Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 18:17:53 (5647)

1996-05-03 18:17:53# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[18:17]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við höfum búið við ákveðinn stöðugleika í efnahagslífinu á undanförnum árum, stöðugleika sem við skulum ekki gleyma að varð til vegna samstarfs launþegahreyfinganna í landinu, ríkisvaldsins og atvinnurekenda á sínum tíma, þar var grunnurinn lagður. Þeir sem lögðu mest af mörkum til þess að ná niður verðbólgu, til þess að okkur mætti auðnast að skapa þann stöðugleika sem við tölum svo gjarnan um í dag er m.a. sá hópur sem hér er til umræðu. Hins vegar hafa aldraðir og öryrkjar ekki fengið að njóta þess í neinu og við ættum að byrja á því að segja að stöðugleikinn skuli gilda út árið 1996 fyrir þennan hóp sem ekkert útlit er fyrir að muni gerast vegna þess að þær 250 millj. sem á að spara í greiðslu heimildabóta til þessa hóps --- það liggur ekki enn þá ljóst fyrir hvernig þeim sparnaði verður náð og því miður búa þeir enn þá við óöryggi, a.m.k. út þetta árið.