Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:50:07 (5640)

1996-05-03 17:50:07# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Þó þetta mál láti ekki mikið yfir sér og þó það taki flutningsmann ekki nema tvær til þrjár mínútur að mæla fyrir því þá er hér á ferðinni mjög athyglisvert mál. Ég mundi flokka þetta undir eitt af athyglisverðustu málum þessa þings sem ég styð en hefði viljað sjá í nokkuð öðrum búningi sem ég vil koma að nánar. Flutningsmaður kom inn á meginástæðurnar fyrir flutningi þessa frv. og taldi mikla nauðsyn á að stjórnvöld tækju tillit til hagsmuna aldraðra þegar teknar eru ákvarðanir sem þá varða. Einnig að nauðsynlegt sé að stöðugleika sé gætt í hvívetna að því er varðar fjárhagslega afkomu aldraðra og einnig væri nauðsynlegt að koma á fót embætti umboðsmanns aldraðra til að fylgjast með að stjórnvöld og einkaaðilar taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna aldraðra.

Virðulegi forseti. Ég hygg að meginástæðunnar fyrir flutningi tillögunnar sé ekki getið í þáltill. sjálfri og kannski er það að hv. þm. sem er mikill áhugamaður um málefni aldraðra sé feiminn að geta meginástæðnanna. Ég get mér þess til að hv. þm. ofbjóði sú aðför sem hefur verið gerð að kjörum aldraðra á þessu kjörtímabili og skyldi engan undra. Ég hygg að hv. þm. kvíði mjög næstu fjárlagagerð og næsta vetri og sé þess vegna að flytja þetta frv. Virðulegi forseti, ég býð fram aðstoð mína til þess að flytja þetta mál í frumvarpsbúning. Það þarf ekkert að kanna hvort það eigi að stofna þetta embætti, það er alveg sjálfsagt og nauðsynlegt að stofna þetta embætti og ég tel að það þurfi að flytja það í frumvarpsbúningi og samþykkja það á þessu þingi. Ég býð fram liðsinni mitt við það mál.

Það er líka ljóst að tillagan er sett fram til höfuðs heilbrrh. sem hefur haft ákveðna forustu í þessari aðför að öldruðum. Það er ljóst ekki bara í þessu máli heldur mörgum öðrum sem hafa verið flutt á þinginu í vetur hverjir eru hjú í ríkisstjórninni og hverjir eru húsbændur. Hér sýnir einn af þeim sem tilheyrir þeim stjórnarflokknum, sem hefur húsbóndavaldið, með þessari tillögu að honum er ofboðið hvernig hjúin haga sér í ríkisstjórninni.

Hv. þm. hefði átt að rifja upp þessa aðför að öldruðum í vetur. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að mér hefði fundist reisn þingmannsins heldur meiri ef hann hefði komið í ræðustól við fjárlagagerðina til að verja kjör aldraðra og beita sér fyrir því að ekki yrði gengið svona hart að öldruðum. Ég man t.d. ekki eftir því að hv. þm. hafi komið hér fyrir jólin þegar verið var að afnema tvísköttun á lífeyrisgreiðslum sem var einungis ár frá því að það var lögbundið að afnema tvísköttun á lífeyrisgreiðslur en hv. þm. hafði ákveðna forustu í því máli fyrir tveimur árum að flytja tillögu til þál. um afnám tvísköttunar á lífeyrisgreiðslum. Ég man ekki eftir að hafa séð hann í ræðustól þegar verið var að setja þessa tvísköttun á aftur. En hún hafði verið í gildi í eitt ár. Hv. þm. hefði mátt rekja hvernig verið var að skerða Framkvæmdasjóð aldraðra fyrir jólin og hvernig átti að byrja á að setja fjármagnstekjur á aldraða með því að láta fjármagnstekjur skerða lífeyrisgreiðslur aldraðra. Hvernig lögð var til skerðing á grunnlífeyri, skerðing á tekjutryggingu þeirra sem hafa ekki hirt um að greiða í lífeyrissjóð eins og sagt var í frv. ráðherrans. Hvernig lífeyrisgreiðslur gamla fólksins voru aftengdar við launaþróun í landinu og hvernig tillögurnar voru um að hækka gjaldtöku fyrir sérfræðilæknisþjónustu á heilsugæslustöðvum. Þetta er meginástæðan, virðulegi forseti, fyrir því að hv. þm. flytur þessa þáltill. Ég hygg að það hefði verið full ástæða til að huga að því einnig hvort ekki væri rétt að flytja frv. um umboðsmann fatlaðra, umboðsmann sjúkra, umboðsmann atvinnulausra o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég vildi láta þetta koma fram af því hér er mjög merkilegt mál á ferðinni sem ég lýsi fullum stuðningi við. Það er ekkert vafamál í mínum huga þó mér finnist það af tillögugreininni sjálfri að einhver vafi leiki á því hjá hv. þm. hvort það eigi að koma á slíku embætti að það eigi að flytja þetta í frumvarpsbúning en láta ekki ríkisstjórninni það eftir, sem hefur staðið fyrir þessari aðför að launafólki, að meta hvort það eigi að koma á embætti umboðsmanns aldraðra eða ekki. Þingið hefur alveg nægjanlega þekkingu og vitneskju um það hvernig ríkisstjórnin hefur ráðist að öldruðum til að geta strax tekið afstöðu til frv. sem yrði flutt um þetta efni.

Virðulegi forseti. Það er ekki vafi í mínum huga að hér er á ferðinni gott mál. Mér finnst aðeins að hv. þm. hefði átt að gera ítarlegar grein fyrir höfuðástæðunni fyrir tillöguflutningnum í greinargerðinni. Ég skil vel að þingmanninum, sem hefur sýnt málefnum aldraðra mikinn skilning, sé ofboðið miðað við þá reynslu sem við höfum haft af ríkisstjórninni á fyrsta heila starfsári hennar þar sem hún fann helst matarholu í því að gera aðför að öldruðum, sjúkum, öryrkjum og atvinnulausum. Það var nokkuð sérstakt að það skyldi vera vegna þess að þjóðin bjóst við því að þegar betur áraði í þjóðfélaginu yrði þessum hópi hlíft. Nú dugar ekkert minna, virðulegi forseti, ég tek undir það með hv. þm. að stofna hér umsvifalaust til embættis umboðsmanns aldraðra og ég skora á hv. þm. að standa við hlið mér og örugglega fleiri í því að breyta þessari tillögu í frumvarpsbúning og gera þetta mál að lögum áður en þing fer heim.