Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:56:09 (5623)

1996-05-03 16:56:09# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. menntmn. fyrir góð störf við yfirferð yfir þetta frv. og sérstaklega nefna formann nefndarinnar, hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, sem hefur fylgt þessu máli lengur en flestir aðrir þingmenn því eins og kunnugt er var hún á síðasta kjörtímabili formaður nefndar sem samdi frv. og einnig grunnskólafrumvarpið sem er nú orðið að lögum. Hún hefur því unnið með þessu máli allt frá fyrsta degi ef þannig má að orði komast og undir forustu hennar hefur nefndin skilað af sér álitum og brtt. meiri hlutans sem er að mínu mati til bóta á frv. og er enn til þess að gera það að góðu stjórntæki fyrir það mikilvæga skólastig sem framhaldsskólinn er. Í umræðunum hafa ekki komið nein þau atriði sem kalla á langa ræðu af minni hálfu því að þótt ótrúlegt sé hafa umræðurnar að meiri hluta snúist um kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga en ekki um menntamálin eða þau meginatriði sem verið er að ræða í þessu frv. Spurningar hafa frekar lotið að því hvort sveitarfélög ættu að borga 40% í heimavistum eða ekkert eins og þingmenn hafa fylgst með.

Ég vil sérstaklega taka undir það sem kemur fram í áliti meiri hluta nefndarinnar og einnig það sem fram hefur komið hjá hv. þm. í umræðunum um réttmæti þess að huga verði að leiðum til þess að stytta námstímann á framhaldsskólastiginu. Hann er nú eins og við vitum fjögur ár og það hefur komið fram og er ljóst að í áfangakerfinu er unnt að haga málum þannig að menn geti lokið náminu á þremur árum. Spurningin er sú hvort ekki eigi að vinda að því bráðan bug eins og kostur er að gera bóknámsskólunum, sem eru ekki með áfangakerfi, þetta einnig kleift. Ég mun taka þeirri áskorun sem kemur fram í áliti meiri hluta menntmn. um það mál, taka hana alvarlega og velta fyrir mér hvaða leiðir eru bestar til þess að þessu marki verði náð. Ég tel að til þess að því verði náð á raunhæfum forsendum sé nauðsynlegt að endurskoða námskrá bæði grunnskólans og einnig framhaldsskólans. Ég lít á það sem meginverkefni menntmrn. á komandi missirum eftir að grunnskólinn flytur til sveitarfélaganna og eftir að þetta frv. er orðið að lögum að vinna að námskrárgerð bæði fyrir grunnskólann og framhaldsskólann. Þá verði m.a. tekið mið af því markmiði að stytta námstímann þannig að íslenskir nemendur geti lokið framhaldssnámi sínu á svipuðum aldri og jafnaldrar þeirra erlendis. Þetta er mjög mikilvæg stefnumótun sem felst í þessu áliti nefndarinnar og ég heyrði ekki betur en nefndarmenn, sem hér töluðu, væru á því máli að skynsamlegt væri að setja þetta mark þó að það sé meiri hluti nefndarinnar sem áréttar það sérstaklega í áliti sínu. Raunar finnst mér að álit nefndarmanna séu svo keimlík í megindráttum að vafalaust hefur ekki miklu munað að nefndin næði saman þótt hún skiptist í þrjá hluta eins og álitin gefa til kynna.

[17:00]

