Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 14:43:22 (5604)

1996-05-03 14:43:22# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, RA
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[14:43]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. til laga um framhaldsskóla hefur legið um skeið fyrir hv. þingi og hefur verið gagnrýnt töluvert mikið. Ég hef t.d. undir höndum álitsgerð stjórnar Skólameistarafélags Íslands þar sem koma fram fjöldamargar athugasemdir við þetta frv. og það m.a. gagnrýnt út frá því sjónarmiði að í því gæti um of tilhneigingar til smáatriða stjórnunar og miðstýringar.

Á þingi Hins íslenska kennarafélags í nóvember sl. var frv. tekið til umræðu og þar var því hafnað samhljóða í atkvæðagreiðslu. Það sýnir hvílíkur stuðningur er við þetta frv. meðal þeirra sem starfa í skólunum að á fjölmennu þingi þar sem að sjálfsögðu eru mættir kennarar með hinar ólíkustu stjórnmálaskoðanir, vafalaust fylgismenn allra hinna pólitísku stjórnmálaflokka, er ákveðið samhljóða að mæla með því að við fellum þetta frv.

[14:45]

Framhaldsskólakennararnir komust að þeirri niðurstöðu að frv. væri ekki til hagsbóta fyrir nemendurna. Það dragi úr möguleikum kennara til að hafa áhrif á stefnumótun í skólum og væri yfirleitt ekki boðberi menntastefnu sem verðskuldaði framgang. Þetta hefur verið rakið hér í umræðunni og er ástæðulaust að fjölyrða frekar um það. En þannig er staðan að þeir sem gerst þekkja til hafa gagnrýnt frv. mjög einarðlega og kennarasamtökin eru eindregið andvíg því eða a.m.k. Hið íslenska kennarafélag að frv. nái fram að ganga.

Ég ætla hins vegar fyrst og fremst að vekja enn frekari athygli á 37. gr. frv. en þar tel ég að sé mikið ranglæti á ferðum. Það hefur verið svo um áratuga skeið að ríkið hefur kostað byggingu heimavista við framhaldsskólana að fullu og fjöldamörg sveitarfélög hringinn í kringum landið hafa notið þess að ríkið hefur talið sér skylt að kosta heimavistarbyggingar. Þeir sem hafa byggt menntaskóla hafa þar að auki fengið þann kostnað greiddan að fullu vegna þess að kostnaður við menntaskólabyggingar hefur verið greiddur að fullu. Það hefur þá eingöngu verið kennsluhúsnæðið fyrir fjölbrautaskólana sem hefur verið fjármagnað með þeim hætti að sveitarfélögin hafa þurft að borga 40% kostnaðarins. En í þessu frv. er verið að lækka hlut ríkisins úr 100% í byggingum heimavista í 60%. Það er sem sagt verið að velta tæpum helmingi kostnaðarins yfir á sveitarfélögin og þetta er að sjálfsögðu býsna alvarlegt mál.

Ég vek á því athygli að allmörg sveitarfélög eiga enn eftir að byggja heimavistir fyrir framhaldsskólanemendur í viðkomandi kjördæmum meðan aftur á móti önnur kjördæmi hafa lokið þessu verkefni nokkurn veginn að fullu. Þetta skapar því mikla mismunun milli kjördæma og milli héraða. Mér er kunnugt um að til stendur að reisa heimavistarbyggingu á Húsvík svo ég nefni dæmi. Mér er einnig kunnugt um að til stendur að byggja heimavistarbyggingu við framhaldsskóla á Akranesi. Og ég veit til þess að á Sauðárkróki, í heimahéraði mínu, er verið að undirbúa stækkun heimavistar. Auðvitað kostar það stóraukna fjárhagsbyrði fyrir sveitarfélögin í þessum kjördæmum að þurfa nú að fara að borga 40% hlutdeild í þessum heimavistarbyggingum og að sjálfsögðu er ekkert réttlæti í því að þau þurfi að gera þetta á sama tíma og fyrir liggur að fjöldamörg önnur sveitarfélög á landinu hringinn í kringum landið hafa fengið þennan kostnað borinn upp að fullu. Ég tek sem sagt undir hvert orð sem fram kom hjá seinasta ræðumanni hv. þm. Norðurl. v., Stefáni Guðmundssyni, sem vakti athygli á þeirri athugasemd í grg. frv. að taka þyrfti upp viðræður við samtök sveitarfélaga um það hvernig á þessum vanda skuli tekið. Nú er framhaldsskólafrumvarpið búið að vera í þinginu tvo vetur og mér hefði fundist einfaldara að sá hæstv. ráðherra sem flytur þetta frv. og sá sem gegndi starfi menntmrh. í tíð fyrri ríkisstjórnar hefðu tekið upp samninga við sveitarfélögin um þetta atriði og komið því á hreint hvernig sveitarfélögunum verði bætt þetta vegna þess að óneitanlega grunar mann að þetta séu orðin tóm og lítið standi á bak við þessa fullyrðingu.

Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort ætlunin sé að styðja eða styrkja sveitarfélögin sem eina heild til þess að koma til móts við þann kostnað sem af þessu leiðir. Eða á að greiða styrki til einstakra sveitarfélaga vegna þessa atriðis? Það er ljóst að ef sveitarfélögunum yrði bætt þetta með því einu að þau fengju öll eitthvað örlítið meira í sinn kassa en ekkert tillit væri til þess hvaða sveitarfélög væru að byggja og hver ekki þá væri nú lítill hagur af því fyrir þau sveitarfélög sem verða þarna fyrir mesta skellinum. Ef eigi aftur á móti að greiða þetta þeim sveitarfélögum sem í hlut eiga þá skil ég ekki til hvers verið er að þessu. Þá virðist manni að ríkið græði harla lítið á þessari breytingu og væri þá eins gott að hafa það eins og er í lögunum í dag, að ríkið greiði þetta að fullu. Hér er spurning sem hæstv. menntmrh. mætti gjarnan svara vegna þess að svarið liggur sannarlega ekki í augum uppi. Og ef það er svo að ætlunin er að greiða þetta viðkomandi sveitarfélögunum þá er þessi breyting alveg út í bláinn og græðir enginn neitt á henni.

Ég tel hins vegar að það sé affærasælast að hafa þetta óbreytt í lögum og að ríkið greiði þennan kostnað að fullu. Af þeirri ástæðu hef ég flutt ásamt hv. 4. þm. Norðurl.e., Steingrími J. Sigfússyni, og hv. 5. þm. Vestf., Kristni H. Gunnarssyni, brtt. við 37. gr. þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði þennan kostnað að fullu.

Ég vil láta þess hér getið að þau sveitarfélög sem ég tiltók áðan að hefðu heimavistarbyggingar í undirbúningi, þ.e. sveitarfélögin sem standa að framhaldsskólanum á Akranesi, Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki og Fjölbrautaskólanum á Húsavík, reyndar eru þetta allt fjölbrautaskólar, þótt þeir séu framhaldsskólar í eðli sínu bera þeir víst allir nafnið fjölbrautaskólar. (Gripið fram í: Ekki á Húsavík.) Nú, ekki á Húsavík, þá biðst ég afsökunar. Ég hélt að það væri einnig fjölbrautaskóli þar. En það er fjölbrautaskóli á Akranesi, fjölbrautaskóli á Sauðarkróki og síðan framhaldsskóli á Húsavík. Þessi sveitarfélög hafa nú um nokkurra ára skeið verið að undirbúa sig undir að koma upp þessum heimavistum og hafa sótt um það til hæstv. menntmrh. og fyrirrennara hans að mega fara af stað með undirbúning að þessum byggingum. Að sjálfsögðu þarf að hanna þessar byggingar og það þarf að gera ýmiss konar samninga og jafnvel þótt fé sé ekki fyrir hendi til þess að hefja uppsteypu þarf oft nokkurn tíma til þess að undirbúa slíkar framkvæmdir. Þess vegna hefur verið leitað eftir því nú í tvö ár að menn mættu hefja hönnun og fyrsta undirbúning, ég hygg á öllum þessum þremur stöðum. En svörin hafa alltaf verið þau að í ráði sé að lækka hlutdeildarkostnað ríkisins við byggingu framhaldsskóla og á meðan það mál sé ekki frá gengið verði engir slíkir samningar gerðir. Þetta hefur vissulega komið sér mjög illa fyrir þessa staði og tafið fyrir uppbyggingu á þeim og að því leyti er auðvitað mjög gott að fá þetta mál á hreint til þess að uppbyggingin á þessum stöðum tefjist ekki frekar. En ég tel að það eigi að verða á þann veg að þetta atriði verði óbreytt í lögum og mæli því eindregið með samþykkt þeirra brtt. sem hér hefur verið lögð fram.