1996-05-06 18:59:47# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[18:59]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Þó vil ég ítreka eftirtalin atriði sem að mínu mati eru hættumerki við þennan samning:

Í fyrsta lagi er heildarmagnið sem um var samið enn þá 100 þús. lestum umfram það sem fiskifræðingar hafa mælt með.

Í öðru lagi er lögsaga okkar opnuð Norðmönnum og Rússum og ég vil ítreka fyrirspurn hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um það hvers vegna þetta ákveðna atriði var ekki rætt í hv. utanrmn. laugardaginn var. Lágu þær hugmyndir ekki fyrir á þeirri stundu?

Í þriðja lagi slökum við meira á í okkar málflutningi en Norðmenn og veikjum því að mínu mati stöðu okkar til framtíðarsamninga meira en þeir.

Í fjórða lagi er allt í óvissu um veiðar ESB og því er ekki hægt að vita hve mikið verður endanlega veitt úr stofninum. Þetta eru allt saman hættumerki.

Auk þess vil ég nefna þann ókost að við höfum lækkað heildarkvóta okkar mjög mikið eða allt niður í 190 þús. tonn. Hvaða áhrif það hefur á þann rétt okkar í framtíðinni að ákveða einhliða okkar kvóta er mjög óljóst að mínu mati. Eða er ekki svo? Þetta hljómar því kannski veikt, það skal viðurkennt en meðrökin eru helst þau að væntanlega verður minna veitt úr stofninum en ella og því eru vaxandi líkur á sjálfbærri nýtingu á síldarstofninum. Svo má benda á þá skoðun Hafrannsóknastofnunar að ef síldin nær að eldast þá aukist líkurnar á því að hún gangi til Íslands. En nú má spyrja: Hefði ekki verið alveg eins gott í raun að gera svona samkomulag einhliða, þ.e. að lækka okkar kvóta bara niður í 190 þús. tonn ef það er fyrst og fremst það að minnka veiðarnar sem vakir fyrir okkur? Það munar svo sem ekki það mikið um það sem hinir hafa lækkað sig. Þá þyrftum við ekki að opna lögsögu okkar fyrir Norðmönnum og Rússum og þá hefðum við að mínu mati meira frelsi til þess að ákveða næsta ár okkar kvóta einhliða. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað það er við þennan samning umfram það sem við hefðum náð með því að lækka okkar hlutdeild niður í 190 þús. tonn. Eða var það fyrst og fremst sá pólitíski ávinningur sem næst við það að semja við önnur ríki? Var það fyrst og fremst pólitískt metnaðarmál ráðherranna að ná samningum óháð því um hvað yrði samið? Eða eru þarna hagsmunir í húfi sem ég kem ekki auga á umfram þá sem ég hef nefnt?