Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:08:56 (5716)

1996-05-07 14:08:56# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:08]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er því miður mjög sjaldgæft að það takist hjá einstaklingum eða fámennum hópum að rífa upp þróunarverkefni, t.d. í menntamálum sem geta skipt sköpum um framtíð. Það tel ég að Pétri Þorsteinssyni á Kópaskeri hafi tekist. Hann er í raun og veru byltingarmaður í skólamálum með þessu menntaneti sem hann þróaði í upphafi frá Kópaskeri við ótrúlega frumstæðar aðstæður. Niðurstaðan er sú að verulegur hluti íslenskra skólabarna í grunnskólum hefur aðgang að Íslenska menntanetinu og einnig unglingar í framhaldsskólum. Ég er þess vegna sammála hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur um að það var eðlilegur og sjálfsagður hlutur að menntmrn. gengi í það að bjarga málinu. Það hefði þýtt hrun hjá mörgum þúsundum íslenskra ungmenna ef ekki hefði verið gripið í taumana í tæka tíð. Það er alveg ljóst. Í því sambandi nægir að nefna fjarnámið til kennaraprófs við Kennaraháskóla Íslands þar sem eru um 100 nemendur og þeir eru daglega að nota þetta kerfi. Það má nefna fjarnám við Fósturskólann og það má nefna fjarnám við Verkmenntaskólann á Akureyri sem er nýfarið af stað. Í því eru núna 100 nemendur og geta sjálfsagt orðið fleiri áður en langur tími líður.

Ég tel líka fagnaðarefni að það hefur verið tekin ákvörðun um að vista Íslenska menntanetið í Kennaraháskólanum. Þar á það nákvæmlega heima. Ég tel hins vegar að það hefði átt að standa betur að ákvörðunum um fjármögnun málsins og það hefði verið auðvelt fyrir menntmrn. að tryggja eðlilegt samráð við fjárln. um málið sem mér finnst að hafi ekki verið gert þó ég fagni ákvörðuninni sem slíkri.