Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:08:32 (5525)

1996-05-02 21:08:32# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Með þessu frv. um tæknifrjóvgun er verið að lögfesta reglur um tæknifrjóvgun, þ.e. getnað sem kominn er til með tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Það er vissulega orðið tímabært þar sem tæknifrjóvgun hefur verið framkvæmd hér á landi frá 1980, þ.e. tæknisæðing, og glasafrjóvgun frá 1991.

Frv. sem hér liggur fyrir er að mestu leyti í sömu veru og þær verklagsreglur sem unnið hefur verið eftir auk þess sem það heimilar eggfrumugjöf sem ekki hefur verið heimil hingað til. Nokkur tími hefur liðið frá því við hófum umræðu um þetta frv. og það er mjög óþægilegt hvernig umræðan um það hefur verið slitin í sundur. Komið hefur fram mjög athyglisverð tillaga frá Hjörleifi Guttormssyni sem við í Þjóðvaka viljum gjarnan skoða nánar. Hún er í anda umsagna ýmissa aðila, sérstaklega siðfræðinga. Við vildum gjarnan skoða hana nánar en ég mun tala út frá því frv. og þeim tillögum allshn. sem hér liggja fyrir. (Gripið fram í: Hvað á Þjóðvaki við með að skoða nánar?) Skoða síðar afstöðu til þess máls nánar.

Ég vil gjarnan að mín afstaða til frv. sem hér liggur fyrir komi fram. Ég tek undir og legg áherslu á að skýr löggjöf um þetta viðkvæma mál er nauðsynleg því að réttarstaða verður að vera skýr og aðgangur að upplýsingum um málið verður að vera greiður.

Hv. heilbr.- og trn. fékk málið til umsagnar og fékk til sín nokkra aðila til viðræðna um málið. Eins og fram hefur komið var mesta umræðan um 4. gr. frv. um það ákvæði sem lýtur að nafnleynd kynfrumugjafa. Skoðanir voru allskiptar í nefndinni hvort gjafa skuli tryggð jafnleynd eða ekki. Ég er einn þeirra nefndarmanna sem er andvíg nafnleyndinni. Siðferðiskennd mín segir mér að hún sé ekki rétt. Rökin gegn nafnleyndinni eru, eins og kemur fram í minnihlutaáliti Hjálmars Jónssonar, bæði hvað varðar mannréttindi og einnig hvað varðar erfðalækningar. Ég get tekið heils hugar undir öll rök hv. þm. Hjálmars Jónssonar í minnihlutaáliti hans frá allshn. um að einstaklingur sem verður til við tæknifrjóvgun með gjafafrumu eigi alltaf, eftir að hann nær sjálfræðisaldri, að eiga óheftan aðgang að upplýsingum um uppruna sinn. Þar er gert ráð fyrir að kynfrumugjafar geti óskað nafnleyndar, en hún komi aldrei í veg fyrir rétt barnsins til að fá upplýsingar um uppruna sinn.

Tillögu meiri hluta allshn. um að það sé val barnsins eða foreldranna hvort nafnleynd skuli ríkja eða ekki eða hvort valinn er gjafi sem krefst nafnleyndar eða ekki get ég ekki sætt mig við. Við verðum að tryggja þann rétt í þessum lögum að barnið geti leitað uppruna síns. Það eru mannréttindi og um mannréttindi getur aldrei orðið nein málamiðlun. Ein af rökum nafnleyndarsinna er að ef nafnleyndinni verði aflétt leggist tæknifrjóvgun af með gjafafrumum vegna skorts á þeim. Ég er ekki sannfærð um að svo verði. Og ef svo er verður það bara að koma í ljós. Réttur barnsins verður að sitja í fyrirrúmi. Það eru mannréttindi að geta fengið þessar upplýsingar. Það hefur hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, formaður allshn., viðurkennt fyrr í umræðunni, að það séu mannréttindi einstaklingsins að geta leitað upplýsinga um uppruna sinn.

Það er líka rétt að vísa til stjórnsýslulaga en samkvæmt þeim á aðili máls rétt á að kynna sér gögn og skjöl sem við koma máli hans. Samkvæmt þeim eiga ættleiddir einstaklingar rétt á að fá upplýsingar um uppruna sinn og sami réttur á að gilda um þann sem getinn er með gjafafrumu, enda sjálfsögð mannréttindi. Frá því að umræðan var í heilbr.- og trn. hef ég hugsað mjög mikið um þetta mál og verð æ sannfærðari um að það verður að aflétta nafnleyndinni gagnvart þeim einstaklingi sem verður til við frumugjöf.

Mig langar aðeins að vitna í greinargerð með nefndaráliti 2. minni hluta allshn. sem ég vil ítreka. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Það eru mannréttindi að eiga þess kost að þekkja uppruna sinn, hluti af sjálfsagðri vitund fólks um sjálft sig, og meðal íslenskrar þjóðar er rík hefð og vilji til þess. Löggjafinn má ekki taka þennan rétt af einstaklingum. Ófrjósemi er vandamál sem ekki má leysa á kostnað mannréttinda þess sem verður til við tæknifrjóvgun með gjafakynfrumu. Sé þess óskað er sjálfsagt og eðlilegt að tryggð sé nafnleynd gagnvart öllum öðrum en þeim einstaklingi, sem þannig er til kominn.``

Þetta tel ég grundvallaratriði varðandi 4. gr.

