1996-05-06 17:29:28# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[17:29]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka þeim hæstv. ráðherrum sem með þennan samning fara fyrir að bregðast svo skjótt við og færa þetta strax til umræðu inn í þingsal. Það ber vott um góð vinnubrögö. Þeir hafa báðir, hæstv. ráðherrar, talað mikið um nauðsyn þess að ná samningum við Norðmenn og frá því að þessi ríkisstjórn hóf störf sín hafa þessir ágætu herramenn talað um að það sé miklu auðveldara að ná samningum núna heldur en var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Auðvitað var þeim orðið ansi mál að ná samningum og það speglaðist best í ræðu hæstv. utanrrh. þegar hann sagði: ,,Við höfum sýnt fram á að Ísland getur samið.`` Hæstv. ráðherra er það nokkuð í mun að geta sýnt fram á að hann, hæstv. utanrrh., geti samið vegna þess að það hefur verið beðið eftir verkunum eftir öll þau orð sem látin voru falla í upphafi þessa kjörtímabils.

[17:30]

Herra forseti. Samningur liggur á borðinu og það þarf að vega hann og meta með tilliti til kosta og galla þessa samnings. Það er sitthvað jákvætt í þessum samningi, en því miður þegar á heildina er litið er hann ekki nógu góður. Það sem við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur er: Réttlætir þessi slaki árangur sem núna náðist það að við náum e.t.v. betri ávinningi í framtíðinni? Með öðrum orðum, er hann að bjarga framtíðarhagsmunum Íslendinga?

Við þurfum fyrst, herra forseti, að velta aðeins fyrir okkur forsögu þessa máls. Við skulum ekki gleyma því og við verðum að ítreka það að Norðmenn standa í siðferðilegri skuld við okkur. Það voru ekki við sem eyðilögðum stofninn heldur Norðmenn. Það voru þeir sem með gríðarlegri og gegndarlausri veiði, ofveiði og rányrkju á smásíld, drápu niður stofninn. Það er ekki umdeilt. Þó að hæstv. ráðherrar virðist ekki hafa vitað það fyrr en þeim var sagt það í þessum sölum, þá lá það eigi að síður fyrir frá því á árinu 1980 þegar norskir sérfræðingar bókstaflega lýstu því yfir í vísindagreinum að það hefði einungis verið nóg að stöðva rányrkju Norðmanna á smásíldinni. Og enn, herra forseti, örlar á þeim misskilningi að það eigi að verðlauna menn fyrir það að linna smásíldarveiðinni. Þegar hæstv. utanrrh. kemur og reynir að réttlæta þennan samning, m.a. þann hluta samningsins sem leiðir til þess að Rússar munu fara betur út úr honum en þeir voru áður staddir, þeir fá 5 þúsund tonn aukreitis, þá segir hæstv. utanrrh.: Það er svo mikið af smásíld sem gengur innan lögsögu Rússa. Þeir hefðu vel getað veitt hana. Um leið hefðu þeir brotið öll siðferðislögmál og meginreglur sem gilda um veiðar. Ég, herra forseti, fordæmi málflutning af þessu tagi.

Hvað er það sem hæstv. ráðherrar telja þessum samningi til tekna? Hæstv. utanrrh. bendir á að með þessum samningi sé um leið komin upp sú staða að Íslendingar geti veitt allan kvóta sinn á Jan Mayen svæðinu. En eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á er sá réttur nú þegar fyrir hendi þegar samningurinn er kominn, sjálfkrafa, samkvæmt þeim samningi sem gerður var árið 1980. Það er því ekki hægt að berja sér á brjóst yfir þessum ávinningi, herra forseti. En hitt er rétt hjá hæstv. utanrrh. að þetta gerir það sennilega að verkum að okkur tekst að ná meiru, e.t.v. talsvert meiru, út úr þeim afla sem við veiðum vegna þess að það er hægt að nýta meira af honum til manneldis en áður. Þetta vegur þungt á metunum og það ber að virða það að hér er um að ræða mikilsverðan áfanga.

En það sem ég hjó eftir að hæstv. ráðherra lagði þó enn meira upp úr var það að nú höfum við náð heildarstjórn á veiðunum. Herra forseti. Þetta er rangt hjá hæstv. utanrrh. Það er með engu móti hægt að halda því fram að við höfum núna náð stjórn á veiðunum. Það liggur fyrir að við erum að veiða 100 þúsund tonnum meira en talið er ráðlegt af sérfræðingum. Það liggur líka fyrir að Evrópusambandið hefur gert tilkall til kvóta upp á 150 þúsund tonn. Og hvernig í ósköpunum ætlum við, þó að þessi ríki standi saman, að koma í veg fyrir að þeir geri það? Með öðrum orðum, það liggur fyrir að það sé líklegt að veiðin verði ekki 1.100 heldur 1.200--1.300 þús. tonn. Til hvers var þá barist? Þá er það alveg ljóst að það hníga flest rök að því að veiðin verði talsvert umfram þessi 1.100 þús. tonn og þess vegna er það rangt sem hæstv. utanrrh. sagði áðan að við hefðum náð stjórn á heildarveiðinni. Það er einfaldlega ekki rétt.

