Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:23:50 (5624)

1996-05-03 17:23:50# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:23]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að heyra svör ráðherra við einu atriði sem mér fannst ekki koma fram í ræðu hans. Þó getur verið að ég hafi misst af því. Það hefur komið fram í athugasemdum við frv. að kennsludögum á að fjölga þó nokkuð og að mati kennara hefur það í för með sér töluverðan kostnað og ekki hefur heldur verið við þá samið um aukið vinnuframlag. Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvaða kostnað er hér um að ræða. Er heimild til þess á fjárlögum fyrir árið 1996 að greiða þann kostnað og hafa staðið yfir einhverjir samningar við kennara um aukið vinnuframlag í samræmi við þessa fjölgun kennsludaga?

Í öðru lagi kom fram hjá hæstv. ráðherra að skólameistarar sem og aðrir sem vinna við framhaldsskólana biðu eftir því að frv. yrði samþykkt og yrði að lögum. Hæstv. ráðherra tók þó fram eins og það væri atriði sem litlu skipti að kennarafélögin hefðu eitthvað verið að mótmæla. En 30. apríl samþykkir Hið íslenska kennarafélag mótmæli sem send voru frá þeim þar sem segir: ,,Stjórn HÍK bendir á að við meðferð frumvarps til laga um framhaldsskóla sem nú kemur til 2. umr. á Alþingi hafa nær engar þeirra fjölmörgu athugasemda samtaka kennara né annarra skólamanna um það er betur mætti fara verið teknar til greina. Framhaldsskólafrumvarpið bætist því í flokk þeirra frumvarpa sem keyra á í gegn í megnu ósætti við þá sem vinna eiga eftir lögunum.``

Bæði kennarafélögin hafa mótmælt þessu frv. og þó er það kannski sérstaklega eftirtektarvert að Samband sérskólakennara, þ.e. verknámskennara, hafa haft uppi hörð mótmæli gegn þessu frv.

Og að síðustu vegna þeirra orða sem komu frá hæstv. ráðherra í lokin um Sjómannaskólann. Er ekki upplagt að færa Sjómannaskólann og alla hans starfsemi út á land?