1996-05-06 18:00:03# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[18:00]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Þau tíðindi hafa gerst að búið er að semja við Norðmenn, Dani og Rússa um síldveiðar á komandi vertíð. Strandríkin svokölluðu hafa náð saman en fyrir utan stendur Efnahagsbandalagið sem gerir sívaxandi kröfur til þátttöku í síldveiðum. Ég vil taka undir orð sem hafa fallið í þá veru að það hafi verið góð vinnubrögð að kynna þetta mál bæði í utanrmn. sl. laugardag og einnig að koma með málið strax inn í þingið.

Þó að þetta mál sé e.t.v. ekki það kvennapólitískasta sem við tökumst á um í þinginu þá ítreka ég þá stefnu Kvennalistans að við leggjum áherslu á það að síldveiðar eigi sér stað með sjálfbæra þróun í huga eða fiskveiðar yfirleitt og að veiðar séu stundaðar til manneldis og reynt að nýta hráefnið eins vel og kostur er. Ég tel mjög mikilvægt að ná samningum sem auka líkurnar á því að síldveiðar verði fyrst og fremst nýttar til manneldis, þ.e. að síldin fari í söltun og frystingu.

Við kvennalistakonur teljum að þó að vissulega sé súrt í broti að þurfa að lækka hlutdeild okkar miðað við einhliða yfirlýsingu okkar mun meira en Norðmenn þá séu það mikilvæg rök að þetta samkomulag komi líklega til með að minnka síldveiðarnar í heild og þetta auki líkurnar á því að stofninn verði veiddur skynsamlega með sjálfbæra þróun í huga. Þá er einnig súrt í broti að þurfa að opna lögsögu okkar fyrir Rússum og Norðmönnum en á móti má benda á að lögsaga Jan Mayen opnast sjómönnum okkar til síldveiða á móti.

Þrátt fyrir það að ég sjái vissa kosti við samninginn vil ég einnig láta í ljós ákveðnar efasemdir. Ég er t.d. alls ekki sannfærð um að sú kenning sé rétt að ef síldin nær því að verða nógu gömul komi hún aftur til Íslands. Ég er alls ekki sannfærð um að það sé pólitískt rétt að gefa eftir meira en Norðmenn núna þegar þeir viðhafa þann málatilbúnað eins og aðrir hafa bent á að obbinn af veiðireynslu okkar sé of gömul til að skipta meginmáli. Við höfum reynt að andmæla þessu sjónarmiði og mér sýnist að samningurinn komi til með að veikja okkar fyrri rök.

Þá er einnig ljóst að samningurinn hefur fyrst og fremst átt sér stað á kostnað Íslendinga og Færeyinga enda eru hagsmunir okkar kannski stærstir. Þrátt fyrir þessar efasemdir tel ég að kostirnir séu meiri og að þetta sé mikilvægur áfangi þó að enn eigi eftir að koma í ljós hvað ESB eða Efnahagsbandalagið gerir og hvort samningsstaða okkar batnar eitthvað ef síldin kemur til landsins. Mér er ekki alveg ljóst hvernig enda virðist vera mjög óljóst ákvæðið í samningnum um það að hvaða leyti samningsstaða okkar styrkist ef síldin kemur hingað. En veiðitími síldarinnar lengist með samningnum og síldin verður því aðgengileg fyrir íslenska flotann þegar fituinnihaldið hentar til manneldis. Við náðum greinilega ekki öllum kröfum okkar en ég tel eins og ég sagði áðan að þetta sé í rétta átt þó það orki vissulega tvímælis.

Að lokum spyr ég hæstv. utanrrh. hvort honum sé ljóst hvað ESB gerir í þessari stöðu, hvers má vænta af þeim. Þá vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvernig hann hyggst framkvæma samninginn eins og hér var líka spurt áðan af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Á að hverfa frá því að hafa síldveiðar frjálsar fyrir þau skip sem hafa nú sótt um leyfi eða á að skipta þessum kvóta á skipin með ákveðnum hætti og ef svo er hvernig stendur til að skipta þessu á skipin? Á að styðjast við þær hugmyndir sem hafa verið ræddar í úthafsveiðinefnd eða á að styðjast alfarið við lögin um stjórn fiskveiða? Það er ljóst að síldarævintýri er fram undan en það er alls ekki ljóst hverjir fá að taka þátt í því og sagan ein getur leitt í ljós hvort samningurinn er til góðs fyrir langtímahagsmuni okkar.