Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:32:46 (5726)

1996-05-07 14:32:46# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:32]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frv. þetta hefur verið mikið til umræðu að undanförnu á almennum vettvangi og ekki síður á vettvangi þingsins. Efh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta mál á einum tíu fundum. Hún hóf vinnu við málið strax að loknu páskaleyfi, fór þá yfir málið, fór yfir umsagnir og kallaði á marga umsagnaraðila til fundar við sig.

Á þskj. 886 er þess getið hverjir fengu málið til umsagnar og sendu þær inn. Meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til brtt. við frv. í einum 19 liðum. Mun ég í þessari framsögu gera grein fyrir efni þeirra. Áður en ég kem að einstökum brtt. vil ég segja að það frv. sem hér er til umræðu hefur í för með sér miklar breytingar og þær eru til þess fallnar að gera ríkiskerfið nútímalegra og til þess fallnar að starfsmannahald ríkisins verði allt betur í takt við þau verkefni sem ríkinu eru falin og þann árangur sem menn hyggjast ná úr ríkisrekstrinum.

Meginbreytingarnar sem felast í frv. koma fram í I. kaflanum þar sem gildissvið þeirra nær til allra starfsmanna ríkisins hvort heldur þeir tilheyra núv. stéttarfélögum opinberra starfsmanna eða félögum Alþýðusambands Íslands.

Í öðru lagi vil ég nefna ákvæði um viðbótarlaun þar sem forstöðumenn stofnana geta ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum sem eykur sveigjanleika í starfsmannahaldi í stofnunum og gerir ríkinu betur kleift að keppa um hæfa starfsmenn við einkamarkaðinn.

Í þriðja lagi vil ég nefna að með almennri reglu er æviráðning opinberra starfsmanna afnumin.

Í fjórða lagi vil ég nefna að ábyrgð forstöðumanna á fjárreiðum ríkisstofnana er aukin.

Í fimmta lagi vil ég nefna það að nú heyra allir svokallaðir embættismenn undir kjaranefnd eða Kjaradóm með sínar launaákvarðanir.

Að lokum vil ég nefna að við samningu stjórnvaldsfyrirmæla samkvæmt lögum þessum og við endurskoðun þeirra skal jafnan gefa stéttarfélögunum kost á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félagsmanna sinna um þau ágreiningsatriði sem upp kunna að koma.

Vík ég nú að einstökum brtt. sem meiri hluti nefndarinnar vill gera við þetta frv.:

Lagt er til að við 1. mgr. 2. gr. bætist nýr málsliður er orðist svo: ,,Lögin taka til hæstaréttardómara og héraðsdómara eftir því sem við getur átt.``

Hæstaréttardómarar og héraðsdómarar hafa nokkra sérstöðu meðal embættismanna. Þannig gilda sérreglur um lausn þeirra frá embætti, frábrugðnar þeim sem frv. mælir fyrir um. Því er lagt til að lögin gildi einungis um þá eftir því sem við getur átt. Þá upplýstist það í umfjöllun nefndarinnar að fyrirhugað er að setja sérstök lög um dómstóla þar sem kveðið verður sérstaklega á um þessi atriði sem varða hæstaréttardómara og héraðsdómara.

Í 2. lið brtt. við 7. gr. er lagt til að orðin ,,svo sem minni háttar skrifstofustörf, störf samkvæmt námssamningi, ræstingastörf, sendilsstörf eða önnur svipuð störf`` í 2. mgr. falli brott. Þarna er verið að fella niður sérstaka útskýringu á því (ÖJ: ... hverjir eru minni háttar.) hvaða störf þurfa ekki að falla undir þá reglu að þau þurfi að auglýsa. En þetta er þá í frv. ef brtt. er samþykkt þannig að í reglum samkvæmt þessari málsgrein má mæla svo fyrir um störf þar sem ekki er krafist tiltekinnar sérmenntunar eða sérhæfingar þurfi ekki að auglýsa opinberlega.

Meiri hluti nefndarinnar telur ekki eðlilegt að það sé verið að festa það niður að það þurfi að auglýsa öll störf. Fyrst og fremst hygg ég að það sé þörf á því að bæta þá framkvæmd sem verið hefur á þessum málum þar sem það hefur verið því miður nokkuð um það að ráðið hafi verið í störf sem segja má að ætti samkvæmt öllum venjulegum sjónarmiðum að auglýsa en það hefur ekki verið gert í öllum tilvikum. Eins er í þessari grein lagt til í frv. að laus embætti skuli undantekningarlaust auglýsa í Lögbirtingablaðinu.

