1996-05-06 17:01:11# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[17:01]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir það að hér gefst tækifæri til þess að ræða þetta mikilvæga mál. En eins og þingmönnum er kunnugt, var í morgun undirritaður samningur um síldveiðar í Ósló milli Íslendinga, Rússa, Norðmanna og Færeyinga.

Aðdragandi þessa máls er alllangur. Fyrir um það bil einu ári síðan hófust samningaviðræður um þennan mikilvæga síldarstofn í Reykjavík. Því miður slitnaði upp úr þeim viðræðum og það var ákveðið að Íslendingar og Færeyingar tækju sér einhliða kvóta eins og hinar þjóðirnar höfðu gert, 250 þús. lestir og skiptu honum á milli sín þannig að í hlut Færeyinga komu 65 þúsund tonn og 185 þúsund tonn í hlut okkar Íslendinga. Það lá fyrir á því augnabliki að við vorum tilbúnir til þess að lækka hlut Íslendinga og Færeyinga ef samningar næðust. Því miður gerðist það ekki og þessar samningaviðræður hafa átt sér stað annað slagið nú í rúmt ár.

Að undanförnu hefur komið í ljós að möguleikar væru á samningum og þeir eru nú orðnir að veruleika. Ég vil í örstuttu máli fara yfir það hvað þessir samningar fela í sér. Þeir fela það í sér að þjóðirnar koma sér saman um að veiða úr stofni þessum í ár, þ.e. á árinu 1996, 1.107 þús. lestir. Í hlut Íslendinga koma 190 þús. lestir, í hlut Færeyinga 66 þús. lestir, í hlut Noregs 695 þús. lestir og í hlut Rússlands 156 þús. lestir. Í bókuninni stendur 166 þús. lestir en síðan eru dregnar frá 10 þús. lestir þannig að heildartalan verður 1.107 þús. lestir. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að böndum sé komið á þessar veiðar og að stjórnlausum veiðum sé afstýrt. Það er mikill misskilningur ef menn halda að þetta hefðu getað orðið endanlegar tölur þessara þjóða í ár því að það hefur komið fram af hálfu Norðmanna og Rússa að það væri alls ekki útilokað að þeir kynnu að hækka sínar veiðar ef samningar næðust ekki. Í þessum samningi eru mjög mikilvæg ákvæði um það hvernig skuli staðið að málum til framtíðar, en í 1. gr. 2. tölul. stendur, með leyfi forseta:

,,Aðilar skulu gera ráðstafanir til að tryggja að hrygningarstofninum sé haldið ofan við örugg líffræðileg mörk þar sem nýliðun er tryggð til að gera sjálfbæra nýtingu til langs tíma mögulega.``

Hér er um eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslendinga að ræða til lengri tíma og það var alls ekki einsýnt að þetta markmið gæti náðst fram. Það var mikil hætta á því að það gæti farið á annan veg því að hagsmunir okkar Íslendinga liggja í því að síldin gangi inn í okkar lögsögu og að síldin, sem nú er rétt utan við lögsöguna sem er fyrst og fremst fjögurra til fimm ára, fái að vaxa þannig að hún komi inn á Íslandsmið. Síldin sem gekk hér áður fyrr var fyrst og fremst síld sem var sjö til fjórtán ára gömul og var uppistaðan í veiðistofni okkar þannig að við höfum allt að vinna í þeim efnum til að þessi síld fái að vaxa og verði ekki ofnýtt til langrar framtíðar.

Það er jafnframt mikilvægt ákvæði í þessum samningi sem kemur fram í 6. gr. hans, en þar er tekið fram að það skuli settur á fót vinnuhópur vísindamanna til að fylgjast með og meta þróun þessa stofns þannig að það geti orðið grundvöllur samninga um lengri framtíð. Slíkur vinnuhópur er vissulega starfandi, en nú verður hann settur formlega á stofn. Í þessari grein kemur jafnframt fram, með leyfi forseta:

,,Aðilar skulu nota niðurstöður vinnuhópsins sem grundvöll samningaviðræðna í framtíðinni um verndun stofnsins, skynsamlega nýtingu hans og stjórnun veiða úr honum, m.a. vegna hugsanlegra breytinga á leyfilegum heildarafla og aflahlutdeild aðila að svo miklu leyti sem dreifing stofnsins réttlætir breytingar á gildandi fyrirkomulagi. Við sérhverja endurskoðun skal tekið tilhlýðilegt tillit til dreifingar allra hluta stofnsins.``

Hér er um mjög mikilvægt ákvæði að ræða sem verður grundvöllur samninga í framtíðinni. Þessu máli er að sjálfsögðu ekki lokið. Við höfum fengið í okkar hlut nú í ár um það bil 17,2% af heildarveiðinni sem skipt er og það er miklu minna en það sem við getum sætt okkur við til langrar framtíðar. En það er rétt að taka það fram að við fáum þessa hlutdeild áður en síldin hefur gengið að nokkru ráði inn í okkar lögsögu. Því hefur verið spáð síðustu daga að síldin væri um það bil að koma inn í okkar lögsögu. Því miður hefur það ekki gerst því að hún er enn þá á svipuðum slóðum um 15--20 mílur utan við lögsöguna og er nú á norðurleið. Vonandi kemur hún inn í íslensku lögsöguna, en það er engin trygging fyrir því. Miðað við þá stefnu sem hún er nú á þá stefnir hún á lögsögu Jan Mayen. En vonandi kemur hún hér inn og það er það sem þessi samningur á að sjálfsögðu að tryggja til lengri tíma litið.

