Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:26:35 (5724)

1996-05-07 14:26:35# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:26]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Við skulum ekki missa sjónar á aðalatriði málsins. Íslenska menntanetið er hlutafélag sem ber að vísu það nafn en er hlutafélag eins og öll önnur hlutafélög á þessum markaði sem stunda sambærilega þjónustu. Þetta hlutafélag hefur vissulega unnið merkileg störf, en það hafa ýmis hlutafélög gert. Þetta hlutafélag lendir í erfiðleikum og þarf á greiðslustöðvun að halda þannig að það er fyrirsjáanlegt að það stefnir í gjaldþrot. Auðvitað koma þá upp vandamál um þjónustu við þá aðila sem þetta hlutafélag hefur þjónustað. Hæstv. menntmrh. leysir það með því að gera kaupsamning við félagið og kaupa af því verðmæti fyrir 21 millj. kr. Hann hefði t.d. getað spurst fyrir um það hjá öðrum fyrirtækjum sem selja þjónustu á markaðnum hvort þau geti tekið að sér að veita sambærilega þjónustu fyrir minna fé. En það er ekki gert heldur er þessi ákvörðun tekin.

Þá er auðvitað spurningin þessi: Hvað er hæstv. ráðherra að kaupa? Það liggur fyrir eftir fróðra manna sögn að í hæsta lagi sé búnaður sá sem keyptur er, þó hann sé metinn á endurkaupsverði, á 9--9,5 millj. Þarna er því verið að kaupa eitthvað annað fyrir 10--11 millj. kr. Og hvað er það? Í kaupsamningnum er nefnt að það sé m.a. verið að kaupa nafnið, það sé verið að kaupa viðskiptavild, það sé verið að kaupa kennslustofninn og það sé verið að kaupa viðskiptasamböndin við skólana, við skóla í eigu ríkisins. Mikið af því efni sem er inni á þessu neti er unnið af skólunum sjálfum því það eru skólarnir sjálfir sem hafa þróað verulegan hluta af þessu, m.a. allt kennsluefni sem er inni á netinu. Er ríkið að kaupa efni af einkafyrirtæki sem ríkisskólar hafa sjálfir unnið?

21 millj. kr., virðulegi forseti, er talsvert mikið fé í skólamálum á Íslandi og fyrir það er hægt að gera ýmislegt. Ég ætla ekki að gagnrýna það en ég spyr aftur vegna þess að ég fékk ekki svar við því: Hvað var verið að kaupa? Hvers var viðskiptavildin metin, viðskiptasamböndin, nafnið á fyrirtækinu? Hver var þessi kennslustofn sem var inni á netinu? Var það kennslustofninn sem Kennaraháskóli Íslands hafði unnið? Þetta liggur ekki fyrir, virðulegi forseti. Það er alveg sama hversu málið er gott, þá skulum við ekki gleyma því að hér er um einkafyrirtæki að ræða, fyrirtæki í einkaeigu sem þarna er verið að veita sérstaka þjónustu. Ég spyr hvort það séu þá fordæmi um þjónustu annarra sambærilegra fyrirtækja sem veita skólum eða menningarstofnunum aðgang að Interneti. Ef þau lenda í greiðsluerfiðleikum má þá vænta þess að hæstv. fjmrh. og menntmrh. hlaupi undir bagga með þeim og bjargi rekstri fyrirtækjanna með slíkri fyrirgreiðslu?