Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 18:13:17 (5646)

1996-05-03 18:13:17# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[18:13]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls varðandi þessa þáltill. Hún á væntanlega eftir að koma til heilbr.- og trn. þar sem ég á sæti. Þá mun að sjálfsögðu verða skoðað hvort rétt sé að bæta þarna við öryrkjum eins og tillaga hefur komið fram um í umræðunum. Það eru fleiri atriði en þau sem hefur mest um verið rætt sem falla að hagsmunagæslu aldraðra. Ég gat sérstaklega um það í upphafi máls míns að allstór hópur aldraðra býr á dvalarheimilum aldraðra og hjúkrunarheimilum. Þar eru ýmsir aðilar að selja þeim þjónustu fyrir ákveðið verð og sú þjónusta sem þeim er veitt er allmisjöfn og mjög misjöfn enda þótt kostnaður og greiðsla til þessara heimila sé nákvæmlega sú sama þannig að ég tel að það sé líka eitt af mörgum atriðum.

Ég gat þess áðan í framsöguræðu minni að því miður hefði borið á deilum á milli ættingja vegna fasteigna og peningalegra eigna og oft og tíðum eru sumir aldraðir þannig á sig komnir að það veldur starfsfólki bæði dvalarheimila og á hjúkrunarheimilum miklum vanda hvernig þeir eiga að snúa sér í þeim deilumálum sem koma upp og þau eru ekki ófá. Það er eitt af mörgu sem ég hef í huga þegar ég flyt þessa þáltill.

[18:15]

Ísland hefur um árabil verið land óstöðugleika, en það hefur gerst í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og þessarar að nokkurs stöðugleika hefur gætt. En vonandi má það vera svo eins og kemur fram í greinargerðinni að nú sé svo komið að máli linni og þeir sem síga hægt í þann aldur, þ.e. 67 ára, og þeir sem fara þá af vinnumarkaðinum geti nokkrum árum áður sest niður og íhugað hvernig efri árum verði best eytt í greiðslum frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði sínum og hvernig skattaleg meðferð þessara tekna verður. Það er ekki svo lítið atriði. Ég tel að það sé líka einn þáttur í þessum málum.

Auk þess er það líka alveg rétt sem hér hefur verið komið inn á og hafa þá allir flokkar í gegnum tíðina, sem skiptir ekki öllu máli hvað þessa þáltill. varðar, með einum eða öðrum hætti komið að í umbreytingum greiðslna frá Tryggingastofnun eða í umbreytingum sem hafa varðað skattalega meðferð þeirra tekna. Ég vona eins og ég sagði áðan að nú sé svo komið að máli linni og að þeir öldruðu, sem við berum mikla umhyggju fyrir og hafa í sveita síns andlits gert Ísland að gósenlandi, geti þá búið við áhyggjulaust ævikvöld vegna þess að þeir geti verið nokkuð vissir um það mörgum árum áður en þeir ljúka ævistarfi sínu að þeir geti átt góð ár í ellinni í vissu þess að ekki sé hróflað við þeim grundvelli sem lagður er til grunns þess sem gefur þeim tekjur og lífeyristekjurnar standist eins og þá er lagt upp með hvað áhrærir gildandi lög ellilífeyris og skatta.