Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:07:21 (5667)

1996-05-06 16:07:21# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:07]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Út af lokaorðum hv. málshefjanda vil ég segja að það er þveröfugt. Það er verið að meðhöndla útgáfu starfsleyfis fyrir fiskmjölsverksmiðju í Örfirisey á nákvæmlega sama hátt og gert er annars staðar, ekki öðruvísi heldur á nákvæmlega sama hátt og gert var með nýja verksmiðju austur á Fáskrúðsfirði og þarf ekki að eyða fleiri orðum í það.

Auðvitað hefur Hollustuvernd ríkisins alla möguleika og henni ber reyndar að láta framkvæma þær rannsóknir sem hún telur að nauðsynlegt sé að gera til að ganga úr skugga um að umhverfisáhrifin séu ásættanleg eða ekki þess eðlis að það sé óásættanlegt fyrir nágranna verksmiðjurnar að búa við þessa starfsemi. Það hefur hún samkvæmt ákvæðum í mengunarvarnareglugerðinni, sem ég las upp áðan, og þarf reyndar ekki að árétta en það segir þó hér að telji Hollustuverndin að upplýsingar um mengun og áhrif hennar á umhverfið séu ekki fullnægjandi getur stofnunin krafist þess að fram fari athuganir, mælingar eða rannsóknir þannig að það er Hollustuverndarinnar að gera það. Af því að fleiri en einn hv. þm. spurði af hverju ráðherra hefði tekið þessa afstöðu og neitað því að láta málið fara í mat á umhverfisáhrifum þá er það vegna þess að ég tel að það sé ákvæði í mengunarvarnareglugerð sem þurfi að fjalla um í starfsleyfisútgáfunni. Það á allt að koma fram í starfsleyfinu sem hér er ágreiningur um að áliti ráðuneytisins og þess sem hér stendur. Það er þar og undir þeim ákvæðum að finna möguleikana til þess að fylgja eftir athugasemdum sem kunna að koma fram. Verksmiðjan er í skipulögðu hverfi fyrir atvinnurekstur þannig að þess vegna þarf ekki að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Þarna er hverfi sem á að vera fyrir starfsemi af þessu tagi. Ég tel að það sé líka snúið út úr bréfinu frá 17. apríl sl. þegar sagt er að það sé ekki rétt hjá ráðherra að starfsemin hafi ekki í sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag o.s.frv. Setningin er bara ekki lesin öll, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir. Það segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem ekki verði séð að breytingar eða aukningin hafi í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag verði tekið á málum í samræmi við mengunarvarnareglugerð og ákvæði um varnir gegn lyktarmengun sett í starfsleyfi fyrir verksmiðjuna eins og vera ber.``

Þetta las hv. þm. því miður ekki. Þetta er það sem þarf að gera, á að gera og væntanlega verður gert samkvæmt ákvæðum mengunarvarnareglugerðarinnar eins og Hollustuverndinni ber að gera.