Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:38:05 (5633)

1996-05-03 17:38:05# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að gera skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri upp neinar skoðanir í þessu og vafalaust mundu menn kjósa að þar væri stærri heimavist við skólann. En þetta er þúsund manna skóli. Við vitum hvernig að honum er búið og starfið í skólanum gengur ágætlega.

Ég vil varðandi frumkvæði sveitarfélaganna láta þess getið að ég tel, eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., standa framhaldsskólastiginu í Reykjavík fyrir þrifum hvernig Reykjavíkurborg bregst við óskum menntmrn. um þátttöku í uppbyggingu þess. Viðræður hafa í allan vetur staðið yfir og ég hef leitað eftir því við borgaryfirvöld, að þau tækju þátt í athugunum og samstarfi um uppbyggingu Menntaskólans í Reykjavík, stærsta bóknámsskólans hér, elsta skólans, skóla sem er í miðborg Reykjavíkur og setur mikinn svip á borgina. Hann býr við þröngan kost í gömlu húsi og er hagkvæmasti skólinn sem rekinn er á framhaldsskólastiginu. Reykjavíkurborg hefur staðfastlega neitað að taka þátt í samstarfi um að byggja þennan skóla upp. Þess vegna er ég sammála því sem hv. þm. sagði að besta leiðin til að efla framhaldsskólastigið er að sveitarfélögin komi einnig þar inn með frumkvæði og séu þátttakendur í uppbyggingunni. Það knýr á um að vel sé að skólanum staðið, jafnt skólahúsnæðinu sem og byggingu heimavista.