Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 15:04:53 (5727)

1996-05-07 15:04:53# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[15:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson eigi að spara sér þakkargjörðina gagnvart stéttarfélögunum í landinu vegna þess að þau kunna honum engar þakkir. Og sannast sagna held ég að þessi ræða sem hér var flutt sé mörgum manninum mikil vonbrigði, a.m.k. þeim sem trúðu því eða vonuðu að tekið yrði tillit til þess rökstuðnings og þeirra sjónarmiða sem fram komu af hálfu samtaka launafólks, tillögur um breytingar á þessu frv. Hér er hafin mjög mikilvæg umræða þar sem reynir á sjálfstæði Alþingis. Þetta er umræða um grundvallarbreytingar á starfskjörum tugþúsunda einstaklinga. Þessar tillögur hafa sætt mikilli og þungri gagnrýni í þjóðfélaginu enda taka þær á samningsbundnum kjörum. Málsmetandi aðilar hafa fært fyrir því rök að þetta frv. stangist á við stjórnarskrá landsins og siðferðilega stenst þetta frv. engan veginn, hvorki hvað varðar innihald né allan framgangsmáta, þ.e. hvernig á að þröngva þessu í gegnum þingið. Það er samdóma álit allra samtaka launafólks sem þessi lög taka til. Og reyndar allra samtaka á vinnumarkaði á Íslandi að undanskildum samtökum atvinnurekenda, VSÍ og Vinnumálasambandsins. Hér eru boðaðar breytingar um skert kjör launafólks í þeim anda sem þessi samtök hafa krafist. Hér er þess vegna talað fyrir hönd meiri hluta á Alþingi en gegn meiri hluta í þjóðfélaginu. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson kann að tala hér fyrir hönd meiri hluta efh.- og viðskn. Alþingis sem í einu og öllu endurómar vilja VSÍ, Vinnumálasambandsins. Og þessi sjónarmið eru reyndar líka alveg ótrúlega lík því sem heyrst hefur frá Verslunarráði Íslands. Ég kom, hæstv. forseti, hingað upp til þess að leggja áherslu á alvöru þessa augnabliks. Ég skora á Alþingi að láta ekki fulltrúa þeirra sjónarmiða sem hér hefur verið talað fyrir segja sér fyrir verkum. Nú er komið að því að Alþingi sýni sjálfstæði sitt.