Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 12:51:45 (5590)

1996-05-03 12:51:45# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, Frsm. 2. minni hluta GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[12:51]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. formanni menntmn. að það er margt í þessu frv. til úrræða fyrir þá sem ekki munu standast samkeppni inntökuprófanna og komast í bestu skólana. Ég get líka alveg tekið undir að það er mjög auðvelt að rökstyðja það af lýðræðisástæðum að allir skólar skuli vera opnir fyrir öllum og ég er í sjálfu sér sammála því eins og ég sagði. Hins vegar eru mjög miklar líkur á því að það verði hópur fólks sem vill komast t.d. í sína heimaskóla og kemst ekki í þá. Hann þarf kannski að sækja um mjög marga skóla til að fá einhvers staðar inni. Þar að auki verður miklu meiri lagskipting á starfsbrautum, námsbrautum og skólunum sjálfum. Væntanlega verður það mikilvæg spurning frá hvaða menntaskóla maður kemur vegna þess fyrirkomulags sem nú á að koma á. Ég held því að þetta muni hafa mjög vond félagsleg áhrif. Þótt það sé gott að fólk geti valið sér skóla hefði alveg mátt fara einhverja millileið þarna, t.d. að tryggja ákveðinn fjölda plássa í heimaskólum eða eitthvað slíkt. Auðvitað er ekki útséð með að það sé hægt að útfæra þetta í einstökum skólum á mismunandi hátt. En ég sé fyrir mér að þetta geti leitt til mjög mikils misréttis.