Að því hefur verið vikið að það hafi skort samstarf við kennara og jafnvel verið látið að því liggja að með frv. sé verið að sigla málum þannig að í algjörri andstöðu við kennara sé. Ég vil láta þess getið að ég hef rætt þessi mál við forustumenn kennara á þeim vetri sem nýliðinn er og farið yfir mál sem þeim þykja athugaverð í frv. Ég tel að í brtt. meiri hluta nefndarinnar sé komið til móts við ýmis sjónarmið sem kennarar hreyfðu. Til dæmis er áréttað hvernig haga skuli verkaskiptingu á milli skólanefnda annars vegar og hinna hins vegar sem fjalla um fagleg innri málefni í skólastarfinu og ákvæði um reglugerðarheimild fyrir menntmrh. vegna kennarafunda, ákvæði um það að leitað skuli umsagna kennarafunda um skólanámskrár og fleiri slík atriði sem láta e.t.v. ekki mikið yfir sér þegar við lítum á þetta stóra mál í heild en eru atriði sem sett eru inn í frv. með brtt. nefndarinnar, m.a. að tilmælum kennara. Þannig hefur a.m.k. verið komið til móts við sum sjónarmið þeirra þótt að það sé rétt að ekki hafi menn orðið við öllum þeirra óskum. Enda ekki við því að búast að tillögur eins aðila séu teknar allar og nefndin hafi viljað gera þær að sínum. En viðleitni hefur verið uppi á liðnum vetri í þá átt að koma til móts við sjónarmið kennaranna og ég tel að það endurspeglist í brtt. meiri hluta nefndarinnar.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði í ræðu sinni þegar þessar umræður voru að hefjast, þ.e. að í skólum landsins á meðal skólameistara og skólafólks biðu menn eftir því að Alþingi samþykki þetta frv. Mönnum er orðið brýnt að fá þær starfsreglur samþykktar sem mælt er fyrir um í frv. Það var fyrst lagt fram vorið 1994, var síðan hér á síðasta ári á þinginu á undan þessu, kosningaþinginu, þar sem ekki vannst tími til að ljúka málinu og nú er það hér í þriðja sinn. Það er alveg ljóst af þeim erindum sem menntmrn. berast og sem það getur því miður ekki sinnt á nýjum forsendum fyrr en þetta frv. er orðið að lögum að skólarnir eru farnir að búa sig undir að starfa á þessum forsendum og það yrði að mínu mati verulegt áfall fyrir skólakerfið, þetta mikilvæga skólastig, ef svo færi að frv. yrði ekki samþykkt nú á þessu þingi. Þrátt fyrir andstöðu kennarasamtakanna og yfirlýsingar þeirra um það að þetta frv. eigi ekki að ná fram að ganga lít ég þannig á að þeir sem í skólum starfa bíði eftir afgreiðslu þessa máls. Ég hef heimsótt marga framhaldsskóla á undanförnum mánuðum og m.a. var ég í dag á fundi með skólameisturum framhaldsskólanna sem eru að þinga í Reykjavík. Það er alveg ljóst að forustumenn í skólunum bíða eftir því að Alþingi afgreiði þetta mál og vænta þess að það klárist á þessu þingi. Og raunar finnst mér að þær málefnalegu umræður sem orðið hafa um málið í dag bendi til þess að okkur muni auðnast að ljúka því í meiri sátt en skipting menntmn. gefur til kynna þegar fyrst er á málið litið. Umræðurnar í dag hafa verið mjög málefnalegar. Þær hafa þó ekki endilega snúist um atriði sem lúta að innra starfi skólanna heldur verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Einnig hafa margar ágætar ræður verið fluttar um meginefni frv. og ég hef skilið það svo að menn eru í höfuðdráttum sammála um það. Menn deila um 15. gr. og ýmis atriði eins og gengur en ég hef ekki orðið var við það hér að menn telji ekki skynsamlegt að þetta mál nái fram að ganga.

