Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:33:26 (5630)

1996-05-03 17:33:26# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:33]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað veit hæstv. menntmrn. miklu meira um þetta mál. Það er verið að læða þessu hér inn og auðvitað setur ekki viðkomandi höfundur nafnið sitt undir þetta. En það á að lesa þetta milli línanna eins og ég segi. Það skilur hver maður.

Hæstv. ráðherra sagði meira. Hann vék að Verkmenntaskólanum á Akureyri og sagði að þar væri ekki um heimavistarhúsnæði að ræða. Ég tók það fram í mínu máli að þetta færi eftir stærð hinna ýmsu staða og hversu leigumarkaðurinn væri stór. Það er ekkert hægt að alhæfa í þessu. Hæstv. ráðherra sagði einnig að sem betur færi gætu ákveðnir skólar valið nemendur til sín. Sem betur fer geta ákveðnir skólar valið nemendur til sín og þá sjálfsagt hafnað öðrum. En hverjir eiga þá að taka við þeim? Þá spyr ég hæstv. ráðherra um það sem margsinnis er vikið að í þessu frv.: Rímar þetta við þá hugsun sem þar stendur þegar talað er um jafnrétti til náms?