1996-05-06 18:06:20# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[18:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sú ræða sem nú var flutt var að mínu mati mjög málefnaleg og það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. 19. þm. Reykv., Guðnýju Guðbjörnsdóttur, að allt orkar tvímælis þá gert er. Auðvitað er það með þennan samning eins og alla aðra samninga við erlenda aðila og samskipti okkar við aðrar þjóðir að hann hefur bæði kosti og galla og það er ekkert nema framtíðin sem getur dæmt það endanlega hvort hér var um jákvætt skref að ræða eða ekki. En hann er að mínu mati góður og hefur marga kosti en auðvitað hefur hann líka galla eins og allir samningar sem við gerum. Það þýðir náttúrlega ekki að tala eingöngu um hagsmuni okkar í málinu eins og mér fannst hv. þm. Össur Skarphéðinsson gera og gera lítið úr hagsmunum Rússa og segja að það skipti engu máli með þeirra smásíld, það sé siðferðilega rangt að drepa hana sem ég er út af fyrir sig sammála en það eru auðvitað hagsmunir í því að hafa fiskstofninn í lögsögu sinni og ég er sem ég sjái okkur Íslendinga fallast á það ef þetta væri öfugt og smásíldin væri hér að við ættum engan rétt. Við verðum að vera tilbúnir til að setja okkur í spor annarra í þessum málum og reyna að meta hlutina út frá því. Auðvitað má halda því fram að Norðmenn skuldi okkur siðferðilega út af því að þeir drápu smásíldina. En það er hins vegar staðreynd að þeir hafa hætt því og þeir hafa ekki gert það á undanförnum árum í neinum mæli og það er stefna þeirra að gera það ekki framar. Það þjónar hagsmunum okkar og við hljótum að reyna að leggja á það áherslu.

Því er haldið fram í umræðunni að menn hafi átt að bíða og semja síðar vegna þess að síldin væri að koma inn í lögsögu okkar. Því var líka haldið fram í fyrra að síldin væri að koma inn í lögsögu okkar þegar við sömdum við Færeyinga. Þá voru ekki allir sem mæltu með því án þess að ég sé að gera mikið úr þeirri andstöðu en það reyndist vel og þessi kalda tunga sem er austan við land er ekki að hverfa. Þetta er Austur-Íslandsstraumurinn. Hann var mjög kaldur 1995. Hann er að vísu ekki eins kaldur núna 1996 en hann er samt mun kaldari en hann var á síldarárunum fyrir hrunið. Það er því miður ekki orðin staðreynd jafnvel þó að síldin hafi stefnt mjög hratt í vestur fyrir nokkrum dögum þá kom hún ekki inn í lögsögu okkar og nú stefnir hún í norður á Jan Mayen lögsöguna. Það skyldi nú ekki vera að veiðarnar yrðu fyrst og fremst innan hennar í sumar? Það gæti farið svo. Við skulum ekkert fullyrða um það vegna þess að við vitum það ekki. Þetta er mjög mikil óvissa. Að halda því þá fram núna að það hefði átt að bíða með að semja vegna þess að það hefði styrkt samningsstöðu okkar tel ég að sé rangt og menn skulu hafa það í huga að það er ekki langt þangað til við þurfum að fara að semja um veiðar næsta árs. Þær viðræður þurfa að hefjast í september og það er ekki langt í það.

Því er haldið fram að við séum ekki búin að ná stjórn á Evrópusambandinu. Það er alveg rétt. En hér hefur komið fram að þessi samningur er forsenda þess að það geti gerst. Samvinna strandríkjanna er alger forsenda þess að koma á skipulegum veiðum. Samningurinn er líka forsenda þess að veiðarnar verði ákveðnar innan skynsamlegra marka á árinu 1997. Þetta verða menn að horfa á og meta málið í þessu ljósi.

Því er haldið fram að fundirnir í Ósló hafi verið sýndarmennska, leiksýning. Það er alveg rétt að það hefur átt sér stað verulegur undirbúningur, því hvernig er hægt að halda slíkan fund án þess að undirbúningur hafi átt sér stað? Gera menn ráð fyrir því að menn hafi svo gaman af slíkum leikaraskap að menn hafi vakað meira og minna alla sl. nótt til þess? (SJS: Hver var uppskeran af þeirri vöku?) Hver var uppskeran af þeirri vöku? Uppskeran af þeirri vöku var sú að menn náðu saman og gerðu samning. Það var alls ekki ljóst á tímabili að það gæti gerst. Nú getur hv. þm. haldið því fram að það hafi komið fram í einhverri sérstakri eftirgjöf Íslendinga. Auðvitað er það svo í öllum málum ef menn ætla að ná saman að einhverju þarf að hnika til og hlutum var hnikað til í nótt og í morgun. En það voru ekki þeir hlutir sem skiptu sköpum í þessu sambandi og þar var ekki vikið frá hagsmunum Íslands þannig að það er út í hött þegar því er haldið fram að menn hafi verið með einhvern leikaraskap.