Ég vil aðeins víkja að ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Hann las upp úr bréfi eins og hann kallaði það og gaf til kynna að það væri bréf sem hefði verið sent með fyrirmælum til framhaldsskólanna. Svo er ekki. Þetta er plagg sem var lagt fram við 1. umr. málsins á Alþingi og til kynningar og lýtur að verkaskiptingu á milli framhaldsskólanna. Og eins og þá var sagt og kemur fram í bréfi sem því fylgir var plaggið lagt fram í því skyni að menn ræddu það og veltu fyrir sér þeim tillögum sem þar koma fram. Síðan yrði það rætt við menntmrn. á þeim samstarfsvettvangi framhaldsskólanna sem starfandi er og síðan mundi menntmrn. taka af skarið eins og því ber lögum samkvæmt um verkaskiptinguna. Það hefur verið gert í Reykjavík á framhaldsskólastiginu varðandi málmiðnað og bíliðngreinar og einnig matvælagreinar í vetur og valdið nokkrum umræðum. Ég tel þó að að lokum hafi orðið sæmileg sátt um þá niðurstöðu. Að öðru leyti er plaggið enn vil vinnslu og skoðunar og það sem hann las upp um stöðu lítilla skóla er atriði sem fleiri en hann hafa gagnrýnt. Það er hins vegar ljóst að það er nauðsynlegt að hvetja til samstarfs á milli skóla utan Reykjavíkur, minni skóla, til þess að þeir dafni betur en ella án þess að í því felist nokkur vantrú á því að innan þessara skóla geti menn náð þeim árangri sem að er stefnt og allir vilja stefna að sem að skólunum standa. Hins vegar er nauðsynlegt að mínu mati að efla samstarfið þar sem það á við, t.d. á Norðurl. e. á milli skólans á Laugum, framhaldsskólans á Húsavík og skólanna á Akureyri. Ég tel að það væri æskilegt að auka þar samstarf á milli skóla svo þeir eflist allir af nánara samstarfi. Hið sama á raunar við á Austurlandi þar sem er skólinn á Höfn í Hornafirði, Verkmennaskólinn í Neskaupstað og Menntaskólinn á Egilsstöðum. Ég held að innan þessara kjördæma eigi framhaldsskólarnir að starfa náið saman og nánar saman. Nútímatækni, tölvutækni, fjarnám og fjarnámstæknin gefur mönnum færi á því að gera þetta á nýjum forsendum. Það eru þessi sjónarmið sem vakið er máls á í þessu plaggi en ekki verið að gera lítið úr þessum skólum nema síður sé. Enda hefur það ekki verið stefna mín sem menntmrh. að leggja af skólastarf á þessum stöðum. Ég vil þvert á móti gefa skólunum færi á að þróast samkvæmt eigin lögmálum en þó í nánari samvinnu við næstu skóla. Það liggja fyrir tilmæli frá þessum skólum um námsefni og námsbrautir sem við getum ekki afgreitt í menntmrn. nema þetta frv. verði að lögum. Ég lít því þannig á að með þeirri umgjörð sem sköpuð verður með samþykkt frv. verði þessum skólum skapað betra starfsumhverfi og fjölbreytni geti áfram dafnað í íslensku framhaldsskólakerfi. Ég tel að það sé alrangt að líta þannig á að þetta sé miðstýringarfrumvarp sem vilji fella allt í sama mót. Það gefur þvert á móti færi á fjölbreytni og skapar möguleika til þess að verða við óskum skóla um námsbrautir umfram það sem unnt er á þessu stigi. En að sjálfsögðu verða menn í því tilliti að hafa kostnaðarþáttinn alltaf í huga og gera það sem hagkvæmast er. Því miður er ekki um ótakmarkaða fjármuni til þessa starfs að ræða frekar en til svo margs annars. Við þurfum því að hafa hagræðingarsjónarmið einnig hér í huga og samvinna stuðlar að því og jafnframt styrkir skólana.

Þessi almennu rök vil ég einnig nota þegar menn tala um það að ráðuneytið flokki skóla í fyrsta og annars flokks skóla. Svo er ekki. Í frv. er veitt heimild til þess að taka upp samræmd próf og þau ættu að gera okkur auðveldara að nota svipaða mælistiku á skólana og draga þá mörkin þannig að menn átti sig á því að það er ekki verið að skipta skólum í fyrsta og annars flokks skóla heldur er starfsumhverfi þeirra misjafnt.

