1996-05-06 17:38:51# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[17:38]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur blasað við um nokkra hríð að það stefndi í mjög verulega veiði úr norsk-íslenska síldarstofninum, langt umfram það sem hagsmunum okkar yrði best borgið með. Það hefur líka blasað við að veruleg hætta væri á því, ef strandþjóðirnar næðu ekki saman, að kapphlaup þjóðanna um að auka kvóta sinn mundi valda enn meiri áhættu í þessu efni.

Eins og komið hefur fram eigum við Íslendingar mestra hagsmuna að gæta varðandi það að takmarka veiðar við þessar aðstæður úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ungir árgangar eru uppistaðan í stofninum í dag. Við þurfum að leyfa þeim að eldast til þess að verulegar líkur séu á því að síldin komi inn í okkar lögsögu og skapi grundvöll fyrir þeirri framtíðarkröfugerð sem við höfum haft uppi í þessu efni. Forsendan fyrir því að við náum þeim árangri er að síldin komi inn í íslenska lögsögu eins og að hefur verið stefnt.

Það eru þess vegna miklir hagsmunir í húfi þegar strandþjóðirnar ná samningi eins og þessum og hann markar vissulega þáttaskil varðandi stjórn stofnsins. En því fer auðvitað fjarri að málið sé að fullu unnið. En hér hefur verið stigið mikilvægt skref fram á við til hagsbóta og til þess að styrkja hagsmuni Íslendinga.

Sá samningur sem hér liggur fyrir er líka forsenda fyrir því að strandþjóðirnar geti tekist á við Evrópusambandið um að takmarka þann kvóta sem Evrópusambandið hefur einhliða sett. Menn segja alveg réttilega að þessi samningur leysi það mál ekki sjálfkrafa. Það á eftir að taka á því. En hitt má vera alveg ljóst að ef strandþjóðirnar hefðu ekki náð saman, þá hefði engin von verið til þess að unnt væri að setja bönd á Evrópusambandið og miklu frekar líkur á því að þjóðirnar hefðu farið í kapphlaup um að hækka kvótann á víxl sem leitt hefði til mests tjóns fyrir Íslendinga. Að þessu leyti er samningurinn mikilvægur varðandi þau viðfangsefni sem enn blasa við til þess að koma endanlegri stjórn á veiðar úr þessum stofni.

Við erum að treysta framtíðarhagsmuni okkar, ekki síst með því að samningsþjóðirnar, strandþjóðirnar hinar sem við erum að semja við, hafa viðurkennt að skipting stofnsins til framtíðar eigi að byggjast á dreifingu stofnins. Við höfum lagt á það höfuðáherslu í viðræðunum allt frá upphafi að dreifing stofnsins yrði að vera grundvöllur skiptingarinnar. Við höfum vísað til sögulegrar reynslu í þeim efnum og vísað til þess að flest bendir í þá átt, ef stjórn verður á veiðunum, að sú saga geti tendurtekið sig.

Við fáum það viðurkennt, komi síldin inn í íslenska lögsögu, að frekari samningar sem munu fara fram á næstu árum um breytingar á hlutdeild einstakra ríkja eiga að byggjast á þessum sjónarmiðum. Þegar hér er verið að gera það tortryggilegt að í samningnum er vísað til þess að sú breyting geti hugsanlega átt sér stað, þá liggur það auðvitað í augum uppi að þannig verður að orða þennan texta því að við höfum engar sannanir fyrir því að svo muni verða. Við væntum þess að síldin komi. Það er enn hugsanlegt að hún komi og það er verið að vísa til þeirrar óvissu en ekki annarra þátta í því ákvæði sem vitnað hefur verið til.

Því er haldið fram að við séum að gefa mikið eftir við þessar aðstæður. Vissulega er það svo að við erum að draga í land frá þeim kvóta sem við gáfum út sameiginlega með Færeyingum. En það lá hins vegar alltaf ljóst fyrir að við værum tilbúnir til þess í þeim tilgangi að tryggja framtíðarstöðu okkar. Ef við horfum svo á þetta í því ljósi að á tíu síðustu árum síldveiðanna þegar síldin var í sem ríkustum mæli innan okkar lögsögu og það sem við köllum hið klassíska síldveiðitímabil, þá vorum við að veiða 250 þúsund lestir að meðaltali á ári. Núna erum við að tryggja okkur 190 þúsund lestir áður en síldin kemur inn í íslenska lögsögu að nokkru marki. Í þessu ljósi er ekki hægt með neinum rökum að halda því fram að hér sé um lélega samningsniðurstöðu að ræða að því er þetta ár varðar. Og enn síður er hægt að halda því fram að hér sé um lélega samningsniðurstöðu að ræða þegar horft er til þeirrar viðspyrnu sem við fáum í þessum samningi vegna framtíðarákvarðana þegar síldin hefur komið í ríkara mæli inn í íslenska lögsögu á nýjan leik. Við komumst ekki hjá því að horfa á staðreyndirnar sem þannig blasa við.

