Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:15:45 (5719)

1996-05-07 14:15:45# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:15]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir að taka þetta mál til umræðu vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt og nauðsynlegt fyrir þingheim og aðra sem á okkur hlýða að fá af því fregnir hversu mikilvæg og nauðsynleg ráðstöfun það var sem menntmrh. stóð fyrir, að tryggja hagsmuni þeirra fjölmörgu sem eiga viðskipti og hafa átt viðskipti við Íslenska menntanetið. Sú ráðstöfun að kaupa þann þátt þess sem hæstv. menntmrh. hefur gert grein fyrir var nauðsynleg. Ég held að allir séu sammála um það og það hefur komið fram í þessari umræðu. Þess vegna er hún gagnleg.

Vegna þess sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson nefndi um heimildir til kaupanna, þá er það auðvitað rétt að ef frv. og breytingartillögur með því um fjárreiður ríkisins væri orðið að lögum, þá hefði öðruvísi verið farið að undirbúningi málsins. En engu að síður og þrátt fyrir þá löggjöf sem vonandi verður afgreidd nú fyrir þinglok, þá verða hæstv. ráðherrar jafnan að bregðast við innan þeirra heimilda fjárlaga sem þeir hafa. Hæstv. menntmrh. hefur bent á það að ráðuneytið hefur að sjálfsögðu heimildir til þess að nýta fjármuni sem lúta að tölvuvæðingu m.a. til þessara hluta.

Ég vil nefna eitt til viðbótar og það er að í tengslum við Íslenska menntanetið hefur verið komið upp svæðisstövum um landið sem hafa veitt þjónustu í landshlutunum. Ein slík svæðisstöð til upphringinga inn í menntanetið er við Samvinnuháskólann í Bifröst. Það liggur fyrir hvað varðar rekstur þeirra sem m.a. sveitarfélögin hafa komið að, m.a. á Vesturlandi, þá er ekki tryggt hvernig rekstur svæðisstöðvanna verður í framtíðinni. Ég vil nefna það hér að það er nauðsynlegt í framhaldi af þessari mikilvægu aðgerð að tryggja að þær geti haldið stöðu sinni og eðlilegir og nauðsynlegir samningar náist við Póst og síma um forsvaranlega gjaldtöku á þeirri þjónustu sem svæðisstöðvarnar þurfa að veita. En þrátt fyrir mikilvægt og gott mál verður að tryggja nauðsynlegar heimildir í fjárlögum eða fjáraukalögum hverju sinni. Það vil ég undirstrika.