Menn hafa gert því skóna að það sé nýmæli í þessu frv. þar sem mælt er fyrir um það að skólar geti valið nemendur til setu innan sinnan veggja. Þetta er ekki nýmæli. Það er gert nú þegar. Menn þurfa ekki að kynna sér val á nemendum í framhaldsskóla lengi til þess að átta sig á því að skólameistarar gefa sér forsendur við val á nemendum sem skapa skólunum sérstöðu. Lítum t.d. á hinar góðu niðurstöðu sem nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri fá í öllum háskóladeildum þar sem reynslan sýnir að þeir standa sig hvað best í öllum deildum Háskóla Íslands. En þegar þetta er rætt við forustumenn Menntaskólans á Akureyri og dáðst að því hvað skólinn nær góðum árangri ef þessi mælistika er notuð þá vekja þeir í hógværð sinni athygli á því að skólinn búi þó við þann kost að hann geti valið fólk inn í bekkina. Hann getur sett kröfur og hann gerir kröfur um að menn hafi náð ákveðinni lágmarkseinkunn til þess að setjast í skólann. Þess vegna er það hans verkefni að skila góðum nemendum enn þá betri með sínum prófum.

Sama á við að verulegu leyti um Menntaskólann í Reykjavík, þann ágæta skóla sem nú fagnar 150 ára afmæli sínu. Á sl. hausti kærðu tveir nemendur úr Garðabæ sem ekki fengu inni í þeim skóla þá ráðstöfun rektors skólans að neita þeim um skólavist. Það fór til stjórnsýsluúrskurðar í menntmrn. Foreldrar drengjanna sættu sig ekki við þá niðurstöðu og kærðu úrskurð ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis. Ef menn lesa álit og úrskurð ráðuneytisins í báðum tilvikum liggur ljóst fyrir að það er síður en svo að allir þeir sem æskja inngöngu í Menntaskólann í Reykjavík fái þar skólasetu. Þvert á móti er beitt ströngum skilyrðum og þess krafist að menn hafi verulega góðar einkunnir til þess að komast inn í skólann. Það er því alrangt að halda því fram að með þessu frv. sé verið að brjóta í blað að því er varðar inngöngu í framhaldsskóla. Hins vegar er mælt fyrir um reglur sem eiga að gilda og ráðuneytið á að útfæra sem byggjast á öðru en landafræði eða búsetu og ég sé ekkert óeðlilegt við það. Ég hef sjálfur staðið að því að rita bréf sem miðaði að því að útiloka nemendur úr nágrannabyggðum Reykjavíkur frá skólum í Reykjavík og beina því til skólameistara að þeir héldu nemendum utan skóla í Reykjavík vegna búsetu þeirra. Mér finnst að slík bréf séu frekar ámælisverð en hitt að skólar geri kröfur um að nemendur sýni ákveðinn árangur í námi sínu áður en þeir ganga inn fyrir veggi skólanna. Ég vil árétta að þeir nemendur sem standa sig best í Háskóla Íslands að meðaltali miðað við allar athuganir koma úr skóla sem velur þannig nemendur til náms innan sinna veggja.

Varðandi þá spurningu sem kom oftast upp um skiptingu kostnaðar við byggingu heimavista þá er það líka mál sem mér finnst að eigi að skoða í stærra samhengi en hér hefur verið gert. Það er svo að heimavistir eru ekki endilega við alla framhaldsskóla. Til dæmis þúsund manna skóli eins og Verkmenntaskólinn á Akureyri, ágætur skóli og einn fjölmennasti skólinn utan Reykjavíkur, hefur enga heimavist. Þar gengur skólastarfið ágætlega. Ef maður spyr skólameistarann þar hvernig þeir fari að með enga heimavist þá er svarið: ,,Nemendurnir koma sér fyrir og við leggjum enga áherslu á að koma hér upp heimavist.`` Það er því alls ekki einhlítt að það þurfi að vera starfræktar heimavistir við skóla og hér í Reykjavík vitum við að það eru ekki starfræktar heimavistir við framhaldsskóla eða menntaskóla þótt nemendur í þeim séu ekki allir búsettir hér á þessu svæði. Það er því ekki endilega aðalatriðið til þess að skólar geti starfað að þar séu heimavistir. Hins vegar skil ég mætavel að sum byggðarlög þurfa á heimavistum að halda og í þessu er erfitt að alhæfa. Við skóla eins og framhaldsskólann á Ísafirði hefur verið reist mikið heimavistarhús. Ég var þar á þriðjudaginn og mér er sagt að það séu aðeins fimm herbergi í því húsi notuð sem heimavistarherbergi og nemendur kjósi frekar að búa annars staðar. Spurningin þar er sú hvernig best er að nýta húsnæðið yfir veturinn á meðan skólinn starfar svo það sé þó í einhverri nýtingu.

