Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:29:26 (5531)

1996-05-02 21:29:26# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:29]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að auðvitað þekki ég til ýmissa mála í gegnum mitt gamla starf í Tryggingastofnun ríkisins. Ég þekki einnig til vanda þeirra barna, þess fólks sem er að leita uppruna síns og hefur mikið fyrir því og líður miklar sálarkvalir yfir því að það getur ekki haft upp á sínum rétta föður, sem er algengt í þeim tilvikum. Það er ekki síður angist heldur en þeirra sem ekki geta eignast börn. Þannig að ég tel rétt að tryggja rétt þeirra einstaklinga sem verða til við tæknifrjóvgun, til þess að geta leitað uppruna síns. Og það kom mjög skýrt fram í máli mínu varðandi tillögu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, að ef sú tillaga yrði samþykkt hér, væri náttúrlega engin umræða um nafnleyndina því þá kæmi sú umræða ekki til. Það er mergurinn málsins, hv. þm.