Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:42:58 (5680)

1996-05-06 16:42:58# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:42]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að mótmæla því fyrir hönd allshn. að málið hafi ekki fengið þá umfjöllun sem því ber í nefndinni þar sem það var mjög vandað til allrar umfjöllunar um þetta mál, enda tók það langan tíma í meðferð og vinnslu. Þegar frumvörp um breytingu á mannanafnalögum hafa komið fram, þá er það oft að menn hafa mjög skiptar skoðanir á ákvæðum sem þar koma fram. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tók fram að hann teldi mörg varasöm ákvæði í þessu frv. Ég er ekki sammála honum, allshn. ekki heldur og það er náttúrlega fullljóst að almenningur í landinu hefur ekki sömu skoðun. Það sýnir sú gagnrýni sem hefur komið fram á núgildandi mannanafnalög, en hún var einmitt grundvöllur þess að nýtt frv. til mannanafnalaga var samið. Eins og ég sagði áðan koma hins vegar oft fram mismunandi skoðanir í þessu efni.

Það var einnig minnst á breytingartillögu sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur lagt fram og ég tel ástæðu til þess að skoða á jákvæðan hátt, um að ástæða sé til þess að skoða þetta mál. Ég ítreka að þetta er í raun og veru sú lausn sem allshn. hefur einmitt skoðað og hún fól dómsmrh. að fylgjast með þróun mála eftir að lögin öðluðust gildi og gefa Alþingi skýrslu eftir að reynsla er komin á framkvæmd þessara lagabreytinga og var þá miðað við eitt ár eftir gildistöku laganna. Þetta kemur skýrt fram í þingtíðindum hjá hæstv. dómsmrh. og, með leyfi virðulegs forseta, vil ég aðeins fá að lesa það upp:

(Forseti (ÓE): Tíminn er úti.)

,,Ég tek undir það sjónarmið að það sé mikilvægt að fylgjast með framkvæmd laganna og hef því ákveðið að fela mannanafnanefnd að gera skýrslu um framkvæmd laganna verði (Forseti hringir.) þetta frv. að lögum. Niðurstaða þeirrar skýrslu verði kynnt Alþingi að ári liðnu þannig að unnt verði að fylgjast glöggt með þróun mála og grípa til ráðstafana ef löggjafarsamkoman (Forseti hringir.) telur það nauðsynlegt í ljósi þeirrar þróunar sem verður.``

Að gefnu tilefni, virðulegi forseti, vildi ég fá að rifja þetta upp.