1996-05-06 17:50:24# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[17:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Sá samningur sem undirritaður hefur verið í Ósló um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum er mjög vafasamur. Það hafa alls ekki komið fram fullnægjandi rök fyrir því að þessi samningur tryggi sem best hagsmuni íslensku þjóðarinnar, enda virðist ljóst að þessi samningur er gerður fyrst og fremst á kostnað Íslendinga. Það erum við fyrst og fremst ásamt Færeyingum sem borgum fyrir þennan samning. Maður spyr: Er það tilviljun að Norðmenn eru fyrst tilbúnir til að semja um síldarkvótann þegar þeir eru langt komnir sjálfir með að veiða það sem þeir í upphafi skömmtuðu sér? Mér finnst því að aðdragandinn beri mikið vott um óðagot og taugaveiklun. Það hefði átt að íhuga mun betur hvort rétt var að gera samning á þessum grundvelli þar sem svo lítið kemur í hlut Íslands miðað við þann sögulega rétt sem við höfum til að veiða úr síldarstofninum. Ég sé ekki að mikil áhætta hefði verin tekin þó beðið hefði verið t.d. fram á haust. Vissulega hefði þá verið um einhverja ofveiði að ræða miðað við hvað áætlað er að stofninn þoli. Við hefðum þá veitt 240 þús. tonn í stað 190 þús. tonna eins og samningurinn gerir ráð fyrir. En vel er líklegt og því er líka spáð að síldin muni í meira mæli ganga inn í íslenska lögsögu. Það hefði gert samningsstöðu okkar miklu betri. Miðað við hvað við fáum nú í okkar hlut með þessum samningi hefði það verið réttlætanlegt. Undir það ber vissulega að taka að langtímahagsmunir íslensku þjóðarinnar felast í því að ekki verði gengið of nærri stofninum og tryggja megi sem fyrst að stofninn nái sér í fyrri stærð. En þegar samningarnir eru jafnsnautlegir fyrir okkur og raun ber vitni, þá er það mikið vafamál að rétt hafi verið að semja upp á þessi býti. Það er sama hvort litið er á aukningu á veiðum þjóðanna frá því sem var í fyrra eða út frá því hvað gefið var eftir af því sem þjóðirnar ætluðu sér að veiða án samninga. Í báðum dæmum er útkoman verst fyrir okkur Íslendinga. Ef litið er á aukningu úr síldveiðistofninum frá veiðunum í fyrra, er aukningin hjá okkur langminnst. Þannig aukast veiðar Norðmanna um 26% frá því í fyrra, Rússa um 56%, Færeyinga um 15% en Íslands aðeins um 10%. Það eru því fyrst og fremst Íslendingar og Færeyingar sem gefa eftir meðan Norðmenn gefa sáralítið eftir og Rússar fá aukningu.

Sama gildir ef litið er á það magn sem þjóðirnar ætluðu að taka sér næðust ekki samningar. Þannig hefur Ísland gefið langmest eftir miðað við það magn sem við töldum að við ættum rétt á miðað við sögulegan rétt okkar og það sem áætlað var að stofninn þyldi. Ísland hefur þannig gefið eftir 54 þús. tonn eða 22--23% frá því sem við ætluðum að veiða, Norðmenn aðeins 30 þúsund af þeim 725 þúsund tonnum sem þeir ætluðu að veiða, eða um 4%. Rússar fá heldur meira en þeir ætluðu að taka og Færeyingar gefa eftir svipað og við eða um 23%. Það þarf auðvitað engan að undra að sjávarútvegsráðherra Noregs er afar ánægður með samninginn eins og fram kom í fjölmiðlum í gær.

Varðandi þann þáttinn sem snýr að Evrópusambandsríkjunum og betri samningsstöðu gagnvart þeim eftir þessa samninga, þá er ekki sjálfgefið í því efni að þeir stundi ekki óheftar veiðar úr síldarstofninum og taki þau 150 þúsund tonn sem þeir boðuðu. Það vekur líka upp þá spurningu hvort þessi fjögur ríki hafi rætt um hvort og þá hvernig þau ætla að koma í veg fyrir að aðrar þjóðir stundi óheftar veiðar úr síldarstofninum, t.d. Evrópusambandsríkin, ef ekki nást við þær samningar. Um það spyr ég og hvort eitthvað hafi verið um það rætt hvort og þá hvernig þessi fjögur ríki ætla að koma í veg fyrir að aðrar þjóðir sæki á þessi mið þannig að farið verði langt fram úr því sem fiskifræðingar telja ráðlegt. Einnig væri fróðlegt að fá fram hvað þessar þjóðir telja að hægt sé að semja við EB um mikla veiði. Hæstv. utanrrh. hefur gefið í skyn að um mjög lítið magn væri að ræða, nánast gefið í skyn að það væri hverfandi. Það væri æskilegt að fá eitthvað nánar um það í þessari umræðu. Ég vil vitna til þess sem fram kom í fjölmiðlum í gær og var haft eftir Kristjáni Ragnarssyni, formanni LÍÚ. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það hefur verið villt um fyrir mönnum miðað við þessa niðurstöðu og svo er líka látið að því liggja að með þessu náist stjórn á sókn Evrópubandalagsins. Það er rangt. Evrópusambandið ætlar ekkert að taka tillit til þessara samninga miðað við það sem þeir hafa sagt okkur. Þeir ætla að láta á það reyna hvað þeirra floti getur veitt í sumar.``

