Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 15:42:00 (5657)

1996-05-06 15:42:00# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[15:42]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. málshefjanda, er það rétt að umhvrn. hefur borist erindi frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur eða heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um það að fram fari umhverfismat vegna stækkunar á fiskmjölsverksmiðju í Örfirisey. Nú er það svo að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er ekki skylda að fram fari mat á umhverfisáhrifum þegar um er að ræða fiskmjölsverksmiðjur þannig að þetta þyrfti því að fella undir 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. þar sem segir að umhvrh. sé heimilt að fengnu áliti skipulagsstjóra að ákveða að tiltekin framkvæmd eða framkvæmdir fari í umhverfismat.

Nú varð það niðurstaða ráðuneytisins að á þessum atriðum sem hér er fjallað um og koma fram í greinargerð vegna ítarlegrar bókunar heilbrigðisnefndarinnar, eigi að taka samkvæmt mengunarvarnareglugerð fyrst og fremst en ekki að ástæða sé til þess að slík framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum. Ég vil minna á til samanburðar að á seinasta ári var reist ný fiskmjölsverksmiðja á Fáskrúðsfirði, ekki stækkun eða breyting á eldri verksmiðju heldur ný verksmiðja. Þar var ekki talin ástæða til þess að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. En auðvitað þurfti sú verksmiðja eins og þessi að sækja um starfsleyfi. Þess vegna var það alveg eindregin ákvörðun ráðherra samkvæmt ítarlegri umfjöllun í ráðuneytinu að það ætti fyrst og fremst að fjalla um starfsemina við útgáfu starfsleyfis. Og að auki segir svo í bréfi ráðuneytisins sem dagsett er 17. apríl og hv. málshefjandi vitnaði til, með leyfi forseta:

,,Það er skoðun ráðuneytisins að um þau atriði sem fram koma í áðurnefndri greinargerð eigi að fjalla í starfsleyfi fyrir verksmiðjuna sem gefið skal út samkvæmt mengunarvarnareglugerð þar sem settar eru fram kröfur um einstaka þætti auk þess sem Reykjavíkurborg gæti sett í samþykkt, sbr. 22. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit með síðari breytingum, strangari kröfur vilji sveitarfélagið ganga lengra en reglur mengunarvarnareglugerðar segja fyrir um. Þau atriði sem talin eru upp í áðurnefndri greinargerð varða eingöngu mengunarvarnabúnað til að fyrirbyggja lyktarmengun sem ótvírætt þarf að taka á í starfsleyfi.``

Í mengunarvarnareglugerðinni er hins vegar kveðið skýrt á um að fiskmjölsverksmiðjur þurfi að sækja um starfsleyfi og er öðruvísi tekið á því þar heldur en í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þar segir, með leyfi forseta, í 56. gr.:

,,Atvinnurekstur sem upp er talinn í viðaukum 7 og 8 með reglugerð þessari má ekki hefja fyrr en fengið er starfsleyfi samkvæmt ákvæðum þessa kafla.`` Og þar eru eins og ég segi fiskmjölsverksmiðjur taldar upp sem fyrsta starfsgreinin eða atvinnureksturinn sem þarf að sækja um starfsleyfi fyrir.

Í 61. gr. mengunarvarnareglugerðarinnar segir:

,,Hollustuvernd ríkisins skal við gerð starfsleyfistillagna ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og eftir því sem við á hverju sinni, Náttúruverndarráðs, Skipulags ríkisins, Vinnueftirlits ríkisins, Siglingamálastofnunar og annarra sérfróðra aðila. Áður en umsagnar heilbrigðisnefndar er leitað skal liggja fyrir mat Hollustuverndar ríkisins á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið. Telji Hollustuvernd ríkisins eða umsagnaraðilar að upplýsingar um mengun og áhrif hennar á umhverfið séu ekki fullnægjandi getur stofnunin krafist þess að fram fari athuganir, mælingar eða rannsóknir á kostnað umsækjanda.``

Þetta er samkvæmt 61. gr. mengunarvarnareglugerðarinnar og mér sýnist í þessu felist í raun öll þau ákvæði sem á þarf að halda varðandi þessa starfsemi, þar sem Hollustuvernd ríkisins getur krafist frekari mælinga og rannsókna til þess að fá fullnægjandi upplýsingar og niðurstöðu um það hvers þarf að krefjast til þess að geta gefið út starfsleyfið. Í 63. gr. reglugerðarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Starfsleyfistillögur skulu liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar til kynningar þeim aðilum sem rétt hafa til þess að gera athugasemdir, samanber 64. gr. Skal auglýsing birt í Lögbirtingablaði þar sem fram kemur frá hvaða degi starfsleyfistillögur liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar. Frestur til að gera athugasemdir er sex vikur frá því að starfsleyfistillögur eru lagðar fram. Heimilt er að lengja frestinn í allt að tólf vikur ef sérstakar ástæður mæla með því.``

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé líka eins og eðlilegt er opnaður farvegur fyrir þá aðila sem vilja gera athugasemdir við starfsleyfistillögurnar, enda sé það fyrst og fremst þar og á þeim vettvangi sem þarf að skoða þessa starfsemi þó það sé rétt sem hv. málshefjandi getur um, að þetta er umtalsverð stækkun á afkastagetu verksmiðjunnar. En það er ekki breyting á eðli starfseminnar.