Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 15:55:08 (5613)

1996-05-03 15:55:08# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StB
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[15:55]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umræðu, frv. til laga um framhaldsskóla, er m.a. afrakstur af vinnu sem unnin var í tíð fyrrv. hæstv. menntmrh., Ólafs G. Einarssonar. Núverandi hæstv. menntmrh., Björn Bjarnason, lét fara yfir frv. að nýju og það er lagt fram eftir þá yfirferð í þeim búningi sem hér er til 2. umr.

Ég vil í upphafi fagna því að þetta frv. skuli vera hér til umræðu og vænti þess að það megi takast að ljúka því. Ég tel afar mikilvægt að þau ákvæði sem frv. felur í sér, sem eru mörg og mikilvæg, komi til framkvæmda þannig að hægt verði að styrkja framhaldsskólann almennt og þá ekki síst starfsnám eins og frv. leggur svo ríka áherslu á. En það eru einkum tvö atriði sem ég vildi gera hér að umtalsefni við þessa umræðu. Í fyrsta lagi það sem hér hefur lítillega komið til umfjöllunar og umræðu, þ.e. hinir litlu framhaldsskólar svokölluðu. Það hafa verið uppi efasemdir um að ýmsir framhaldsskólar af minni gerðinni eins og hefur verið talað um hér, hvaða skilgreining sem er nú lögð í það, veiti nemendum sínum ekki nægilega góða menntun. Ég tel að það geti tæplega verið vegna stærðarinnar. Þar hljóta aðrar ástæður að búa að baki og þarf þá auðvitað að gera kröfu til þess að yfirvöld menntamála taki það til sérstakrar athugunar. Ég tel að það sé eitt meðal mjög margra mikilvægra þátta í eflingu byggðanna að framhaldsnám megi bjóða upp á sem víðast þannig að unga fólkið, unglingar, þurfi ekki að fara að heiman til þess að sækja framhaldsnám. Það er þannig í okkar þjóðfélagi í dag að sem betur fer fara langflestir í framhaldsnám og það verður að gera þeim það eins aðgengilegt og auðvelt og kostur er. Þess vegna vil ég leggja áherslu á að framhaldsskólarnir verði starfræktir sem víðast og auðveldi þannig fólki um landið allt að ganga menntaveginn.

Ég þekki það úr minni heimabyggð að framhaldsdeild sem rekin hefur verið í Stykkishólmi í tengslum við og á ábyrgð Framhaldsskóla Vesturlands hefur skipt miklu máli. Í fyrsta lagi hefur hún leitt til þess að fleiri hafa farið í framhaldsnám en ella og í öðru lagi er hún geysilega mikilvæg fyrir þær fjölskyldur sem annars hefðu þurft að kosta börnin til náms á öðrum stað. Ég held að á þeirri forsendu og á grundvelli þessa frv., sem vonandi verður að lögum, eigi að efla með öllum ráðum og styrkja svokallaða minni skóla en ekki að ala á þeirri hugsun og þeirri umræðu að þeir séu lakari en stærri skólar. Þetta vil ég að komi hér fram vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að framhaldsskólarnir séu sem bestir og skili sem bestri menntun hvar sem er. Þetta vildi ég segja um fyrra atriðið.

[16:00]

Hitt efnisatriðið sem ég vildi koma inn á hefur verið hér til umræðu og varðar 37. gr. þessa frv. Það hefur verið lögð fram brtt. við frv. frá nokkrum hv. þm. sem þegar hefur verið mælt fyrir en það varðar hlutdeild ríkisins og hins vegar sveitarfélaganna, einna eða fleiri, í byggingarkostnaði heimavista. Eins og fram hefur komið hefur þetta verið með mismunandi hætti í gegnum tíðina. Menntaskólarnir voru byggðir af ríkinu síðan urðu framhaldsskólarnir til hver af öðrum, svonefndir fjölbrautaskólar, og kostnaðarhlutdeildin hefur verið mismunandi. Síðan var það svo að ríkið greiddi 60% í framhaldsskólunum en allan kostnaðinn við heimavistir. Hér er hins vegar lagt upp með það samkvæmt 37. gr. að nú skuli sama gilda um alla hluta byggingarframkvæmda framhaldsskólans, þ.e. bæði skólahúsnæðið og heimavistina. Ég vil að það komi fram við þessa umræðu að ég tel þetta eðlilegt. Ég tel ekki rétt að þarna sé um mismunandi kostnaðarhlutdeild að ræða og vil rökstyðja það. Áður vil ég nefna að ég er ekki alveg sammála því sem kemur fram hér í greinargerð með frv. um 37. gr. varðandi mismunandi kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Hér segir: ,,... enda talið að slíkt geti leitt til óhagkvæmni í fjárfestingum.`` Mér finnst satt að segja miður að þetta skuli standa í greinargerðinni með frv. vegna þess að mér finnst sú bábilja allt of algeng að ef ríkið leggi til stærri skerf sé svo mikil sókn af vondum sveitarstjórnarmönnum í byggingarframkvæmdir að það þurfi endilega að breyta því þannig að það megi koma í veg fyrir það að framkvæmt verði á kostnað ríkisins. Ég geri þær kröfur til sveitarstjórnarmanna, ráðherra, starfsmanna ráðuneyta og þingmanna að ég tek ekki við svona málflutningi. Ég tel að oftast sé sem betur fer unnið málefnalega að undirbúningi framkvæmda. Menn sækja auðvitað mismunandi hart og fast og ef alþingismenn og ráðherrar eru svo undanlátssamir gagnvart einstökum aðilum að þeir láta undan óskum um óeðlilegar byggingarframkvæmdir, sem ég kannast bara ekki við, þá er það vandamál okkar alþingismanna væntanlega og viðkomandi ráðherra en ekki þeirra sem sækja á í góðri trú og væntanlega á grundvelli góðs rökstuðnings.