Í 3. lið brtt. eru lagðar til eftirfarandi breytingar á 9. gr., þar sem í fyrsta lagi er verið að gera ráð fyrir því að Kjaradómur komi inn í upptalningu ásamt kjaranefnd. Síðan er verið að endurorða 2. mgr. þar sem fjallað er um viðbótarlaunin. Þessi endurorðun er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Forstöðumenn stofnana geta ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum, öðrum en embættismönnum, laun til viðbótar grunnlaunum, sem samið er um skv. 1. mgr., vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Þessum ákvörðunum má breyta hvenær sem er, en sé breytingin starfsmanni í óhag tekur hún ekki gildi fyrr en að liðnum uppsagnarfresti þess starfsmanns sem hún varðar, sbr. 46. gr.``

Meginbreytingin sem meiri hluti efh.- og viðskn. leggur hér til er að ákvarðanir um viðbótarlaun geti ekki átt við um embættismenn eða þá sem taka laun samkvæmt Kjaradómi eða kjaranefnd. Viðbótarlaunin munu því eingöngu geta gengið til þeirra sem eru með laun samkvæmt kjarasamningum og eru þess vegna ekki fyrir það sem við getum nefnt toppana í ríkiskerfinu.

Þá er lagt til að við bætist nýr málsl. sem orðist þannig, með leyfi forseta: ,,Þar á meðal getur hann að eigin frumkvæði breytt ákvörðunum um viðbótarlaun ef þær brjóta í bága við reglurnar og afnumið heimild einstakra forstöðumanna til að ákvarða starfsmönnum viðbótarlaun ef rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar er ekki í samræmi við fjárlög.``

Hér er verið að fjalla um heimildir fjmrh. til að grípa inn í ákvarðanir um viðbótarlaun ef þessar ákvarðanir hafa farið út fyrir þær reglur og viðmiðanir sem um þau eru sett. Eins ef fjárhagsleg afkoma viðkomandi ríkisstofnunar er ekki í takt við það sem henni er sett fyrir í fjárlögum. Í umfjöllun nefndarinnar var þetta ákvæði rætt allmikið og þessi brtt. frá meiri hlutanum endurspeglar vilja til þess að fara varlega í þessu máli og þróa þetta hægt og rólega þannig að þetta geti orðið eðlilegur hluti af launakerfi opinberra starfsmanna en ekki að fara í þetta með einhverjum fljótheitum og gassagangi.

Í 4. lið brtt. er lögð til breyting við 10. gr. þar sem verið er að bæta inn skilgreiningu á hugtakinu föst laun og taka fram að í þessum lögum sé átt við föst laun fyrir dagvinnu án viðbótarlauna eins og þau eru skilgreind í 2. mgr. 9. gr.

Tilgangurinn með þessari breytingu er að koma í veg fyrir að sá sem tekur lífeyri úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins samkvæmt eftirmannsreglunni svokölluðu geti krafist þess að fá hækkun á lífeyri sínum vegna þess að eftirmaður hans hafi fengið úrskurðuð viðbótarlaun hjá sínum forstöðumanni. Við í meiri hluta nefndarinnar teljum ekki eðlilegt að slíkar einstaklingsbundnar ákvarðanir um viðbótarlaun hafi áhrif á lífeyrisgreiðslu til þess sem í því starfi var áður.

Í 5. lið brtt. er lagt til að breytingar verði á 11. gr. frv. og tvær málsgreinar þar verði felldar niður. Þær fjalla um orlofsrétt. Eins og greinin er í dag tekur hún fyrst og fremst mið af því fyrirkomulagi sem gildir hjá BSRB og BHMR félögunum í þeirra kjarasamningum en er á skjön við það sem tíðkast hjá Alþýðusambandsfélögunum. Þess vegna er lagt til að þessar tvær málsgreinar verði felldar niður. Það var raunar í samræmi við það sem Alþýðusambandið fór fram á.

