Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:24:50 (5723)

1996-05-07 14:24:50# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:24]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, er Íslenska menntanetið mjög merkilegt frumkvæði einstaklings í menntamálum og það er athygli vert. Þetta kerfi hefur sýnt sig að vera ódýrt og mjög skilvirkt og langt á undan sinni samtíð. Það hefur gagnast þjóðinni mjög mikið. Þetta hefur gert það að verkum að menn hafa getað stundað fjarnám löngu fyrr en ella hefði orðið og þetta er allt á grundvelli einkaframtaks eins manns.

Síðan hafa aukin samkeppni og ytri aðstæður valdið því að þetta fyrirtæki hefur lent í vandræðum og það krafðist hraðrar ákvörðunar sem hæstv. menntmrh. tók til að leysa þennan vanda. En ég beini því til hæstv. ráðherra að hann noti nú tækifærið og geri þjónustusamning við Íslenska menntanetið því að það stendur til að þetta haldi áfram og þetta verði greitt. Það er hægt að gera þjónustusamning við fyrirtækið eða þetta nýja menntanet og síðan verði leitað eftir hlutafé til þess að taka yfir þetta fyrirtæki og reka það aftur, þ.e. einkavæða það eftir að búið er að gera þjónustusamning. Þá geri ég ráð fyrir því að það einkaframtak sem varð til þess að menntanetið varð svona árangursríkt muni halda áfram að blómstra og valda því að við Íslendingar munum sjá aftur á þessu sviði menntamála ákveðið frumkvæði einstaklinga.