Kostir þessa samnings eru margir. Þeir eru fyrst og fremst þeir að hér er komið á heildarstjórnun veiðanna. Kostirnir eru jafnframt þeir að þessar þjóðir sýna fram á það að þær geta komið sér saman um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Það hlýtur að auka virðingu þeirra á alþjóðlegum vettvangi og efla sjálfstraust þessara þjóða að þær geti staðið að skynsamlegu samstarfi og skynsamlegri nýtingu á Norður-Atlantshafi. Það er eitthvað sem ekki er afsakanlegt ef þessar fjórar þjóðir gætu ekki samið um þessi mál. Það er eitthvað sem er ekki afsakanlegt ef við ættum að horfa upp á stjórnlausar veiðar úr þessum stofni á næstu árum. Það má vel vera að einhverjir vilji taka þá áhættu en við sem að þessum samningum stöndum erum ekki tilbúnir að taka þá miklu áhættu.

Það er vissulega rétt að það sem í okkar hlut kemur hefði mátt vera meira í ár eða 190 þúsund tonn. En það er til þess að líta að með þessum samningi eru skapaðir möguleikar á að ná mun meiri verðmætum út úr síldinni en voru á síðasta ári. Við höfum verið að veiða um 120--130 þús. tonn á ári af svokallaðri Suðurlandssíld og það vita allir hve mikla atvinnu það hefur skapað í landinu og hve mikil verðmæti það hefur skapað, ekki aðeins til sjómanna heldur jafnframt til útvegsmanna. Á síðasta ári veiddum við 171 þús. tonn úr norsk-íslenska síldarstofninum. Sú síld fór nær eingöngu til bræðslu og það varð ekki nægilega mikið úr þeirri síld. Hún fór þar að auki til bræðslu að mestu leyti þegar hún var horuð. Það liggur fyrir að ef hægt er að nýta til manneldis milli 30--40 þúsund tonn af þessum heildarafla, þá er þegar vegið upp það verðmæti sem tapast vegna þess að við fáum minna magn í okkar hlut. Það er jafnframt ljóst að með þessum samningi er veiðin miklu öruggari. Ef svo fer að síldin fer inn í lögsögu Jan Mayen, þá hefur það verið tryggt með þessum samningi að við megum veiða þar ótakmarkað og þess vegna verður um miklu öruggari veiði að ræða en ella.

Það er líka ljóst að skynsamlegar veiðar eins og nú er hægt að skipuleggja, ef menn bera gæfu til að gera það, munu skapa mikla atvinnu í landinu og stuðla að velmegun margra fjölskyldna. Hér er ekki hægt að hafa eingöngu í huga hagsmuni útvegsmanna og sjómanna, heldur verður líka að hafa í huga hagsmuni landvinnslu og verkafólks sem hefur miklar tekjur af vinnslu sem þessari.

Varðandi aðra hluta samningsins þá hefur verið samið um að aðilar fái aðild eða aðgang að lögsögu hvers annars. Það er eðlilegt þegar um sameiginlegan stofn er að ræða að reyna að tryggja sem hagkvæmasta nýtingu hans. Það var gert í sambandi við loðnuna. Hér er t.d. fallist á að Rússar fái heimild til að veiða allt að 5 þús. tonn á takmörkuðu svæði innan íslensku lögsögunnar. Nú er ekki líklegt að á þetta reyni á þessu ári. En vegna þess að Rússar hafa verið nokkuð til umræðu í þessu sambandi þá er rétt að minna á að þeir stofnar sem nú eru að ganga á Íslandsmið koma úr Barentshafi og Rússar hafa friðað þessa smásíld árum saman og staðist þær freistingar að moka henni upp til mjölvinnslu og lýsisframleiðsu. Það er að sjálfsögðu hægt að veiða smásíldina og það var gert áður fyrr, sérstaklega af Norðmönnum. Og þessar þjóðir, Rússar og Norðmenn, stigu að sjálfsögðu mikilvægt skref þegar ákveðið var að friða þessa síld og stöðva allar veiðar í rússnesku lögsögunni. Það þarf að tryggja til langrar framtíðar að ekkert verði veitt í rússnesku lögsögunni. En það er ekki hægt að reikna með því að ein þjóð leggi endalaust á sig í þeim efnum ef hún hefur ekki skilning annarra sem eiga mikilla hagsmuna að gæta jafnframt. Þess vegna finnst mér eðlilegt að Rússar fái hér takmarkaðan aðgang.