Ég hjó eftir því að hæstv. sjútvrh. var með sama grunnstefið í öllum viðtölum sem fjölmiðlar tóku við hann í dag. Hann sagði: Þetta er góður samningur vegna þess að hann gefur okkur stökkbretti til að stökkva á inn í framtíðina og fá meiri kvóta vegna þess að í 6. gr. samningsins er talað um að vísindanefnd eigi að meta líffræðilega dreifingu stofnsins. Og ef hún breytist, þá gerir það að verkum að í krafti þess að síldin gangi e.t.v. í ríkari mæli inn fyrir lögsögu Íslendinga, þá eigum við að geta gert tilkall til frekari kvóta.

Herra forseti. Ég held því líka fram að þarna sé afskaplega bernsk óskhyggja á ferðinni hjá hæstv. ráðherra. Þegar ég les þessa grein, þá get ég ekki lesið þessar afdráttarlausu yfirlýsingar um möguleika Íslendinga til þessa í framtíðinni sem hæstv. ráðherra les úr. Ég ætla, herra forseti, með góðu leyfi forseta, að lesa hana í hrárri þýðingu minni:

,,Samningsaðilar skulu nota niðurstöður vísindahópsins sem grunn fyrir framtíðarsamninga um vernd, skynsamlega nýtingu og stjórn veiða úr stofninum, þar á meðal mögulega breytingu á heildarkvóta og úthlutun milli aðila að svo miklu leyti sem dreifing stofnsins réttlætir breytingar á núverandi fyrirkomulagi.`` Síðan segir: ,,Öll endurskoðun skal gerð með fullri hliðsjón af dreifingu allra þátta stofnsins.``

Herra forseti. Allt þetta er undirorpið pólitísku mati. Það er pólitískra samningsaðila að meta hinar vísindalegu niðurstöður. Það eru ekki vísindamennirnir sem útbýta þessu, heldur eru það pólitíkusarnir sem eiga að meta þetta. Ég veit hvað átt er við með dreifingu allra þátta stofnsins. Var það ekki einmitt partur af módeli sem var fleygt sem sýndi að Rússar ættu í krafti líffræðilegrar dreifingar að geta krafist á þriðja tugs prósenta af heildarkvótanum vegna þess að sum árin kemur svo mikið af ungviðinu inn fyrir þeirra lögsögu þó þar sé engin hrygning og enginn fullvaxta veiðistofn sé þar til staðar. Með öðrum orðum, ef sú gerbreyting yrði á göngu stofnsins að mikill hluti hans gengi inn fyrir lögsögu Íslendinga og við ætluðum í krafti þess að krefjast meiri kvóta, þá geta Rússar alltaf komið og bent á að það eigi samkvæmt því sem þessir herramenn skrifuðu undir að taka fulla hliðsjón af dreifingu allra þátta, þar á meðal dreifingar ungviðisins. Það er því fráleitt að halda því fram með jafnóyggjandi og afdráttarlausum hætti og hæstv. sjútvrh. gerir, að þetta geri það að verkum að við munum nánast sjálfkrafa, eins og ég les út úr orðum hans í dag, fá aukinn kvóta ef síldin gengur áfram inn fyrir lögsögu Íslendinga.

Herra forseti. Við hjuggum líka eftir því, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, að það var ekkert rætt á fundi utanrmn. um þá staðreynd sem blasir við á þeim pappírum sem við fáum í dag, staðreynd sem gerir það að verkum að Rússar mega koma inn fyrir efnahagslögsöguna og veiða fimm þúsund tonn og Norðmenn mega veiða 130 þús. tonn. Skyndilega velti ég því fyrir mér, hvernig stendur á því að Norðmönnum var svona áfram um að ná þessum samningi. Þessi hluti samningsins er dagsettur í dag eftir því sem ég skil af þessum pappírum sem fyrir okkur liggja.

Það er svo, herra forseti, að síldin sem er núna að veiðast er fjögurra til fimm ára gömul. Yfirleitt þegar hún gengur hingað inn fyrir lögsögu Íslendinga og á íslenskt hafsvæði, hefur hún verið sjö ára, þ.e. það eru tvö ár í það. Það er líklegt að þessir stóru árgangar sem í dag standa undir veiðinni gangi til Íslands. Auðvitað vita Norðmenn þetta og það er þess vegna sem þeir eru hérna að skapa fordæmi til framtíðarinnar. Það er vegna þess að þeir vita það, eða þeir telja það líklegt að síldin muni í vaxandi mæli ganga hingað inn fyrir, og líka vegna þess að íslenskir vísindamenn hafa á síðustu dögum verið að benda á þá staðreynd að kalda tungan milli Færeyja og Íslands er að hverfa og hún verður ekki fyrirstaðan fyrir göngunni yfir í íslenska hafsvæðið sem hún var í fyrra.

Herra forseti. Getur ekki verið að það sé þetta sem vakir fyrir þeim? Ég held, herra forseti, að þó að ýmislegt megi gott um þennan samning segja, þá er hann fráleitt nógu góður. Ég get ekki séð það að svona slakur samningur réttlæti framtíðarhagsmunina sem í þessu máli liggja fyrir Íslendinga.