Samráð hefur átt sér stað við hagsmunaaðila allan tímann og þetta mál hefur mjög oft verið rætt í sjútvn. og farið yfir það. Það er hins vegar rétt að utanrmn. var boðuð til samráðs á laugardaginn og það hefði verið eðlilegt að kalla jafnframt sjútvn. saman. Það finnst mér rétt að viðurkenna að hafi verið ákveðin mistök en þó verða menn að hafa í huga að staða utanrmn. í þessu samandi er önnur en sjútvn. samkvæmt þingsköpum og hefðum í því sambandi. Það ber að hafa samráð við utanrmn. og henni ber að halda trúnað án þess að ég sé á nokkurn hátt að vantreysta sjútvn. í þessu sambandi. En allt slíkt samráð er til bóta og þess vegna ber að reyna að halda þeirri nefnd upplýstri í þessu máli.

Það er gert mikið úr því að með þessu náum við ekki heildarstjórn á veiðunum og við höfum ekki náð utan um veiðar Evrópusambandsins. Það er rétt og það er ekkert tryggt í þeim efnum. En eins og ég sagði er samningurinn forsenda þess að sú vinna geti hafist og það hefur þegar verið lagður grunnur að því. Þetta var mikið rætt milli samningsaðila og full samstaða um það að vinna á þeim grundvelli. Fulltrúum Evrópusambandsins verður nú þegar gerð grein fyrir málinu og við munum fara að vinna að því sameiginlega að koma á heildarstjórnun í stofninum. Auðvitað er það allt önnur staða en vera í sitt hvoru horninu í þessu máli þannig að það geta ekki verið rök í málinu. Það hefði aldrei verið hægt að ná utan um málefni Evrópusambandsins með þessum samningi. Það held ég að öllum sé ljóst. Hefði verið rétt að draga Evrópusambandið að þessu borði með hinum þjóðunum? Ég segi nei. Það hefur alltaf komið fram að það ætti að gera síðar.

Það er líka gert mikið úr því að tímasetningin sé röng og vegna þess að vertíðin sé að byrja hafi ekki átt að semja. Ég skil ekki slíkan málflutning. Undirbúningur skipanna væri ekkert með öðrum hætti þó að lengri tími væri til stefnu. Þau skip sem geta veitt síldina hafa verið að undirbúa sig að undanförnu og flest verið að búa sig í mikið kapphlaup í veiðinni. Er það mjög slæmt ef einhverjir fara að hugsa sem svo: Það er best að draga úr fyrirhuguðu kapphlaupi og reyna að gera meiri verðmæti úr þessu? Ég hefði haldið að það væri gott mál vegna þess að skipin þurfa að undirbúa sig hvort eð er. Það eru engin rök í þessu sambandi, en því er jafnframt haldið fram, að við höfum átt einhvern sjálfkrafa rétt í sambandi við Jan Mayen. Því miður er það ekki. Það þurfti að semja um það. Hins vegar styrkti það ákvæði okkur mjög í þessum samningum enda fáum við ótakmarkaðan aðgang að Jan Mayen lögsögunni, allt það sem við hyggjumst veiða. Ekki fá Norðmenn þann aðgang að íslensku lögsögunni að það sé viðurkennt að þeir geti veitt allt sem þeir ætla að veiða í íslensku lögsögunni. Sú röksemd er því viðurkennd af Norðmönnum að við eigum þar rétt á sanngjörnum hlut í samræmi við Jan Mayen samkomulagið.

[18:15]

Að því er varðar það sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði um framkvæmd samningsins, þá hefur hæstv. sjútvrh. þegar svarað því og sagt að það væri verið að vinna að því að skipta aflanum milli skipanna.

Ég tel mig jafnframt hafa svarað fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En ég vildi taka það fram um það sem hún sagði, að með þessu sé hinn sögulegi réttur Íslendinga metinn 190 þús. tonn, að svo er náttúrlega alls ekki. Hér er um samningsniðurstöðu að ræða. Í samningum þarf að taka tillit til margra atriða. Það þarf að taka tillit til sögulegs réttar og því höfum við haldið mjög á lofti. En dreifing stofnsins og önnur atriði koma þar líka til álita. Og að halda því fram að eingöngu geti verið um sögulegan rétt að ræða og það ráði fyrst og fremst og eingöngu úrslitum, er náttúrlega óraunhæft með öllu, þ.e. að reikna með að slík niðurstaða geti náðst.

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða sé mjög gagnleg og skýri málið, en ég hvet hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarandstöðunnar sem hafa mælt mjög gegn þessum samningi, að kynna sér hann mun betur. Hann verður síðan ræddur betur í þeim nefndum sem fá hann til umfjöllunar á Alþingi og að sjálfsögðu þarf að fara yfir hann bæði í utanrmn. og sjútvn.