[14:45]

Í 6. lið brtt. er lögð til lagfæring á orðalagi um sveigjanlegan vinnutíma sem fjallað er um í 13. gr. frv. Þar er fyrst og fremst um það að ræða að forstöðumanni stofnunar ber að verða við óskum starfsmanna um sveigjanlegan vinnutíma eftir því sem unnt er, sbr. 1. mgr. 17. gr., enda bitni slíkt ekki á þjónustu stofnunar við almenning.

Meiri hluti nefndarinnar telur að það sé lykilatriði í sambandi við sveigjanlegan vinnutíma að það eigi að sjálfsögðu að reyna að verða við óskum fólks um það eins og mögulegt en þjónusta viðkomandi stofnunar við almenning hljóti þó alltaf að vera í fyrirrúmi.

Í 7. lið brtt. er lagt til að breyting verði á 21. gr. frv. Þar er um að ræða að forstöðumaður skal veita starfsmanni skriflega áminningu ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Breytingin felst í því að forstöðumaðurinn er skyldugur til að veita slíkum manni áminningu en í frv. eins og það er í upphaflegri mynd er orðið ,,getur`` í staðinn fyrir orðið ,,skal``. Menn telja að það sé það alvarlegt að sinna starfi sínu með þessum hætti að það sé rétt að skylda forstöðumenn ríkisstofnana til að veita slíkum starfsmönnum skriflega áminningu. Vonandi verður þó aldrei þörf á slíku því ríkið vill að sjálfsögðu hafa hæft fólk í sinni þjónustu.

Í 8. lið brtt. er verið að leggja til breytingu á 22. gr. frv. Það eru breytingar á því ákvæði greinarinnar sem kveður á um hverjir skuli teljast embættismenn. Þannig er annars vegar lagt til að prestar og prófastar ásamt ríkistollstjóra verði embættismenn en starfsmenn Almannavarna ríkisins og landhelgisgæslu ekki. Síðan er lagt til að skilyrði 10. tölul. um forsetaskipun verði fellt út og það skipti ekki máli af hvaða stjórnvaldi eða hvaða ráðherra menn eru skipaðir til þess að þeir teljist embættismenn.

Í 9. lið brtt. eru gerðar tillögur um breytingar á 23. gr. frv. Í frv. var gert ráð fyrir því að ef það ætti að auglýsa starf embættismanns eftir að hann hefði gegnt því í tæp fimm ár mætti fresturinn til þess að láta viðkomandi embættismann vita vera þrír mánuðir. En í brtt. nefndarinnar er sagt að hann þurfi að fá vitneskju um þetta með a.m.k. sex mánaða fyrirvara. Ef embættismaður er ekki upplýstur um það með a.m.k. sex mánaða fyrirvara að það standi til að auglýsa starf hans á nýjan leik þá framlengist skipunartími hans sjálfkrafa í embættið um fimm ár.

Síðan er einnig lögð til smáslaufa í þessum 9. lið brtt. þannig að embættismaður getur að sjálfsögðu óskað eftir að láta af störfum með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 37. gr. en það á fyrst og fremst við um þá sem eru að láta af starfi að eigin ósk.

Í 10. lið brtt. eru lagðar til breytingar á 26. gr. frv. þar sem fjallað er um lausn frá embætti. Í stað síðari málsliðar 4. mgr. þar sem fjallað er um lausn frá embætti um stundarsakir er talað um að setja inn tvo nýja málsliði sem orðist svo: ,,Ef embættismanni er veitt lausn um stundarsakir af ástæðum sem greindar eru í 2. mgr. er skylt að veita honum áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er veitt lausn. Annars er ekki skylt að gefa honum kost á að tjá sig um ástæðu lausnar áður en hún tekur gildi.``

Síðan bætist við ný málsgrein sem orðast svo, með leyfi forseta:

,,Ef embættismaður óskar skal rökstyðja ákvörðun um lausn um stundarsakir. Ef annað stjórnvald en ráðherra hefur tekið þá ákvörðun má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra.``

Þetta er gert til að hafa nægilegt samræmi milli þessara laga og stjórnsýslulaganna um það hvernig málsmeðferð er háttað.