[21:15]

Mig langar einnig til að vitna hér, með leyfi forseta, í erindi sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir flutti hinn 14. febr. 1996 á málþingi Siðfræðistofnunar um tæknifrjóvgun. Það ber ber nafnið ,,Hinn forboðni sannleikur. Er reglan um nafnleynd frumugjafa í samræmi við velferð og þarfir barnsins?`` Þar segir undir spurningunni ,,Virða íslensk lög sjálfstæðan rétt barnsins?``, með leyfi forseta:

,,Á síðasta ári komu fulltrúar íslenskra stjórnvalda fyrir nefnd um réttindi barnsins sem starfar á grundvelli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og svöruðu spurningum nefndarinnar um frumskýrslu íslenskra stjórnvalda um framkvæmd sáttmálans. Í lokaathugasemdum nefndarinnar um skýrslu stjórnvalda leggur nefndin áherslu á að í samningnum er kveðið á um vernd og umönnun barna og sérstaklega um viðurkenningu barna sem aðila er njóti sjálfstæðra réttinda. Telur nefndin það sérstakt áhyggjuefni að þetta grundvallaratriði samningsins skuli ekki endurspeglast fyllilega í íslenskum lögum.

Í umræðum nefndarinnar og fulltrúa stjórnvalda kom fram að jafnvel í hinu nýja mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar kæmi fram sá andi að á Íslandi væri litið á börn með ,,passívum`` augum og þann skilning skorti að þau væru sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi. Síst virðist frv. til laga um tæknifrjóvgun bæta úr þessu. Þarna erum við komin að kjarna málsins. Börn eiga sín sjálfstæðu mannréttindi. Því er það hæpin röksemdarfærsla að byggja reglur sem tengjast börnum, á mannréttindum foreldranna. Það er rökfræðilega og siðferðilega rangt að byggja reglur um nafnleynd á því að það séu mannréttindi að geta nýtt sér alla möguleika tækni til að eignast börn. Það er ekki réttlætanlegt í nafni tækniframfara og mannréttinda foreldranna að búa til tvenns konar hópa barna, annars vegar þau sem njóta þeirra mannréttinda að fá að vita um uppruna sinn er þau hafa vit og þroska til, og hins vegar þau sem ekki njóta þeirra mannréttinda. Þannig verður reyndin ef lagafrumvarp um tæknifrjóvgun verður samþykkt óbreytt því ættleidd börn sem eru að mörgu leyti sambærilegur hópur njóta þess réttar að sjá öll tiltæk gögn um uppruna sinn þegar þau hafa aldur og þroska til. Þennan rétt barnanna geta kyn- og kjörforeldrar ekki takmarkað með samningum sín á milli.``

Ég tel mjög mikilvægt að þetta atriði komi fram í þessari umræðu og reyndar á ýmislegt fleira úr þessu erindi hv. þm., erindi í umræðuna um þetta viðkvæma og viðamikla mál.

Í umfjöllun heilbr.- og trn. um málið voru menn sammála um að komið yrði á fjölskylduráðgjöf eins og segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Loks vill heilbrigðis- og trygginganefnd benda á nauðsyn þess að komið verði á fót fjölskylduráðgjöf þar sem fólk geti leitað upplýsinga um rétt sinn og pör geti fengið hjálp við að vinna úr þeim andlegu vandamálum sem meðferðin getur haft í för með sér. Auk þess er bent á mikilvægi þess að áfallahjálp sé aðgengileg í þeim tilvikum sem meðferð mistekst eða fósturlát verður í kjölfar meðferðar.``

Ég tel að tillagan um faglega ráðgjöf sem meiri hluti allshn. gerir tillögu um að skylt sé að veita pörum sem sækja um tæknifrjóvgun nái yfir þá ráðgjöf sem heilbr.- og trn. lagði til í umsögn sinni og ég fagna því að tekið er á því máli.

Vegna 4. gr. vil ég ítreka það að ég er að öllu leyti sammála minnihlutaáliti og breytingartillögum hv. þm. Hjálmars Jónssonar. Ég tel ekki siðlegt að vera með málamiðlanir þegar mannréttindi eru annars vegar og ég vonast til þess að ef málið fer aftur til allshn. að meiri hluti nefndarinnar endurskoði hug sinn og hafi mannréttindi barnanna sem verða til við kynfrumugjöf til að þekkja uppruna sinn að leiðarljósi. Hér á þingi má ekki setja lög sem brjóta mannréttindi á ákveðnum hópum barna. Við höfum oft rætt um mannréttindi á Alþingi og þar á meðal mannréttindi barna og verið einhuga um að þau skuli tryggð. Ég nefni þetta vegna þess að ef tillaga meiri hluta allshn. verður samþykkt, þá erum við að lögfesta mannréttindabrot gagnvart ófæddum Íslendingum sem verða til með gjafafrumum. Við erum að lögfesta það að réttur þeirra sé minni en annarra barna. Það get ég aldrei sætt mig við.