Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 22:01:46 (5538)

1996-05-02 22:01:46# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[22:01]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið og afstaða mín til þessara mála sem rista vissulega djúpt byggist ekki á því hvað menn hafa verið að gera úti á Norðurlöndunum. Hún byggist ekki heldur á áliti einhverra siðfræðinga uppi í háskóla sem ég hef vaxandi efasemdir um. Hún byggist ekki heldur á umboðsmanni barna og áliti hans heldur bara því sem ég og minn takmarkaði reynsluheimur hefur leitt mig að.

Í upphafi vil ég geta þess, herra forseti, að þrátt fyrir að það sé svo að mig og hæstv. dómmsrh. greini á um ýmislegt tel ég að það frv. sem hér liggur fyrir frá hans hendi sé honum mjög til fremdar og hann eigi hrós skilið fyrir það. Ég hef hoggið eftir því í þessari umræðu að menn hafa talað um að ekki hafi borist réttar upplýsingar um það hvernig stöðu þessara mála er háttað annars staðar á Norðurlöndum. Það kom mér spánskt fyrir sjónir því ég man ekki betur en hér við 1. umr. hefðu menn verið að hrósa hæstv. dómsmrh. fyrir það að þetta frv. gengi lengra en samsvarandi löggjöf nágrannaþjóða að því leyti að hér væri verið að leiða í lög heimild til þess að gefa eggfrumu við glasafrjóvganir. Ég man ekki betur en að hafi komið fram að það væri hvergi löglegt á byggðu bóli annars staðar.

Ég held að frv. sé flestu leyti afskaplega vel unnið og gott. Auðvitað hefur ýmislegt komið fram við umræðuna sem betur mætti fara. T.d. er það svo að í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar komu fram ákveðin atriði sem ég tel að sé þarft að íhuga og þá á ég fyrst og fremst við rannsóknir á fósturvísum og kynfrumum sem hv. þm. ræddi um. Að vísu lagði hv. þm. ekki til að gerðar yrðu frekari breytingar á þessu frv. að því er varðaði takmarkanir á rannsóknum á fósturvísum enda sýnist mér að sá partur frv. sé næsta góður. Hins vegar er rétt hjá honum að litlar skorður eru reistar við rannsóknum á kynfrumum og það má vera rétt hjá hv. þm. að nauðsynlegt kunni að vera að setja einhverjar fastari reglur um það.

Mér þótti hann flytja merkilegt mál um rannsóknir og möguleika erfðatækni um það að breyta mannlegum erfðum. En ég hef ekki alveg sömu sýn og hv. þm. á framtíðinni í þessum efnum. Ég hef meiri trú á manninum, meiri trú á því að hann leyfi sér ekki þá hluti sem mér þótti hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nánast ganga út frá sem gefnu að yrði veruleikinn í mjög náinni framtíð. Það hefur auðvitað verið hluti af vísindaskáldsögum aldarinnar og framtíðarspádómum, kannski dómadagsspámanna, að sá tími kynni að renna upp að menn gætu forritað mannlega arfgerð, menn gætu sagt fyrir um og meitlað mannskepnuna, menn gætu gripið inn í hinar mannlegu erfðir og nánast búið til mann eftir forskrift. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson virðist telja að þetta kynni að freista mannsins í náinni framtíð. Ef ég man rétt velti hann upp þessari spurningu: Hversu langt er í að fram komi krafan um staðlað útlit, staðlaða arfgerð? Og hann svaraði henni sjálfur: Það kynni að gerast í byrjun í næstu aldar. Þetta er auðvitað hroðaleg framtíðarsýn og menn hafa velt henni fyrir sér, ekki síst ýmsir vinstri menn fyrr á árum, þegar fyrst kom upp að með erfðalestri er hægt að spá fyrir um gen sem valda tilteknum eiginleikum. Þegar ég var í háskóla skrifuðu menn af skyggnu mannviti um þann möguleika að það yrði búinn til sérstakur vinnumaður sem væri duglegur, þyrfti að sofa lítið og þyrfti lítið að hvílast.

Auðvitað er það svo að menn hljóta að sporna gegn öllu slíku. Ég held hins vegar að frv. sé þess eðlis að við þurfum ekki að óttast neitt í þessum efnum. Ég held að 11. og 12. gr. í því sé nokkuð góð en hins vegar er rétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það þyrfti e.t.v. að reisa einhverjar frekari skorður við rannsóknir á kynfrumum. Ég held hins vegar að nauðsynlegt og óhjákvæmilegt sé fyrir okkur að menn muni reyna að greina sínar eigin erfðir, m.a. til þess að geta sagt fyrir um það hvernig best sé að lækna ýmsa mannlega sjúkdóma sem koma upp. Mér flaug í hug þegar ég hlýddi á mál hv. þm. að með vissum hætti eru menn byrjaðir á þessu. Við erum farin að rannsaka fóstur áður en þau fæðast og ef þau eru haldin tilteknum erfðaeinkennum er þeim eytt. Þannig er það í dag. Við erum þegar byrjuð að feta þessa leið.