Í 11. lið brtt. eru gerðar brtt. við 27. gr. frv. Þar er lagt til í a-lið að orðin ,,eða að hætti opinberra mála, ef ástæða þykir til`` falli brott. Við bætist nýr málsliður er orðist svo: ,,Stjórnvaldi eða starfsmanni er þó ætíð heimilt að vísa máli til rannsóknar að hætti opinberra mála.``

Í greininni er fjallað um að það sé hægt að setja upp nefnd sérfróðra manna sem fjalli um mál embættismanns ef honum hefur verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi. Í brtt. er gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmanni eða viðkomandi stjórnvaldi sé ávallt heimilt að vísa málinu til opinberrar rannsóknar ef svo er kosið.

Í 12. lið brtt. eru gerðar tillögur um breytingar á 30. gr. frv. þar sem segir: ,,Í stað orðanna ,,ber að greiða honum föst laun`` í 3. mgr. komi: skal hann halda óbreyttum launakjörum.``

Hér er verið að fjalla um að laun og önnur launakjör embættismanna skuli ákveðin af Kjaradómi og kjaranefnd samkvæmt þeim lögum og eigi þeir því ekki rétt á viðbótarlaunum samkvæmt 2. mgr. 9. gr. frv.

Í 13. lið brtt. er verið að gera tillögubreytingar á 37. gr. sem fjallar um lausnarbeiðni embættismanns. Þar er verið að fella niður hugtakið viðbótarlaun sem leiðir líka af því að viðbótarlaun eiga ekki við um embættismenn.

Í 14. lið er verið að gera brtt. við 39. gr. frv. Þar er lagt til að greinin orðist eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Laun og önnur launakjör embættismanna skulu ákveðin af Kjaradómi og kjaranefnd samkvæmt þeim lögum sem um þá úrskurðaraðila gilda. Þó skulu laun og önnur launakjör lögreglumanna, tollvarða og fangavarða fara eftir kjarasamningum sem stéttarfélög eða samtök þeirra gera við ríkið, sbr. 47. gr.``

Hér er gerð brtt. sem felur í sér ákveðið stílbrot í rauninni á frv. og því hvernig þessum málum er almennt háttað. Með frv. er verið að gera lögreglumenn og fangaverði og tollverði alla að embættismönnum en í stað þess að laun þeirra heyri undir kjaranefnd er gert ráð fyrir að þessir aðilar hafi samningsrétt og geti þá samið um sín kjör. Hins vegar hafa þeir ekki verkfallsrétt. Þetta var samkvæmt óskum félaga þessara starfsmanna eða embættismanna.

Í 15. lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 41. gr. frv. Þar er fjallað um ráðningu í starf tímabundið og þar bætist nýr málsliður við 1. mgr. frv. Málsgreinin er þannig í frv., með leyfi forseta:

,,Starfsmenn ríkisins, aðrir en embættismenn, skulu ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti.`` Við er bætt samkvæmt brtt.: ,,Skal sá frestur vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma nema um annað sé samið í kjarasamningi.``

Hér er sem sagt verið að kveða á um að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skuli vera þrír mánuðir nema annað sé tekið fram.

Í 16. lið brtt. er verið að gera brtt. við 44. gr. Í frv. segir að ekki sé skylt að veita starfsmanni áminningu áður en honum er sagt upp störfum en í brtt. hljóðar greinin svo, með leyfi forseta:

,,Skylt er að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar.

Ef starfsmaður óskar skal rökstyðja uppsögn skriflega. Ef hún á rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra.`` Hér er verið að færa þetta í stíl við stjórnsýslulögin.

Í 17. lið brtt. eru gerðar tillögur til breytinga við 51. gr. frv. Þar er kveðið á um starfsmenn Alþingis. Þar bætist nýr málsliður við 1. mgr. greinarinnar: ,,Forseti Alþingis fer með það vald gagnvart starfsmönnum þingsins sem fjármálaráðherra er fengið í 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 27. gr.``

Enn fremur er sams konar viðbót við 2. mgr. frv., þar bætist við nýr málsliður sem hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Skrifstofustjóri Alþingis er á sama hátt í fyrirsvari gagnvart starfsmönnum þingsins, svo og ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis gagnvart starfsmönnum sínum.``

Í 18. lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 56. gr. frv., 2. tölul. Þar er fyrst og fremst verið að gera tillögur til breytinga á 56. gr. varðandi lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Meginbreytingin miðar að því að fallið verði frá því að launakjör embættismanna verði alfarið ákveðin af kjaranefnd. Það er breytingin á frv. sem meiri hlutinn gerir tillögu um. Því er gert ráð fyrir að núverandi fyrirkomulag haldist óbreytt en þó er lagt til að umboðsmaður barna verði tekinn inn í 2. gr. laga nr. 120/1992 í samræmi við ákvæði laga um umboðsmann barna, nr. 83/1994, sbr. a-lið brtt., þ.e. að hann falli undir Kjaradóm frekar en kjaranefnd.

