Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:12:19 (5669)

1996-05-06 16:12:19# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:12]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á þskj. 901 flyt ég brtt. sem er á þessa leið eftir uppprentun, með leyfi forseta:

,,Dómsmálaráðherra skal, er lög þessi hafa tekið gildi, skipa þriggja manna nefnd er fylgist með framkvæmd laganna. Einn nefndarmaður skal skipaður eftir tilnefningu menntamálaráðuneytis. Nefndin skal skila greinargerð til ráðherra fyrir 15. september 1997 og tillögum um breytingar á lögunum eftir því sem nefndin telur nauðsynlegt, m.a. í ljósi þeirrar reynslu sem þá hefur fengist af lögunum. Nefndin skal leita álits Hagstofu Íslands.``

Hæstv. forseti. Þessi brtt. er m.a. flutt í framhaldi af nokkrum viðræðum sem hafa átt sér stað um þessi mál þar sem ég hef m.a., eins og ég mun rekja síðar, óskað eftir því að Hagstofa Íslands geri grein fyrir því hvernig hún telji að það verði að framkvæma þessi lög ef frv. verður samþykkt. Hagstofa Íslands hefur mjög miklar áhyggjur af því að ef þetta verður samþykkt nákvæmlega eins og það lítur út muni það verða illframkvæmanlegt eftir ákvæðum frv.

Í annan stað tel ég að við meðferð málsins hafi þess ekki verið gætt nægilega skýrt að kalla til Hagstofuna. Þess hafi ekki heldur verið gætt að kalla til menntamálayfirvöld. Ég tel að þetta sé menningarmál og það hefði átt að kalla til menntamálayfirvöld. Það hefði átt að kalla til menntmn. Alþingis til þess að fjalla líka um þetta mál og ef ég varðandi mín embættisverk sem ráðherra í þessum efnum vil nefna eitthvað sem ég tel að ég hafi ekki gert rétt að því er varðar mannanafnalögin þá sé ég eftir því að hafa flutt þau yfir til dómsmrn. vegna þess að það er greinilegt að þar er ekki gætt heildarsjónarmiða í þessu máli sem ég tel að eigi að gera.

Það er ljóst, hæstv. forseti, að verulegur meiri hluti Alþingis vill knýja þetta mál óbreytt í gegn og ég hef engan áhuga á því eða getu að tefja það á neinn hátt þótt ég teldi fulla þörf á því að skoða þessi mál miklu betur. Þess vegna hef ég ákveðið fyrir mitt leyti, ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, til samkomulags að draga til baka tillögu um að vísa málinu frá af því að við teljum það illa undirbúið. Við teljum full efnisleg rök fyrir þeirri tillögu en okkur sýnist að miðað við allar aðstæður verði hún einfaldlega felld og það sé þó betra en ekkert. Það er ekki rétt einu sinni að segja hálfur sigur. Það sé betra en ekkert að fá samþykkta þá tillögu sem ég mæli fyrir sem ég geri mér vonir um að við fáum samþykkta.

[16:15]

Varðandi málið að öðru leyti vísa ég til þeirra blaðaskrifa sem fram hafa farið um þessi mál núna frá því að málið var til 2. umr. Ég vísa til greinar Helga Hálfdanarsonar í Morgunblaðinu. Ég vísa til greinar Jónasar Kristjánssonar í Morgunblaðinu. Ég vísa til greinar Árna Björnssonar í Morgunblaðinu. Ég vísa til forustugreina í Morgunblaðinu og ég vísa til ummæla tveggja nefndarmanna í mannanafnanefnd þar sem þeir eru með greinar, tvær í sama blaði, Erlendur Jónsson og Páll Sigurðsson. Ég vísa sérstaklega til greinar þeirra félaga sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 4. maí 1996 þar sem lið fyrir lið eru tekin fyrir þau atriði sem þeir telja að felist í frv. eins og það liggur fyrir og séu meingölluð. Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast að Alþingi skuli vera þannig á sig komið að ekki skuli vera hægt að koma fyrir yfirveguðum og sanngjörnum athugasemdum af því tagi sem mér finnst þeir gera, en það er greinilega ekki hægt. Það er augljóst að það er yfirgnæfandi meiri hluti á þinginu fyrir því að afgreiða málið eins og það kemur fyrir núna jafngallað og það er.

21. mars sl. skrifaði ég Hagstofu Íslands bréf og ég óskaði eftir því að Hagstofan svaraði nokkrum spurningum:

1. Hvernig verður framkvæmd laganna ef frv. verður samþykkt að því er varðar ættarnöfn, millinöfn og kenningu til föður eða móður án dóttur- eða sonar-viðskeytisins?

2. Eru einhver sérstök vandkvæði á framkvæmd laga þessara ef frv. verður samþykkt eins og það er nú?

3. Hver er aðild Hagstofu Íslands að samningu frv. og meðferð þess fram að þessu?

Mér barst þriggja síðna svar frá Hagstofu Íslands sem væri full ástæða til að lesa yfir. Auk þess mjög ítarleg greinargerð upp á fimm síður þar sem tekin er fyrir svo að segja hver einasta grein í frv. Hagstofan telur að tæknilega sé mjög erfitt að framkvæma frv. Ég veit að meiri hluti allshn. eða formaður hennar hefur fengið þessa greinargerð til meðferðar. Ég tel að það hljóti að vera vegna þess að forsrh. og hagstofuráðherra hefur fengið þessa greinargerð í hendur. Samt sem áður vilja menn afgreiða málið svona. Ég segi það eins og er, hæstv. forseti, að ég harma þessa niðurstöðu. Og ég harma það að menn skuli ekki vilja setjast niður yfir málið og finna á því lausn. Ég mun koma greinargerð minni á framfæri við opinbera aðila. Ég hef hugsað mér að skrifa um þetta blaðagrein þar sem ég geri ítarlega grein fyrir sjónarmiðum mínum en ég tel það því miður ekki þjóna neinum tilgangi að bera þau á borð hér úr þessum virðulega ræðustóli vegna þess að menn hafa að mínu mati kosið að loka eyrunum fyrir rökum.

Af þeim ástæðum, hæstv. forseti, mun ég láta staðar numið í umræðunni. Ég mun ekki greiða frv. atkvæði eins og það lítur út og áskil mér rétt til að greiða atkvæði á móti einni og einni grein þegar þar að kemur en ég vænti þess að sú tillaga sem ég flyt verði talin bera vott um það að menn vilji ná samkomulagi og ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég á efni í allítarlega ræðu um þessi mál. Ég tel enga þýðingu að flytja hana eins og sakir standa og mun ekki gera það en læt máli mínu lokið. Ég harma þessa niðurstöðu en vona þó að þessi tillaga verði samþykkt sem er miðað við allar aðstæður betri en ekki neitt, er þó ekki hálfur sigur og ekki brot af sigri heldur svona aðeins í áttina.