Herra forseti. Megindeilan í þessari umræðu er hvort það eigi að vera nafnleynd varðandi gjöf kynfrumna. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera meginreglan en ég skil vel þá sem hafa aðra skoðun. Ég skil vel þá hugsun sem liggur að baki tillögu hv. þm. Hjálmars Jónssonar. Mér finnst hún að mörgu leyti fýsileg og ég skil vel það aðdráttarafl sem hún hefur gagnvart hv. þingmönnum. Ég styð hana eigi að síður ekki. Ég er algerlega ósammála stallsystur minni úr Alþfl., hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, þegar hún segir: Þetta á að miða við þann einstakling sem þegar er fæddur og verður í fyllingu tímans fullveðja einstaklingur. Þetta er spurningin um rétt hans.

Ég byrja mína röksemdarfærslu einu stigi fyrr. Ég spyr: Hvort er betra að vera þó fullveðja einstaklingur og að vita ekki út í hörgul uppruna sinn eða þá að vera ekki til?

Ég veit að það er ósanngjarnt að setja málið upp með þessum hætti. En það eru þeir valkostir sem eru fyrir hendi. Það er alveg jafnósanngjarnt af öðrum hv. þingmönnum að segja sem svo: Við skulum velta fyrir okkur mannréttindum þessara einstaklinga. Niðurstaða þeirra er sú að nafnleynd eigi ekki að vera fyrir hendi. Hvað þýðir það? Það kemur fram í áliti meiri hluta allshn. að reynslan erlendis frá sýni að hvað varðar eggfrumurnar er líklegt að það verði takmarkað framboð á þeim ef andstæðingar nafnleyndarinnar hafa sitt fram. Þá er það náttúrlega svo, herra forseti, að það eru fáir einstaklingar sem þarf að gæta mannréttinda fyrir. Þetta finnast mér vera fullboðleg rök og er að því leyti til ósammála öðrum sem hér hafa talað í kvöld. Ég held að þeir hafi nánast allir verið andstæðingar nafnleyndar.

Herra forseti. Ég held einfaldlega að tillaga þeirra sé ekki praktísk. Ég held að við þurfum ekki að hafa af þessu miklar áhyggjur ef andstæðingar nafnleyndarinnar hafa sitt fram vegna þess að ég held að í okkar litla samfélagi verði erfitt að útvega eggfrumur.

Ég vísa líka til þess að í meirihlutaáliti allshn. er lagður til ákveðinn meðalvegur, reyndar sami meðalvegurinn og við lögðum til í heilbr.- og trn., þ.e. að val væri um þetta. Þær sem gæfu eggfrumu hefðu val á þessu. Það kemur fram í áliti meiri hluta allshn. að erlendis tíðkist það að ættingjar eða vinkonur viðkomandi kvenna gefi kynfrumu og þá er nauðsynlegt að nafnleynd sé aflétt í þeim tilvikum. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa þennan möguleika opinn hér á Íslandi.

Herra forseti. Að því er varðar tillögu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar hef ég áður komið fram með viðhorf mín gagnvart henni. Hv. þm. leggur til að það verði ekki leyft að hafa um hönd glasafrjóvgun nema því aðeins að kynfrumur viðkomandi pars séu notaðar. Mér finnst þetta allt of þröngt, mér finnst þetta alveg skelfileg tillaga. Ég náði ekki rökum hv. þm. fyrir því. Hann talaði í stuttu máli um félagsleg rök, tilfinningaleg rök, lagaleg rök. En mér fannst að rök hans fyrir þessu byggðust miklu fremur á fyrsta hluta ræðu hans í dag. Það var þegar hann var á góðan hátt að draga upp framtíðina þegar búið væri að lesa erfðir mannsins, búið væri að koma upp tækni til þess að breyta henni og ég velti því fyrir mér hvort það væri það sem hann óttaðist. Ég hjó eftir því að hann talaði um erfðatækni og erfðabreytingar, talaði um málið í tengslum við annað frv. sem við höfum rætt um fyrr í vetur. Ég hefði gaman af því ef hv. þm. Hjörleifur Guttormsson á eftir að halda aðra ræðu í kvöld að hann gerði skýrari grein fyrir afstöðu sinni varðandi þetta atriði. Byggist afstaða hans á því að hann óttast að með því að leyfa glasafrjóvganir þar sem eru gjafakynfrumur aukist möguleikar og líkur á því að menn fari að búa til menn eftir fyrir fram gefinni forskrift? Ég tel nauðsynlegt að þessi afstaða komi fram vegna þess að ég óttast þetta ekki. Ég er alveg sannfærður um að á allra næstu árum mun þessi tækni verða til. Hún er kannski til nú þegar í dag. En ég hef þá trú að samfélag manna hvar sem er í heiminum muni jafnan bera gæfu til þess að koma í veg fyrir slíkt alveg eins og er með vissum hætti gert í þessu frv.