Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 22:39:19 (5548)

1996-05-02 22:39:19# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[22:39]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það áðan að tilgangurinn með tæknifrjóvguninni væri fyrst og fremst sá að hjálpa barnlausu pari að eignast barn og ég er ekki í nokkrum vafa um það að í öllum grundvallaratriðum fara þessir hagsmunir saman. Það fara saman hagsmunir parsins og síðan þess barns sem getið er með tæknifrjóvgun. Ég vil hins vegar ekki ganga jafnlangt og ýmsir aðrir hér á Alþingi vilja ganga í því að það sé engin nafnleynd til staðar. Ég óttast að með því gætum við dregið stórlega úr því að unnt væri að hjálpa barnlausum pörum að eignast barn. Þeim sem fást til að gefa sæði til tæknifrjóvgunar gæti fækkað stórlega og það er einmitt sú reynsla sem ýmsar þjóðir hafa.