Íslendingar fá ótakmarkaða aðild eða aðgang að Jan Mayen lögsögunni sem við höfum lagt höfuðáherslu á. Norðmenn fá síðan aðgang að okkar lögsögu sem nemur tveimur þriðju af því. En eins og ég sagði áður eru ekki neinar líkur til þess að á það reyni á þessu sumri.

En það sem er e.t.v. mikilvægast af öllu er að við höfum sýnt fram á með þessum samningi að við getum samið um þessi mál. Og við höfum sýnt umheiminum fram á það að við höfum framtíðarhagsmuni að leiðarljósi en ekki skammtímahagsmuni. Við stóðum frammi fyrir því eftir þær umræður sem hafa átt sér stað undanfarið hvort ætti að semja á þessum grundvelli eða ekki. Það var blákaldur veruleikinn.

Auðvitað geta menn velt því lengi fyrir sér hvort einhverjir aðrir samningar hefðu verið í boði. Menn geta sagt sem svo: Það hefði átt að semja ef við hefðum fengið 200 þúsund tonn í okkar hlut. Auðvitað hefðum við viljað að svo hefði getað orðið. Það er hins vegar okkar mat að framtíðarhagsmunirnir skipti svo miklu máli að það hefði verið óverjanlegt með öllu að hafna samningum á þessu stigi, sérstaklega með tilliti til þess að það eru ákvæði í þessum samningi sem tryggja verndun og uppbyggingu stofnsins til frambúðar. Það hefur verið okkar aðalsamningsmarkmið þegar það er jafnframt haft í huga að hagsmunir til skemmri tíma eru ekki meiri en svo að það er hægt að ná þeim upp með ábyrgari veiðum og betri nýtingu aflans. Það er að sjálfsögðu kominn tími til þess að hafin verði manneldisvinnsla úr þessari síld þannig að Íslendingar fari á nýjan leik að leita sér markaða til þess að selja þessa síld hvort sem hún er söltuð eða fryst. Ég ætla ekki að fullyrða um það hvað mönnum tekst að gera mikið úr því á næstunni, en vonandi bera menn gæfu til að skipuleggja það vel.

[17:15]

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess í upphafi að hafa mikið lengra mál um þennan samning. Ég vænti þess að hv. þingmenn hafi fengið hann í hendur og getað kynnt sér hann. Við höfum haft í þessu máli mikið samstarf og samflot með frændþjóð okkar, Færeyingum, og þessar þjóðir og þeir aðilar sem standa að samningnum af Færeyja hálfu og Íslands hálfu eru hvorir tveggja sammála um að þetta þjóni langtímahagsmunum landanna. Við höfum gætt þess í einu og öllu að vera þeim samskipa. Það gerðum við í fyrra og það gerðum við í ár og að sjálfsögðu ber okkur að taka tillit til þeirra framtíðarhagsmuna með sama hætti og þeir taka tillit til okkar. Það hefði þess vegna verið útilokað að þjóðirnar hefði skilið að í þessu máli, en sem betur fer hefur samstaðan haldist.

Ég tel að að undanförnu hafi tekist gott samstarf við Norðmenn og Rússa í þessu máli. Það verður að hafa það í huga að þetta mál var farið að skaða samvinnu landanna til lengri tíma og það er mikið mál fyrir Íslendinga að eiga vinsamleg samskipti við þessar þjóðir í Norður-Atlantshafi. Við höfum við þær margvísleg samskipti, viðskiptalegs eðlis, menningarlegs eðlis og stjórnmálalegs eðlis. Við eigum mikið samstarf t.d. við Rússa og höfum átt viðskipti við þá mjög lengi og ég vænti þess að þessi samningur geti greitt fyrir frekara samstarfi þjóðanna í framtíðinni á sjávarútvegssviðinu.

Herra forseti. Ég mæli eindregið með því að þessi samningur verði samþykktur af Alþingi því að það þarf að leggja málið hér fyrir. Ég vænti þess að eftir að farið hefur fram umræða um málið á Alþingi og innan lands, sjái menn hvað þetta mál skiptir miklu til frambúðar og láti langtímahagsmunina ráða en gleymi skammtímahagsmununum því að það er það sem skiptir öllu máli. Við erum búnir að bíða í 30 ár eftir að síldin gangi á nýjan leik á Íslandsmið. Er einhver tilbúinn að taka þá áhættu að það þurfi að bíða 30--40 ár til viðbótar? Hvers eiga framtíðarkynslóðir að gjalda í þeim efnum? Þessi samningur er framtíðarkynslóðum okkar í hag vegna þess að hér hafa langtímahagsmunir ráðið en ekki skammtímahagsmunir