Hins vegar er það þannig að tímarnir breytast, aðstæður breytast og þess vegna geta komið upp þær aðstæður að heimavistarhúsnæði svo ég taki það sem dæmi, 37. gr. fjallar um það, kunni um tíma af einhverjum ástæðum sem ekki er hægt að skýra beint og var ekki séð fyrir á sínum tíma að standa lítt notaðar. Það er þó ekki tilefni til þess að breyta kostnaðarhlutdeild ríkisins eins og hér er lagt til. Engu að síður tel ég að þetta sé eðlilegt. Ég tel í fyrsta lagi eðlilegt að það gildi sama regla um alla hluta skólahúsnæðis framhaldsskólans og auk þes vil ég nefna það hér að það er sérstaklega tekið til að þessi breyting hljóti að leiða af sér viðræður við sveitarfélögin, en í greinargerðinni með 37. gr. segir:

,,Gert er ráð fyrir að samið verði um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig sveitarfélögum verði bætt aukin þátttaka í kostnaði við byggingu heimavista.``

Þetta er mjög eðlilegur framgangsmáti og í fyllsta máta í samræmi við góð samskipti milli ríkis og sveitarfélaga. Ég tel satt að segja að nokkuð hafi nú þegar verið komið til móts við sveitarfélögin. Þótt ég ætlist ekki til að eftir því sé rukkað með færslu grunnskólans tel ég, og það hefur komið fram hér í ræðustól, að ríkið komi mjög ríflega til móts við sveitarfélögin við færslu grunnskólans. Reyndar les ég úr þeim ákvörðunum þá áherslu sem núv. hæstv. menntmrh. hefur lagt á að sú færsla takist vel og grunnskólinn verði í öruggum höndum hjá sveitarfélögunum þannig að ég ætla ekki að fara rukka sveitarfélögin um það en engu að síður vil ég nefna þetta hérna vegna þeirrar brtt. sem hefur komið fram um það að ríkið skuli greiða 100% heimavistanna. Ég tel að það sé ekki eðlilegt, ekki síst vegna þess að það kemur engin athugasemd úr hv. menntmn. frá minni hlutanum svo ég geti séð um það. Hins vegar kemur þessi brtt. fram núna. Ég hefði talið miklu eðlilegra að hv. þm., m.a. hv. þm. Ragnar Arnalds, hefðu beitt sér fyrir því að í menntmn. væri þá fjallað um þetta og þaðan hefði þá komið rökstudd tillaga, betur rökstudd en gert hefur verið í þessari umræðu.

Hæstv. forseti. Þetta vildi ég að kæmi fram hér í umræðunni. En til viðbótar varðandi heimavistirnar tel ég að það sé eðlilegt í fyllsta máta að sveitarfélögin greiði hluta í heimavistunum vegna þess að þær eru í mjög mörgum tilvikum notaðar sem hótel yfir sumartímann og eru geysilega mikilvægar fyrir ferðaþjónustuna í landinu, það hefur sýnt sig í uppbyggingu Eddu-hótelanna. Þau hafa verið má segja leiðandi og að ýmsu leyti lykill að aukinni ferðaþjónustu í landinu og sá rekstur hefur verið byggður upp af útleigu frá heimavistarhúsnæði sem reyndar er víða kannski ekki eins og best væri á kosið. Meðal annars vegna þess að heimavistarhúsin eru notuð sem hótelþjónusta eða gistiaðstaða yfir sumartímann tel ég ekkert óeðlilegt við það að sveitarfélögin leggi þetta til. Þótt ég hafi af ýmsum verið talinn kaþólskari en páfinn þegar kemur að hagsmunum sveitarfélaganna get ég ekki annað en verið þessarar skoðunar. Ég styð þess vegna frv. eins og það liggur fyrir og fagna því að það skuli vera komið til meðferðar og afgreiðslu hér í þinginu.