Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:39:43 (5634)

1996-05-03 17:39:43# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:39]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna þessa. Ég held að það sé ekki í öllu tilliti sanngjarnt að bera saman aðstöðu og afstöðu sveitarfélaga víða um landið og afstöðu Reykjavíkurborgar. Það vill þannig til, eins og við þekkjum öll, að ýmislegt sem hefur þótt sjálfsagt að væri hér í borginni hefur ekki þótt sjálfsagt en eftirsóknarvert víða úti á landi. Þess vegna hafa sveitarfélögin víða úti á landi verið tilbúin að leggja öllu meira á sig til þess að tiltekin þjónusta og starfsemi yrði staðsett í nálægð við þau, a.m.k. meir en hér hefur þótt ástæða til að hafa uppi. Þar er því dálítill munur á. Og af því að hér hefur skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri verið nefndur, þá held ég að það sé einfaldlega þannig að hans metnaður stendur kannski til annarra hluta en byggingar heimavistar. Hann horfir á aðra þætti í sínu skólastarfi enda má segja að bygging heimavistar og starfræksla hennar ætti frekar að snúa að öðrum.