Starfshættir í umhverfisnefnd

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:32:12 (5701)

1996-05-07 13:32:12# 120. lþ. 132.92 fundur 294#B starfshættir í umhverfisnefnd# (aths. um störf þingsins), HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:32]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til þess að ræða um starfshætti í umhvn. þingsins, þar sem ég á sæti, af sérstöku tilefni sem ljóst varð í morgun að yrði efni til þess að gera athugasemd við vinnubrögð af hálfu forustu í nefndinni.

Þar gerðist það að tekið var út úr nefnd frv. til laga um náttúruvernd, með ákvörðun meiri hlutans þrátt fyrir eindregin mótmæli af hálfu fulltrúa í nefndinni sem bentu á það að frv. gæti ekki talist hálfunnið af hálfu nefndarinnar en þetta stóra mál sem vísað var til nefndar 11. mars og leitað var umsagna um kom fyrst fyrir í nefndinni 16. apríl og hefur verið til meðferðar á fjórum fundum þar til það var á þessum fundi tekið út úr nefnd. Það var fyrst á aukafundi í nefndinni sl. föstudag að raunveruleg vinna gat hafist um þingmálið innan nefndarinnar en þá stóð svo á að ekki mættu fleiri til aukafundar af hálfu stjórnarmeirihlutans en tveir þingmenn og er mæting kafli út af fyrir sig, einkum af hálfu fulltrúa Sjálfstfl. í þessari þingnefnd það sem af er þinginu. En ég ætla ekki að gera það að stóru máli í þessu samhengi þó að ástæða væri til að draga það fram.

En það sem nú gerist er að nýtt frv. til laga um náttúruvernd er tekið út úr umhvn. hálfkarað án þess að búið sé að fara eðlilega yfir umsagnir og annað sem fram hefur komið af hálfu gesta í nefndinni, það keyrt í gegn þrátt fyrir andmæli okkar sem höfum reynt að taka þátt í störfum umhvn. á þinginu, og hvað mig snertir á fyrri þingum óháð því hvort ég væri í minni hluta eða meiri hluta þar við borðið, ég hef reyndar verið þar minnihlutamegin frá því að nefndin hóf störf eða frá því 1991, ekki alveg frá byrjun á starfi nefndarinnar.

Vinnubrögðum af þessu tagi vil ég mótmæla, virðulegur forseti, í svo stóru máli sem varðar almannaheill og það verður auðvitað ekki til að greiða fyrir þingstörfum þegar þannig er staðið að málum af hálfu meiri hlutans í þinginu og jafnlítil alúð lögð við svo stórt mál eins og hér er um að ræða.