Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 15:10:06 (5729)

1996-05-07 15:10:06# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[15:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf nú meira en mínútu til að ræða þessi mál og mun nýta mér það rækilega þegar líður á daginn. Meiri hluti nefndarinnar, upplýsir hv. þm. okkur um, var á því að afgreiða málið. Alveg sama þótt nefndin hefði í höndum sínum rökstuðning frá hverju einasta verkalýðsfélagi í landinu, frá öllum þeim samtökum sem þessi lög taka til, þar sem þessum vinnubrögðum er mótmælt og þar sem eru færð mjög ítarleg og rækileg rök fyrir því hvers vegna þessi lög standast ekki. Það er verið að svipta stóra hópa samningsrétti. Það stendur enn þrátt fyrir þessar breytingar. Það er verið að koma á forstjóraveldi og duttlungastjórnun inni í kerfinu þrátt fyrir þær málamyndabreytingar sem hér hafa verið kynntar. Þar að auki eru svo ótrúlegar rangfærslur í þeim gögnum sem hér eru borin á borð fyrir þingið. T.d. segir hér í plöggum sem koma frá fjmrn.: ,,Réttur til biðlauna verði sá sami og í núverandi lögum en þó gerð sú breyting að frá þeim dragast önnur laun sem starfsmaðurinn kann að hafa á biðlaunatímanum.`` Síðan er þetta náttúrlega botnað. ,,Þessi breyting kann að leiða til nokkurs sparnaðar í framtíðinni ef ríkisfyrirtæki eða stofnun er breytt í hlutafélag eða fært til sveitarfélaga.`` Ég tek þetta bara sem eitt dæmi af mýmörgum um rangfærslur og ótrúlega óvönduð og óheiðarleg vinnubrögð að þinginu er ekki bjóðandi upp á annað eins.