Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:49:03 (5683)

1996-05-06 16:49:03# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:49]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fer kannski að efast um að það hafi verið alveg rétt til getið hjá mér áður að það væri friður og ró í sál hv. formanns allshn. Mér heyrist satt að segja á þeim málflutningi sem hér kom fram að það sé einhver ólga þar á bak við og kannski eftirþanki. Ég ætla að vona það.

Mér finnst satt að segja að sá málflutningur sem hér var uppi hafður að vegna þess að lagaframkvæmd hafi ekki verið sem skyldi í öllum tilvikum og ég held að það liggi fyrir að það hefði mátt halda öðruvísi á framkvæmd gildandi laga um mannanöfn, þá skuli hlaupið upp til handa og fóta og breytt grundvallarreglum í þessu máli sem ljóslega leiðir til þess ef að líkum lætur að kippa fótunum undan þeirri hefð sem menn þó í orði játa að skipti miklu máli, þ.e. íslensku kenninafnahefðinni.