Þetta er álit formanns LÍÚ.

Vissulega má segja að ekki sé allt alvont við þessa samninga, t.d. það að löndin hafa komið sér saman um í hvaða mæli þau veita hvort öðru aðgang í lögsögu sinni til síldveiða, en með samningnum fáum við nú ótakmarkaðan aðgang að Jan Mayen lögsögunni. Auk þess er það nokkurs virði að ná lausn í einu af þeim ágreiningsmálum sem uppi hafa verið milli Norðmanna og Íslendinga. Einnig er það jákvætt að með samningnum lengist veiðitíminn og líklegra að síldin nái því fituinnihaldi að við getum nýtt hana meira til manneldisvinnslu og að hún verði verðmeiri til lýsisvinnslu.

Mig langar í þessu sambandi að spyrja um á hverju það byggist sem fram kemur í fréttatilkynningu sem við höfum fengið. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Norðmenn fá heimild til að veiða í íslenskri lögsögu sem svarar tveim þriðju hlutum hlutdeildar Íslendinga. Rússar munu fá heimild til að veiða allt að 5.000 lestir á takmörkuðu svæði innan íslensku lögsögunnar.``

Ég hefði gjarnan viljað fá upplýst á hvaða forsendu þetta byggir, þ.e. þessir tveir þriðju hlutar sem Norðmenn fá heimild til að veiða í íslenskri lögsögu.

Það liggur fyrir að meira en 80 skip hafa sótt um að veiða úr síldarstofninum, þar af 27 frysti- og ísfisktogarar. Þá vaknar auðvitað spurning hvernig með eigi að fara, hvernig skiptingin á þessum 195 þúsund tonnum verður og út frá hvaða forsendum verður gengið. Ráðherrarnir hljóta að hafa rætt það mál og hafa einhverjar hugmyndir um hvernig skipta eigi þessu magni og það er nauðsynlegt að fá einhverjar upplýsingar um það í þessari umræðu. Svo að ég vitni aftur í formann LÍÚ, þá sagði hann í gær að hann telji að þessi samningur sé allur á kostnað Íslendinga og ekki náist samt stjórn á veiðum úr stofninum. Hann gagnrýnir að það sé búið að gefa út reglugerð þannig að þetta komi mjög óvænt og orðrétt segir hann, með leyfi forseta: ,,... má segja aftan að mönnum sem hafa í góðri trú verið að sækja um veiðirétt úr þessum stofni.`` Það hlýtur því að vera fylgst grannt með því hvernig skiptingunni verður háttað og spyr ég um það efni.

Ég vil líka segja að það hlýtur að valda okkur nokkrum vonbrigðum að héðan í frá á kvótaskipting að byggja á dreifingu stofnsins og er það viðurkennt með þessum samningum. Þannig er raunverulega okkar sögulegi réttur miðaður við þessi 190 þúsund tonn. Ég hélt því fram þegar við ræddum þessi mál, að mig minnir í fyrra, að sögulegur réttur okkar væri a.m.k. 450--480 þús. tonn. Sumir héldu því fram að hann væri jafnvel meiri. En hér er það raunverulega fest í sessi að sögulegur réttur okkar sé ekki nema rúmlega 190 þús. tonn. Héðan í frá á kvótaskiptingin að byggja á dreifingu stofnsins og það er viðurkennt með þessum samningum. Ég tel það mjög hæpið að halda þannig á málum og mér liggur við að segja að ráðherrarnir hafi í Ósló verið að semja mjög alvarlega af sér miðað við hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Ég ætla að láta þetta nægja í bili. En ég tel að það sé alveg ljóst, virðulegi forseti, að það hefur of mikið verið gefið eftir í þessum samningum og það er langt í frá augljóst að hagsmunir íslensku þjóðarinnar séu tryggðir með þessum samningum.