Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:21:27 (5526)

1996-05-02 21:21:27# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti þetta ekki mjög góð og rismikil ræða hjá talsmanni Þjóðvaka við 2. umr. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að það væri eiginlega skylda manna að gefa upp afstöðu sína til grundvallaratriða þegar við erum komin nánast til hinnar ákvarðandi umræðu sem er 2. umr. Hér kom hv. þm. og kvaðst tala fyrir hönd heillar stjórnmálahreyfingar, hreyfingar fólksins. Hún lýsti afstöðu sinni til grundvallaratriða með eftirfarandi hætti. Hún sagði: ,,Hér liggur fyrir tillaga frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og við í Þjóðvaka erum dálítið hrifin af henni og viljum taka hana til íhugunar.`` Gott og vel. Tillaga hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar snertir tvö grundvallaratriði, annars vegar nafnleyndina vegna þess að fyrsti liðurinn lýtur nánast að því að svipta burt nafnleyndinni og hins vegar seinni parturinn sem lýtur að því hvort að það eigi að leyfa glasafrjóvgun með öðrum kynfrumum en bara viðkomandi pars. Ég spyr hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hvort hún sé að íhuga fyrir hönd Þjóðvaka að fylgja báðum þessum grundvallartillögum hv. þm. eða hvort vera kunni að Þjóðvaki sé búinn að gera upp hug sinn til a.m.k. annarrar tillögunnar.

Síðan sagði hv. þm. að hún teldi það ekki siðlegt að vera með málamiðlun þegar mannréttindi ófæddra barna eru annars vegar. Það er ekki siðlegt. En afstaða hennar virtist mér vera sú að það dregur stórlega úr líkunum á því að þessi ófæddu börn sem hún ræðir um fæðist nokkru sinni. Varðar það ekkert líka mannréttindi þessara barna? Mér finnst þetta vera undarleg hringekja rökfræðinnar sem er eiginlega komin í tvöfaldan hring.