Starfshættir í umhverfisnefnd

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:35:08 (5702)

1996-05-07 13:35:08# 120. lþ. 132.92 fundur 294#B starfshættir í umhverfisnefnd# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:35]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég vísa á bug þeirri gagnrýni sem kom fram frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Meðferð málsins í þingnefndinni hefur á allan hátt verið í samræmi við þinglegar venjur, engum hefur verið varnað þar máls, þangað höfum við fengið starfsmenn ráðuneytisins þrisvar. Allir gestir, sem óskað var eftir að kæmu fyrir nefndina, komu til fundar. Umsagnir hafa legið frammi, efnisleg umræða hefur farið fram í nefndinni, boðið hefur verið upp á aukafund, lokatillaga meiri hlutans um afgreiðslu málsins var rædd ítarlega í morgun, tillögur minnihlutamanna hafa verið teknar til greina og að ýmsu leyti teknar inn í lokaafgreiðsluna. Ég vísa því þessum ásökunum og mótmælum algerlega á bug. Ég hef ráðfært mig á hverju stigi þessa máls við þingreynda menn því að í engu vil ég níðast á jafnágætu fólki og starfar með mér í nefndinni, hvorki í meiri hluta né minni hluta. Það er samdóma álit allra eftir því sem málið hefur farið fram við hvert stig þess að með engum hætti sé hallað á rétt manna eða hann brotinn með einum eða öðrum hætti.

Mér þykir miður að þetta mál skuli hafa verið tekið upp með þessum hætti en virði eins og ég hef alltaf gert þær skoðanir sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur sett fram um þetta efni.