fram að ganga með þeim breytingartillögum sem lagðar eru til af meiri hluta allshn. sem ég skipa.

Með brtt. er gerð tillaga um að það sé valkvætt hvort foreldrar velja nafnleynd eða ekki. Velji þeir nafnleynd fá hvorki þeir né barn sem verður til né heldur kynfrumugjafi nokkurn tíma upplýsingar um hver gaf viðkomandi kynfrumu eða hver þáði. Þetta er meginreglan. Velji foreldrar ekki nafnleynd, sem gefinn er kostur á með brtt. allshn., getur barnið fengið upplýsingar um uppruna sinn, ef svo má að orði komast, þegar að hefur náð aldri til og eins verður kynfrumugjafa gert viðvart um að hann megi eiga von á því að haft verði samband. Þessi brtt. er ekki síst orðin til vegna þess að við töldum að hún þyrfti að ná fram að ganga ef sá möguleiki að um eggkynfrumugjöf ætti að geta orðið um að ræða. Vegna fjarlægðar er það svo að egg verða varla flutt inn og miklar líkur eru á því ef kona óskar að fá egg að gjöf vilji hún gjarnan leita til einhvers nákomins þar sem þar er um miklu meiri aðgerð að ræða og þar af leiðandi erfitt að koma við nafnleynd.

Hvað það varðar að viðhafa ekki nafnleynd eins og hefur komið fram brtt. um þá er það skoðun mín og miklu fleiri þeirra sem betur þekkja til að það verði mjög erfitt að framkvæma þessa aðgerð hér á landi á þann hátt vegna þess að við Íslendingar höfum skipt við sæðisbanka í Danmörku þar sem nafnleynd er viðhöfð. Í þessu sambandi hefur verið bent á Svíþjóð og þar er ekki nafnleynd en þar mun ekki vera mikið framboð af sæðisfrumum og vil ég segja það sem skoðun mína að mér finnst það mjög skiljanlegt. Mér finnst mjög skiljanlegt að karlmenn veigri sér við að gefa sæðisfrumur ef nafnleynd er ekki viðhöfð og ég segi bara: Hvers vegna skyldu þeir gera það? Ég lít svo á að karmenn sem gefa sæðisfrumur séu að gera það af góðvild og í mannúðarskyni til þess að hjálpa fólki sem á við þann vanda að etja að geta ekki eignast börn og þess vegna sé það ekki áhugamál af þeirra hálfu að hafa nokkurn tíma samband við viðkomandi barn sem hugsanlega yrði til.

Ég vil segja um brtt. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem hann hefur talað fyrir sem kveður á um að ekki geti verið um kynfrumugjöf að ræða heldur sé einungis heimilt að nota kynfrumur viðkomandi pars, þá er það afstaða út af fyrir sig. Mér finnst að það sé allt of skammt gengið og þá sé verið að afnema þá framkvæmd sem hér hefur verið viðhöfð í allmörg ár þó ekki hafi verið lagastoð en það hafa verið skapaðar reglur um þá framkvæmd. Það er óhætt að segja að það hafi tekist mjög vel til og þeir læknar sem þar hafa átt í hlut hafa sýnt mikinn heiðarleika í starfi og mikla færni. Ég vonast sem sagt til að sú tillaga verði felld þar sem hún er ákveðin afturför.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta að sinni en ég legg áherslu á það að frv. með breytingartillögum, sem lagðar eru fram af nær allri allshn. hv. Alþingis, verði samþykktar því að þar er tekið á því heilbrigðisvandamáli sem þetta frv. gengur fyrst og fremst út á að taka á. Það er tekið á ófrjósemi og tekið á þeim vanda sem þeir einstaklingar eiga við að stríða sem geta ekki eignast börn á þann hátt sem náttúran býður upp á.