Við höfum með þessum samningi tryggt veiðirétt í Jan Mayen lögsögunni. Því er hér haldið fram að við höfum á grundvelli Jan Mayen samkomulagsins átt sjálfkrafa rétt til þess að fá að veiða allan okkar hlut í Jan Mayen lögsögunni. Það er rangt. Við áttum og eigum samkvæmt þeim samningi rétt á því að veiða sanngjarnan hlut. En við erum hér að tryggja það að við getum veitt eins og við viljum innan Jan Mayen lögsögunnar. Á móti fá hins vegar Norðmenn rétt til veiða í íslenskri lögsögu, en hann er takmarkaður og það sýnir að hér er verið að framkvæma ákvæði sem eru í jafnvægi. Við erum með þessu að opna möguleika fyrir útgerðarmenn til þess að nýta síldina á hagkvæmari hátt en unnt væri að gera í ólympísku kapphlaupi þar sem öll veiðin færi til bræðslu. Og það hlýtur að vera markmið okkar að standa þannig að stjórnun á veiði úr þessum stofni í samvinnu við aðrar þjóðir að við eigum möguleika á því að fá sem allra mest verðmæti úr stofninum.

[17:45]

Það hefur verið unnið að þessu máli kappsamlega. Við höfum lengi haldið fundi sem ekki hafa skilað árangri en við höfum jafnan lýst því yfir að við værum reiðubúnir ef sanngjarn grundvöllur fyndist til þess að ljúka samningum. Það er ekki á málefnalegum rökum sem því er haldið fram að hér hafi átt sér stað óeðlileg vinnubrögð varðandi undirbúning samninga af þessu tagi.

Því er haldið fram að það megi ekki gera samning vegna þess hversu stutt er þangað til veiðarnar hefjast. Auðvitað er það rétt að það veldur ákveðnum vandkvæðum þegar svo skammt er til stefnu. En það hefði verið alveg fráleitt af okkur að ætla að hafna samningum sem tryggja viðunandi niðurstöðu í ár og treysta stöðu okkar til framtíðar vegna þess hversu fáir dagar eru þar til veiðarnar hefjast á nýjan leik. Það hefði verið óverjandi með öllu að láta slík sjónarmið koma í veg fyrir að við semdum og eru ekki á neinn hátt málefnaleg rök í þessu efni. Auðvitað leiðir þetta til þess að við þurfum að skipta veiðiheimildum niður á skipin. En er það ekki svo að við höfum verið, a.m.k. í mjög ríkum mæli, sammála um að það væri skynsamlegasti hátturinn sem unnt væri að hafa á til þess að veiðarnar yrðu sem hagkvæmastar. Ég sé ekki með hvaða rökum menn ætla að mæla á móti því að aflahlut Íslendinga sé skipt niður á einstök skip. Þeir sem stundað hafa veiðar, a.m.k. fram til þessa, hafa lagt á það höfuðáherslu að þannig yrði staðið að stjórnun veiða, að menn vissu hvað í þeirra hlut kæmi til þess að þeir gætu stýrt veiðunum á sem hagkvæmastan hátt.

Við höfum nú verið að bíða í nærri þrjá áratugi eftir því að þessi mikilvægi veiðistofn stækkaði svo að við gætum farið að nýta okkur hann á nýjan leik. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur Íslendinga. Ef veiðin hefði haldið áfram stjórnlaust á næstu árum, þjóðirnar hefðu aukið kvóta sinn hver í kapphlaupi við aðra undir því yfirskini að þær væru að treysta stöðu sína, þá hefði niðurstaða af slíku framferði fyrst og fremst bitnað á okkur því að hún hefði dregið úr líkum á því að síldin kæmi á ný inn í okkar lögsögu. Hún hefði veikt samningsstöðu okkar til frambúðar. Ef við hefðum ekki þorað að gera samninga nú hefðum við getað látið þriggja ára bráðlæti leiða til þess að við þyrftum að bíða í aðra þrjá áratugi eftir að fá tækifæri til þess að veiða úr þessum stofni og styrkja efnahag þjóðarinnar með því að geta nýtt okkur hann. Ég held þess vegna, herra forseti, að það hafi verið nauðsynlegt og mikilvægt að gera þann samning sem hér liggur fyrir. Við erum að treysta stöðu okkar til framtíðar. Við erum að taka framtíðarhagsmuni fram yfir allt annað í þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir. Það er mikilvægt og brýnt að Alþingi samþykki þá samninga sem í framhaldi af þessu verða lagðir hér fyrir.