1996-05-03 00:13:40# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[24:13]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er umhugsunarefni ef hópur valinna kvenna í allshn. er ekki með kvennapólitísk sjónarmið í máli sem þessu. Það kemur mér satt að segja nokkuð á óvart ef þess gætir ekki. Ég teldi það miður ef svo væri ekki.

Varðandi það sem hv. þm. vék að um þrýsting frá þjóðfélaginu. Það sem ég sagði um þau efni var að þar gætti þrýstings en þingmaðurinn hv. vísaði til þess að hér væri um sjálfstæða ákvörðun að ræða og skoðanir hvers og eins. Mér er fyllilega ljóst að það er gert ráð fyrir því að hver og einn taki sjálfstæða ákvörðun um þetta efni. Það breytir hins vegar ekki hinu að umræðan í samfélaginu hefur óhjákvæmilega áhrif á tilfinningu einstaklingsins fyrir því ástandi sem hann býr við og getur virkað sem þrýstingur. Mig minnir að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hafi einmitt vikið réttilega að því í nál. sínu að það gæti komið til. Það er nokkurt áhyggjuefni ef það getur leitt til ákvarðana sem viðkomandi hefði kannski ekki tekið án slíks óbeins þrýstings.

Þegar ég vék að því að föður- og móðurhlutverk breyttist eða skilgreining á föður og móður í sambandi við tæknifrjóvgun var ég ekki að vitna til læknis í því sambandi eins og hv. þm. nefndi, heldur til lögfræðirits um þetta efni þar sem verið var að fjalla um og skilgreina mismunandi föður- og móðurhlutverk í ljósi þessarar þróunar.