Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 18:19:13 (5648)

1996-05-03 18:19:13# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[18:19]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð enn einu sinni að minna á að fjölmörg dvalarheimili fyrir aldraða og hjúkrunarheimili hafa verið byggð og það liggur ljóst fyrir að þetta þjóðfélag hefur komið nokkuð til móts við aldraða sem hafa þurft á slíkri vistun að halda. Þegar erlendir aðilar koma hingað til lands og vilja fá að sjá hvernig við búum að þeim öldruðu hafa þeir talað um að Ísland sé meðal fremstu landa í flokki hvað það áhrærir þannig að að tala um að við höfum ekkert sinnt þeim öldruðu er of djúpt í árina tekið. Ég er stoltur af því hvað við höfum almennt gert fyrir aldraða þegar litið er til byggingar dvalar- og hjúkrunarheimila á sl. 20 árum. Ég ætla ekki að gera mikið úr því hver dvalarkostnaður er á þeim heimilum en það er því miður svo vegna lífeyrissjóðakefisins að fjölmargir aldraðir sem hefðu ekki efni á því að búa á þessum heimilum ef byggingakerfið okkar væri öðruvísi. Samfélagið borgar stórfé með þessum heimilum á hverju ári og ég tel mig ekki of góðan til þess að greiða skatta til þess að búa öldruðum áhyggulaust ævikvöld. Það finnst mér því að það hafa þeir öldruðu lagt í þjóðarbúið á árum áður þannig að vissulega hefur verið gert vel í þeim málum en það er aftur sú hlið sem mest hefur komið fram hjá hv. þm., bæði Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Það er alveg rétt sem fram hefur komið. Það er svo aftur hin peningalega hlið áður en þangað er komið. En ég veit það að ég á þarna tvo góða stuðningsmenn og ég veit að þeir eru fleiri sem munu leggja þessu máli lið.