Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:24:55 (5528)

1996-05-02 21:24:55# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, herra forseti. Ég bið hv. þm. afsökunar. Afstaða hennar til þessa kom fram. Mér var hins vegar svo heitt í hamsi vegna þess að ég hef svo mikið álit á hv. þm. að mér rann í skap að heyra hana koma hingað og taka, að mér þótti, ekki afdráttarlausa afstöðu til grundvallaratriða. En mig langar aðeins að spyrja hv. þm. áfram um þetta með nafnleyndina. Mér finnst það skiljanlegt að menn hafi þessa afstöðu og þetta er það sem menn deila um en ég er ekki enn búinn að ná rökfræðinni á bak við þessa afstöðu. Menn klifa á því að það sé verið að brjóta mannréttindi ófæddra barna og þess vegna leggja menn til tillögu sem að því er mér virðist og a.m.k. kemur fram í sumum gögnum málsins að það dragi stórlega úr líkunum á því að þessi börn verði nokkru sinni til. Mér finnst það vera punctum saliens í málinu. Eru það ekki mannréttindi að fá að verða til jafvel þótt vera kunni að menn búi ekki að þessum óbifanlega rétti að fá að vita nákvæmlega um sinn uppruna út í hörgul? Í mörgum tilvikum er það ekki hægt.