Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:05:33 (5666)

1996-05-06 16:05:33# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:05]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Satt að segja er svona umræða alltaf dálítið erfið vegna þess að þá koma hingað yfirleitt upp í ræðustól menn eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og segja: Þola menn ekki lyktina af því sem þeir lifa af og eru með sprettibrandara af þessu tagi sem koma málinu ekkert við. Svo eru menn með fullyrðingar eins og hv. þm. Árni Mathiesen um það að Reykjavíkurborg sé að bregða sér á bak við ráðherrana í þessu máli. Málið snýst ekkert um það.

Veruleikinn er sá að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, faglegir aðilar í Reykjavík byggja á umsögn Hollustuverndar ríkisins um að á þessu máli verði að taka. Það er hinn faglegi veruleiki málsins og þess vegna eiga menn að venja sig af því í umræðum að taka á þessu eins og um pólitískan skylmingarleik sé að ræða. Hér er veruleikinn þessi: Hollustuverndin segir: Það þarf meiri rannsóknir. Heilbrigðisnefndin biður um það og það er farið fram á umhverfismat við ráðuneytið og ráðuneytið neitar heilbrigðisyfirvöldum í Reykjavík. Ekki pólitískt kjörnum borgaryfirvöldum, heldur heilbrigðiseftirlitinu og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur um athugun á þessu máli. Ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti: Ef Reykjavík á að búa við meðferð mála af þessu tagi þá á Reykjavík ekkert umhverfisráðuneyti vegna þess að þá eru menn að fara öðruvísi með hlutina í Reykjavík en þeir mundu gera ef sveitarstjórnir eða bæjarstjórnir eða heilbrigðisnefndir annars staðar á landinu ættu í hlut. Spurningin fyrir Reykvíkinga er sú: Verða þeir að sætta sig við að vera meðhöndlaðir öðruvísi en aðrir aðilar á Íslandi þegar kemur að málum af þessu tagi? Það er stórkostlega alvarlegt umhugsunarefni, hæstv. forseti.