Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 18:04:52 (5645)

1996-05-03 18:04:52# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[18:04]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri þáltill. sem er til umræðu og hefur reyndar legið frammi um einhvern tíma án umræðu. Það er enn þá einn og einn hv. stjórnarliði sem heldur dauðahaldi í réttlætiskennd og reynir að vera sjálfum sér samkvæmur og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er einn af þeim. Það er hins vegar dálítið napurlegt að það skuli vera í raun eina ráð hv. stjórnarliða að mæta ákvörðunum ríkisstjórnar sem þeim er ætlað að styðja með þeim hætti að flytja tillögur um sérstakan umboðsmann sem skuli verja kjör þeirra sem ríkisstjórnin fer einna verst með. Af því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að telja upp öll þau embætti umboðsmanna sem þyrfti að stofna mætti í raun og veru segja að það sem við þyrftum í dag væri einn umboðsmaður launafólks í landinu. Aðför ríkisstjórnarinnar að launafólki hófst við afgreiðslu fjárlaga og þegar við afgreiddum ráðstafanir í ríkisfjármálum með því að skerða kjör aldraðra og öryrkja verulega og ég tek undir að það væri nauðsynlegt að ef slíkt embætti yrði stofnað að þá væri það umboðsmaður aldraðra og öryrkja. Það hefur verið um ákveðið samstarf milli þessara hópa að ræða og náttúrlega tilheyra margir báðum hópum, þ.e. Landssambandi aldraðra og svo aftur Öryrkjabandalaginu og hefur verið mjög náið samstarf á milli þeirra. Eins og kom fram hjá hv. þm. er um að ræða 26.300 einstaklinga sem ríkisstjórnin réðst á við afgreiðslu fjárlaga og eins við afgreiðslu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1996. Það var ekki seinna vænna að tala fyrir þessari þáltill. og reyna að knýja hana fram eða breyta henni í frumvarpsform á síðustu dögum þingsins þegar ljóst var að 1. maí eftir miklar og langar samningaviðræður frá 1. mars, þ.e. í tvo mánuði, þar sem aldraðir reyndu að ná til baka hluta af þeim heimildabótum sem voru skertar 1. mars af hálfu ríkisstjórnarinnar og núverandi ráðherra þannig að ríkissjóður ætlaði sér að spara 24 milljónir á árinu með þeim skerðingum sem þá voru framkvæmdar en nú skilst manni að 1. maí hafi þetta verið tekið eitthvað til baka og u.þ.b. 20 millj. skilað til aldraðra aftur. En í kringum 1. mars mættu fulltrúar aldraðra og öryrkja fyrir utan heilbrrn. til að mótmæla þessu en var þá boðið upp á heitt kakó í staðinn því það var frekar napurt úti. En ég er hrædd um að kuldinn úti hafi ekki það sem þeir höfðu áhyggjur af þann daginn heldur kuldinn í hæstv. ríkisstjórn sem nú fer hér með völd og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur stutt fram að þessu.

Ég hef lagt fram till. til þál. á þskj. 767 um skipun samráðsnefndar um hagsmuni og réttindi aldraðra og öryrkja sem er í raun og veru í svipuðum dúr. Annars vegar er talað um samráðsrétt þessara hópa en í tillögu hv. þm. er talað um umboðsmann aldraðra. Þessi þáltill. er flutt í tilefni af því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og ég áttum fund með Félagi eldri borgara í Reykjavík á afmæli félagsins og þar kom fram að ítrekað hafa þessi samtök sem og Öryrkjabandalagið sent beiðni til stjórnvalda, til ríkisstjórnarinnar og óskað eftir því að hér yrði skipuð formleg samráðsnefnd þar sem aðilar frá fjmrn., heilbr.- og trmrn. og félmrn. ættu sæti í og síðan frá Öryrkjabandalaginu og Landssambandi aldraðra. En þeir hæstv. ráðherrar sem hafa fengið bréfin hafa ekki einu sinni séð ástæðu til þess að svara þeim. Það er virðingin sem borin er fyrir samtökum aldraðra og öryrkja að þessir hæstv. ráðherrar sem hafa fengið bréfin hafa ekki svarað. Ekki einu sinni látið vita að erindið væri móttekið. Í framhaldi af fundinum flutti ég þáltill. vegna þess að einmitt þessum hópum, sem þurfa að búa við ákveðið öryggi, er lífsnauðsyn að búa við félagslegt og fjárhagslegt öryggi síðustu æviárin eins og þau orðuðu það sjálf. Að þeim sé sýnd sú virðing að hafa samráð við þau þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar sem snerta hagsmuni þeirra en það hefur ekki verið gert.

Landssamband aldraðra hefur í tillögum sínum til þessara ráðuneyta með ósk um þessa samráðsnefnd tekið mið af samráðsnefnd sem er starfandi í Noregi hjá samtökum aldraðra og þeirra ráðuneyta sem ég taldi upp áðan.

En það er mjög ánægjulegt að einn stuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar skuli taka upp hagsmunamál aldraðra og öryrkja því að ég er sannfærð um það að hv. þm. mundi gjarnan vilja bæta því orði við í tillöguna ef af samþykkt yrði þannig að kannaðar yrðu forsendur fyrir stofnun embættis umboðsmanns aldraðra og öryrkja. Það er allt of fátítt og reyndar einkennilega fátítt a.m.k. í ljósi allrar þeirrar umræðu sem var á síðasta kjörtímabili af hálfu hv. framsóknarmanna sem eru ekki sjáanlegir í sölum þessa dagana, það kemur fyrir að við sjáum einn og einn og þá helst í forsetastól. En það er svo sem ekki nema von að fulltrúar Framsfl. fari með veggjum eftir allt það sem þeir sögðu á síðasta kjörtímabili. Hér vorum við að ræða menntamálin og nú erum við að ræða hagsmunamál aldraðra og öryrkja. Ég er ekkert hissa á því þó hv. þm. Framsfl. sjáist ekki. Reyndar færu þeir ekki úr rúmi ef samviskan væri í lagi en á meðan a.m.k. einn hv. stjórnarliði sér ástæðu til þess að halda uppi vörnum fyrir þessa hópa aldraðra og öryrkja, sem hafa orðið verst úti í tíð ríkisstjórnarinnar, þá er þó að minnsta kosti von að einhvern tíma rofi til.