[17:15]

Það er því heldur ekki algilt að þótt til séu glæsileg heimavistarhús við framhaldsskóla þá séu þau þannig nýtt. Nemendur geta kosið að búa annars staðar. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar menn velta þessari spurningu fyrir sér og ekki einungis að líta á spurninguna um kostnaðarskiptingu. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og mun gera það sem hann hvatti mig til, þ.e. að láta gera úttekt á því hvar þörf er fyrir heimavistarhúsnæði og hvernig á að standa að því að byggja það upp. Þá eru fyrir því góð og gild rök þegar ráðist verður í slíkar framkvæmdir. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það að sveitarfélögin taki þátt í þeim kostnaði þegar ákvarðanir hafa verið teknar um byggingu á heimavistarhúsnæði. Ég er alls ekki á móti því að slíkt húsnæði rísi en ég vek athygli á því að aðstæður eru sums staðar þannig að það er ekki þörf á því. En það er sjálfsagt að meta það og skoða hvarvetna sem þessir skólar eru starfræktir. Ég vil einnig vekja athygli á því að nemendur sem eru á svipuðum aldri búa ekki við sömu kjör að þessu leyti eftir því í hvaða skóla þeir eru. Nemendur við Iðnskólann í Reykjavík sem eru í Iðnnemasambandi Íslands eru í Byggingarfélagi iðnnema sem eru mjög öflug samtök. Það fær lán úr húsnæðislánakerfinu og byggir nemendaíbúðir í Reykjavík og stendur mjög glæsilega að því og hefur komið upp góðri aðstöðu fyrir nemendur í þessum skóla.

Ef nemandi sem er t.d. í Menntaskólanum við Hamrahlíð er jafnframt í Tónlistarskólanum í Reykjavík getur hann bæði verið félagi í nemendafélagi Menntaskólans við Hamrahlíð og í samtökum sem eru skammstöfuð BÍSN. Sem félagi í BÍSN getur hann verið aðili að byggingarfélagi sem tekur að sér að reisa námsmannaíbúðir og fær lán til þess úr félagslega húsnæðislánakerfinu. Sé nemandinn sem sagt skráður í félag Tónlistarskólans í Reykjavík getur hann verið þátttakandi í slíku byggingarsamvinnufélagi á meðan hann er í framhaldsskóla.

Mér finnst ekkert einsýnt í þessu efni að það sé ekki unnt að fjármagna heimavistir utan Reykjavíkur þar sem menn telja þörf á því með því að sækja inn á þessi mið og taka þá lán og byggja þau upp eins og gert hefur verið af þessum öflugu byggingarsamvinnufélögum iðnnema og BÍSN, svo ég tali nú ekki um félagsstofnanirnar sem starfa við háskólana, bæði Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þær hafa staðið mjög myndarlega að byggingu stúdentagarða og hjónagarða. Í þessu efni finnst mér því að menn eigi að líta til annarra hluta en þeirra hvort ríkið borgar 60% eða sveitarfélögin 40%. Menn verða að velta því fyrir sér hvort þessar byggingar megi ekki reisa á öðrum forsendum. Þetta vildi ég nefna í sambandi við þetta mál því mér finnst að menn hafi kannski verið heldur þröngsýnir í þessum umræðum. Þeir hafa gengið of mikið út frá hefðbundnum deilum um verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga en ekki lagt sig fram um að líta á málið eins og það er, bæði þörfina og hins vegar spurninguna um jafnræði og jafnræðisreglu þegar um það er að ræða að hið opinbera húsnæðislánakerfi lánar til að byggja félagslegar íbúðir sem í þessu tilliti væru þá heimavistir eða hvaða nafn sem við gefum þeim. Þetta finnst mér mál sem sjálfsagt er að skoða um leið og ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn að verða við þeim óskum sem fram komu um að gera úttekt á þörfinni fyrir heimavistarhúsnæði við framhaldsskólana.

