Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 17:09:39 (5738)

1996-05-07 17:09:39# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[17:09]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þessa löngu og ítarlegu ræðu. Ég vil í framhaldi af henni segja að mér þótti hún ekki að öllu leyti trúverðug. Ég hefði talið að eftir þá miklu umfjöllun sem málið hefur fengið og þá ítarlegu umhugsun sem það hefur fengið hjá hv. þm. þá mundi hann t.d. hafa einhverjar brtt. að kynna í málinu. Þess í stað leggur hann til að málinu vísað frá í heildsölu eins og hann segir.

Það vakna ákveðnar spurningar vegna ræðu hv. þm. Varðandi spurninguna um það hvort frv. gangi á gerða kjarasamninga hefur slík staðhæfing verið margrekin ofan í hv. þm. Ég skil ekkert í honum að hann skuli koma með það hingað upp á borð nú. Það er engin óvissa með veikindarétt eða fæðingarorlof. Stjórnsýslulög eru ekkert tekin úr sambandi. Það er ekki verið að kveða stéttarfélögin í kútinn og þvert á móti reiknar hv. þm. með því að það verði allmikið líf í stéttarfélögunum um næstu áramót. Meira að segja svo mikið líf að það horfir til vandræða. Það er hans spádómur og það kemur ekki alveg heim og saman við það að frv. brjóti niður skipulega starfsemi stéttarfélaga. Nema hv. þm. telji að þau eigi að sofa svefni hinna réttlátu. En ég sakna þess að hv. þm. skuli ekki gera grein fyrir því hvernig hann hyggst leysa úr þeim málum sem upp koma þegar þetta frv. verður að lögum. Ætlar hann, ef hann fær einhvern tíma til þess brautargengi, að afnema þau viðbótarlaun sem menn hafa samið um á einstaklingsbundnum grundvelli?