1996-05-03 00:05:46# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 1. minni hluta GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[24:05]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt tíminn sé naumur í andsvari vil ég endilega koma hér upp vegna ummæla hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um mitt nál., nál. 1. minni hluta allshn., þar sem honum fannst vanta kvennapólitísk rök í það álit. Ég hef ekki tíma til að rökstyðja það en ég tók einmitt þá ákvörðun í andstöðu við hv. þingkonu Kvennalistans, Kristínu Halldórsdóttur, sem hér talaði áðan, að taka kvennapólitíska afstöðu. Ég á því ákaflega erfitt með að sætta mig við þá staðhæfingu að það skorti slík sjónarmið í nál. Þar get ég nefnt staðgöngumæðrunina sem ég tók sérstaklega fyrir. Ég fagnaði því að hún er ekki heimiluð samkvæmt þessu frv. Einnig ræddi ég um að það væri kvennapólitískt kvenfrelsisatriði hverjir fengju aðgang að tæknifrjóvgun. Það er auðvitað hægt að taka mun fleiri rök eins og hv. þm. nefndi, t.d. álagið á líkama konunnar. Ég vil í því sambandi nefna að t.d. samkynhneigðar konur, lesbíur, nefna að einföld tæknisæðing á þeim er mun minna álag á þær en konur sem fara í gegnum mun erfiðari meðferð sem er heimiluð samkvæmt því meirihlutaáliti sem hér liggur fyrir. Tíminn er naumur svo ég bið kannski um orðið á eftir. Í raun get ég vel skilið hitt sjónarmiðið að ræða þetta ekki frá kvennapólitísku sjónarhorni, sérstaklega ákvæðið um nafnleynd. Ég verð að viðurkenna að það togast verulega á í mér hvort sjónarmiðið á þar að vega þyngra. Þess vegna finnst mér sú gagnrýni ekki réttmæt að ég hafi ekki komið inn á kvennapólitísk rök.