Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:11:16 (5717)

1996-05-07 14:11:16# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:11]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur að það sé verið að fjargviðrast yfir þessari aðgerð. Það er alrangt. Það er verið að fjargviðrast yfir vinnubrögðum. Það geri ég a.m.k.

Ég vil, herra forseti, byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu og upplýsingar sem hafa komið fram. En það sem er fyrst og fremst gagnrýni vert í þessu máli er að málið ber þannig að þessari virðulegu stofnun, Alþingi, að þingmenn heyra um málið í fréttum fjölmiðla. Og sem fulltrúi míns flokks í fjárln. mótmæli ég því að nefndin er í vaxandi mæli notuð sem afgreiðslustofnun. Ég hef haft um þetta orð áður, m.a. í umræðum um fjáraukalög. Það er verið að taka ákvarðanir án kynningar og án samráðs við fjárln. Ég tek undir að það varð að bjarga þessu máli sem hér er um að ræða þannig að hátt í 300 nemendur í fjarnámi á menntanetinu gætu haldið áfram námi. En ég mótmæli fyrst og fremst vinnubrögðum. Það hefur ekkert staðið á fjárln. að koma til fundar hvenær sem er, á hvaða tíma sem er, ef þörf hefur verið á. Ég tel, hæstv. menntmrh., að það hafi ekki legið svo mikið á að það hefði ekki mátt kalla okkur saman til örstutts fundar til kynningar um málið og þá hefði þetta mál aldrei komið hér upp í sölum Alþingis sem utandagskrárumræðumál.