Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:57:45 (5685)

1996-05-06 16:57:45# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:57]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hér er verið að samþykkja lagafrv. sem getur haft mjög mikil áhrif á þróun íslensks máls og íslenskrar menningar. Þrátt fyrir það hefur málið ekki fengið þá meðferð sem það á skilið og þess vegna hefði ég kosið að því hefði verið frestað. Ég er þannig sammála sjónarmiðum sem fram hafa komið t.d. frá Íslenskri málnefnd sem hefur óskað eftir frestun þessa máls, sammála sjónarmiðum t.d. Jónasar Kristjánssonar og Helga Hálfdanarsonar og ég er sammála Hagstofu Íslands um að málið sé illa undirbúið. Ég er líka sammála Morgunblaðinu um að það hefði verið skynsamlegra að fresta þessu máli.

Því miður er það svo, hæstv. forseti, að meiri hluti Alþingis kýs að skella skollaeyrum við ábendingum og óskum þeirra sem hvað best þekkja til. Ég tel hins vegar mikilvægt að sú breytingartillaga sem ég flutti við frv. fái stuðning. Það er viðurkenning á því að það þarf að vinna í þessu máli áfram. Það er viðurkenning á því að þessu máli er ekki lokið. En um frv. í heild greiði ég ekki atkvæði.