Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:01:35 (5664)

1996-05-06 16:01:35# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:01]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Nú er það svo að um málefni sem þessi er fjallað í mengunarvarnareglugerð og þar er kveðið á um það hvernig á að standa að þessu. Til þess að láta umhverfismatslögin ganga yfir þetta þarf hins vegar að vera um að ræða umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Það er því mat hæstv. umhvrh. hvort hér sé um að ræða umtalsverð áhrif.

Þegar hann metur þetta verður hann líka að hafa í huga jafnræðisregluna. Hefur þessu verið beitt þegar aðrar fiskmjölsverksmiðjur hafa fengið starfsleyfi? Hann getur ekki gengið á svig við jafnræðisregluna með því að leggja meiri kvaðir á þessa einu verksmiðju umfram þær aðrar verksmiðjur sem hafa fengið leyfi hér á landi.

Reykjavíkurborg getur hins vegar gengið lengra, hún hefur valdið til þess. En hvers vegna er hún að skjóta sér á bak við umhvrn. og hæstv. umhvrh.? Ég bara spyr. Þorir hún ekki að taka af skarið sjálf í þessu máli ef hún getur?

Það væri hins vegar gaman að það mundi gerast einhvern tíma, sem ég þó efast um, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir ýjaði að, að við þyrftum einhvern tíma að frysta loðnu í júlí á sama tíma og skemmtiferðaskipin eru í Reykjavíkurhöfn.