Ég er sáttur við þá niðurstöðu sem nefndin kemst að að hafa þetta ákvæði óbreytt í frv. og geri að sjálfsögðu ekki athugasemdir við það að menn fylgi fram þeirri tillögu sem kom fram í frv. Ég minni á það sem segir hér í grg. Þar er gert ráð fyrir að samið verði um það á milli ríkis og sveitarfélaga hvernig sveitarfélögum verði bætt aukin þátttaka í kostnaði við byggingu heimavista. Samkvæmt grg. er því heimild fyrir ríkið og fyrir okkur sem erum í forsvari fyrir það að gera samninga við sveitarfélögin þegar málin komast á það stig að ákvarðanir eru teknar um heimavistarbyggingar á þeim forsendum sem gert er ráð fyrir í 37. gr. En eins og ég segi finnst mér að menn eigi að skoða fleiri leiðir ef því er að skipta.

Herra forseti. Ég tel mig í sjálfu sér ekki þurfa frekar að svara því sem fram hefur komið í umræðunum. Þær hafa verið mjög málefnalegar og ekki verið ágreiningur um nein sérstök málefni sem að mér lúta.

Ég vil aðeins í lokin, herra forseti, vekja athygli á því að í meförum nefndarinnar hefur verið gerð breyting sem mér finnst ástæða til að fara nokkrum orðum um. Það er í 11. lið þar sem lagt er til að lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík og lög um vélstjóranám verði felld úr gildi þar sem gert er ráð fyrir að um slíkt nám fari eftir lögum um framhaldsskóla. Mér finnst ástæða til þess að nefna þetta sérstaklega. Hér er verið að leggja til og nefndin hefur gert tillögu um það að fella úr gildi lögin um Stýrimannaskólann í Reykjavík og lög um vélstjóranám þannig að framvegis verður farið með nám af þessu tagi í samræmi við þær meginreglur sem koma fram í framhaldsskólalögum. Það hefur að mínu mati m.a. staðið þessu námi fyrir þrifum að það hefur verið mælt fyrir um einstaka þætti í náminu í lögum og oft hvorki auðvelt né árennilegt að breyta lögum sem eru eins orðuð og þau eru um þessa skóla. Það hefur dregist úr hömlu að endurskoða lögin og ráðast í það verkefni að endurskoða námskrá og breyta því sem breyta þarf í þessum skólum í samræmi við kröfur tímans. Með þessari tillögu nefndarinnar er lagt til að lögin verði felld úr gildi og framvegis verði um þessa skóla fjallað eins og sérskóla á framhaldsskólastigi. Ég tel að þetta sé mjög mikilvæg tillaga frá meiri hluta nefndarinnar og fagna henni. Á mínum vegum hefur verið unnið að því undanfarið að fara yfir stýrimannanámið og gera tillögur um umbætur á því. Einnig er nauðsynlegt að huga að húsnæði Sjómannaskólans í Reykjavík og taka á málefnum þar en ætlunin er að það hús verði hluti af skólahverfi sem rísa á umhverfis uppeldisháskóla. Nú í haust er stefnt að því að Þroskaþjálfaskóli Íslands flytji inn í Sjómannaskólahúsið og það verður þá fyrsta skrefið í þá átt að mynda þessa umgjörð utan um uppeldisháskólann og hefur tekist góð samvinna um það mál á milli skólastjóranna í Sjómannaskólanum og einnig annarra sem að málinu koma. Þarna á því að rísa nýtt skólahverfi sem sameinar e.t.v. undirstöðunám í sjómannafræðum og vélstjórafræðum og uppeldisfræðum og verður mjög ánægjulegt að fylgjast með því hvernig tekst að byggja það upp á þessum stað og leggja þar drög að samstarfi skóla úr ólíkum áttum.