Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 15:54:45 (5661)

1996-05-06 15:54:45# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[15:54]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég var formaður hafnarstjórnar Reykjavíkurhafnar þegar fyrst kom erindi frá þessu gagnmerka fyrirtæki, Faxamjöli hf., í ágúst 1991. Í svari hafnarstjórnar vegna óska þeirra þá um starfsleyfi segir svo, með leyfi forseta:

,,Í aðalskipulagi Reykjavíkur er miðað við að gamla höfnin sé fiskihöfn borgarinnar. Í deiluskipulagi vesturhafnarinnar er reiknað með fiskmjölsverksmiðju á lóð Faxamjöls hf. við Örfirisey. Fyrirtækið hefur lóðasamning frá 1964--2004 um rekstur slíkrar verksmiðju. Á lóðinni eru verksmiðjuhús, hráefnisþrær, tankar, lýsisgeymslur og mjölturnar fyrir afurðir. Blöndunarbúnaður og færibönd til lestunar á mjöli eru á síldarbryggju.`` Niðurstaða hafnarstjórnar er: ,,Hafnarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að fyrirtækið fái starfsleyfi á leigulóð þess í Örfirisey, enda uppfylli verksmiðjan ströngustu kröfur um varnir gegn mengun lofts og sjávar.``

Það var svo merkilegt að á meðan hafnarstjórn var að fjalla um þetta mál, gengu undirskriftalistar um vesturbæinn. Menn voru þar að safna undirskriftum til að mótmæla þessari verksmiðju vegna þess að það yrði svo vond lykt af henni. Undirskriftasöfnunin stóð líklega í um þrjár vikur á sama tíma og hin nýendurbyggða verksmiðja var í fullum gangi. Það var ekki meiri mengun af henni en svo að undirskriftarsöfnunaraðilar vissu ekki einu sinni af því að verksmiðjan væri komin í gang. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa.)

Það segir líka hér að sú verksmiðja eða viðbót sem þetta félag hyggst nú reisa er búin allra besta búnaði sem völ er á. Um er að ræða eina af þremur tegundum búnaðar sem getur framleitt hágæðamjöl. Eitt þeirra grundvallaratriða sem horft var til við val á búnaðinum voru mengunarvarnir þannig að hér hefur verið mjög kappsamlega og vel unnið og vel staðið að málum. Það var hins vegar athyglisvert að heyra hv. 12. þm. Reykn., Kristínu Halldórsdóttur, tala um það að fyrirtækið hefði staðið sig ágætlega og það væri ekki mikið um kvartanir. Ég hef ekki orðið var við það sem Reykvíkingur að það væri nein ólykt af þessari verksmiðju. Það er líka athyglisvert að heyra í þingmönnum tala hér, jafnvel 8. þm. Reykv., því þeir minnast ekki á þá miklu atvinnusköpun sem verður af þessari verksmiðju. Ég treysti því að stjórnendur verksmiðjunnar muni halda á málum eins og þeir hafa gert hingað til þannig að Reykvíkingar muni ekki verða fyrir neinum óþægindum af henni.