[15:00]

Tillögu b-liðar má rekja til þeirra breytinga sem meiri hlutinn leggur til að gerðar verði á 2. gr. laga nr. 120/1992 og 39. gr. frv.

Í d-lið er lagt til að kjaranefnd fái sambærilega heimild til ákvörðunar viðbótarlauna og er að finna í ákvæði 2. mgr. 9. gr. frv. varðandi aðra starfsmenn.

Loks er í tillögu um ákv. til brb., e-lið, lagt til að laun og starfskjör embættismanna sem hingað til hafa tekið laun samkvæmt kjarasamningum verði óbreytt til loka þeirra samninga.

Meginmálið er að kjaranefndin ein ákveður um laun embættismanna. Það er ekki þannig að kjaranefnd ákveði fyrst laun embættismanna og síðan komi ráðherrar eða ráðuneytisstjórar og úrskurði viðkomandi embættismönnum viðbótarlaun. Slíkt kerfi gæti aldrei nokkurn tímann gengið upp því þá þyrfti kjaranefnd innan örstutts tíma að fara að taka tillit til þeirra ákvarðana sem viðkomandi ráðherrar hafa tekið um viðbótarlaunin og þá væri fallið um sjálft sig það fyrirkomulag að kjaranefnd úrskurði um heildarlaun þessara aðila.

Í 19. lið brtt. eru gerðar breytingar á ákv. til brb. þar sem verið er að lengja frest varðandi rétt til biðlauna, hann verði óbreyttur frá gildandi lögum hjá starfsmönnum sem skipaðir hafa verið eða ráðnir í starf hjá ríkinu fyrir gildistöku laga þessara.

Hæstv. forseti. Eins og ég hef rakið í máli mínu hefur meiri hluti efh.- og viðskn. gert allviðamiklar tillögur til breytinga á frv. Nefndin hefur fjallað um málið með það að markmiði, eins og gildir að sjálfsögðu um öll önnur mál, að reyna að bæta það stjfrv. sem hér liggur fyrir. Ég vil sérstaklega í því sambandi færa fulltrúum þeirra sem komu til fundar við nefndina og sendu inn umsagnir þakkir fyrir þeirra framlag til málsins. Síðan vil ég líka færa nefndarmönnum, bæði samnefndarmönnum mínum í meiri hluta nefndarinnar og þeim sem eru í minni hluta nefndarinnar, þakkir fyrir störf sín. Þeir sem störfuðu í minni hlutanum eru að sjálfsögðu mjög harkalega á móti þessu máli eins og oft hefur komið fram og á sjálfsagt eftir að koma fram í þessari umræðu. En það hefur ekki þýtt að þeir hafi ekki viljað leggja gott til málanna og taka þátt í því að færa einstakar greinar til betri vegar eftir því sem þeirra sannfæring hefur boðið. Það tel ég að sé þakkarvert þótt menn séu ekki sammála um þetta mál.

Að lokum vil ég segja, hæstv. forseti, að mál eins og þetta er að sjálfsögðu aldrei fullskapað. Þess vegna geri ég ráð fyrir að það gangi aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. til þess að fara megi yfir það hvort ekki leynist einhver atriði í því sem mætti til enn betri vegar færa. Síðan geri ég líka ráð fyrir því að þetta frv. sem vonandi verður að lögum eigi eftir að slípast dálítið í þeirri framkvæmd sem óhjákvæmilega verður á málinu þegar aðilar fara að vinna eftir þeim. Ég vona að þessi lög, eftir að frv. hefur verið samþykkt, eigi eftir að reynast góður grunnur til þess að byggja á starfsmannahald ríkisins og samskipti ríkisvaldins við stéttarfélög þeirra starfsmanna sem hjá ríkinu vinna um allnokkra framtíð.